Tengdar greinar

Hvernig tekstu á við áskoranir?

Áskoranir eru hluti af lífinu og flestir mæta þeim nokkrum um ævina. Þær eru miskrefjandi en með tímanum lærist að takast á við þær. Flestir koma sér upp vopnabúri og grípa til þeirra tóla er þar leynast þegar eitthvað bjátar á. En vilji menn tryggja að þeir taki alltaf réttar ákvarðanir og beiti réttu verkfærunum í hverju verkefni getur borgað sig að staldra við og spyrja sig þriggja spurninga áður en hafist er handa.

1. Er þetta áskorun sem ég þarf að mæta og leysa eða borgar sig að láta þetta vera, nú eða hreinlega ganga einfaldlega í burtu frá öllu saman?

Þar til þú hefur svarað þessu afgerandi sérð þú aðstæður ekki í skýru ljósi. Oft spólar fólk í sömu hjólförunum í samskiptum sínum við aðra eða er að reyna að stjórna aðstæðum sem það hefur enga stjórn á. Ef þú ert viss um að það sé í þínu valdi að laga aðstæður og þú hafir til þess allt sem þarf, skaltu ganga í verkið og leysa það. Ef ekki er hætta á að þú takir fljótfærnislegar ákvarðanir og gerir sömu mistökin aftur og aftur.

Til þess að fá skýra mynd af hvað er í gangi er nauðsynlegt fyrir þig að koma skikki á tilfinningarótið og ná jafnvægi. Fyrsta skrefið er því ævinlega að ná kyrrð. Næst er gott að leita ráða hjá einhverjum sem þú treystir. Sér hann einhverja leið til að þú getir lagað þetta?  Hugsanlega skortir þig eingöngu tíma og peninga til að ná að koma öllu í lag en ef þú átt í samskiptavanda mun það ekki duga til. Er lausnina að finna í hvernig þú talar við aðra eða talar þú ekki nóg við aðra? Ef vandinn liggur hjá þér skaltu leita leiða til að bæta þig og segja öllum að þú hafir byrjað að vinna að því. Sé rótin að öllu saman hegðun annarrar manneskju skaltu gera þér grein fyrir því strax að þar hefur þú engin völd og átt engin verkfæri til að breyta viðkomandi. Hann verður að finna hjá sér þörfina til að breytast. Þú hefur þá um tvennt að velja, annað hvort sætta þig við ástandið eða koma þér burtu úr aðstæðunum.

Þessar þrjár lausnir sem felast í spurningunni hljóma einfaldar og auðveldar en svo er alls ekki. Ef tilfinningar eru í spilinu er ekki hægt að breyta þeim í einu vetfangi og það er hægara sagt en gert að ná tökum á þeim. Flestir hika við að taka afgerandi skref og vilja frekar bíða og sjá til. Við blekkjum einnig oft okkur sjálf og teljum að betri tíð sé framundan og málin séu við það að leysast en sjaldnast leysast þau af sjálfu sér. Menn sveiflast því á milli þess að vilja taka stjórnina, bíða og sjá til og gefast upp og fara. Þetta ferli getur tekið mörg ár en ef þú spyrð þig og svarar heiðarlega hvað sé vænlegast til árangurs og raunverulega breyta einhverju er svarið oftast skýrt. Þá er byggt á fyrri reynslu og þekkingu og unnið með aðstæður eins og þær eru núna, ekki eins og þær voru eða geta orðið.

2. Get ég leitað til einhvers sem glímt hefur við sama vanda og leyst hann vel?

Fæstir hafa burði til að leysa vandamál sín einir og sjálfir. Þá er alltaf gott að velta fyrir sér hvort á meðal kunningja vina eða ættingja leynist einhver sem hefur staðið í svipuðum sporum og náð að finna leiðina út. Óttinn við að deila líðan sinni og segja frá vandanum heldur oft aftur af mönnum en sú tilfinning að vera einn að berjast við að því er virðist óyfirstíganlega hluti er mun verri. Þá draga menn sig í hlé, finna fyrir þunglyndi, kvíða og skömm.

Að setja sig í samband við einhvern sem hefur gengið í gegnum svipaða erfiðleika hjálpar á afgerandi hátt. Til að byrja með færðu fyrirmynd sem þú getur litið upp til og verið viss um að viðkomandi hefur skilning á þeim hindrunum og áskorunum sem þú ert að takast á við.

Hver verður fyrir valinu sem þín hjálparhella fer svo alfarið eftir hvar þú ert stödd/staddur. Þarftu vin sem heldur í hendina á þér og telur í þig kjarkinn, fagmanneskju eða sjálfshjálparhóp. Raunveruleg meðlíðan er smyrsl á sár og uppbyggileg ráð fleyta manni langt. Það er hægt að læra af reynslu annarra og margar leiðir til að takast á við vandamál. Þú munt finna leið sem hentar þér mun fljótar og betur með hjálp trausts aðila. Það er ekki að ástæðulausu að Bítlarnir sungu: „With a little help from my friends.“

3. Hvernig get ég virkjað eigin hæfileika mér til hjálpar?

Það er hægt að snúa vondum hlutum sér í hag. Margir nota þá leið að telja alla reynslu lífslexíu og leita leiða til að finna þann lærdóm sem draga má af öllum uppákomum. Aðrir kjósa að miðla og hjálpa öðrum með þá þekkingu í farteskinu sem verður til við að ganga í gegnum krísur. Meðan þær ganga yfir er hins vegar gagnlegt að spyrja sjálfan sig hvaða hæfni eða eiginleika þetta tiltekna vandamál kallar á og leita þeirra innra með sjálfum sér. Væri aukið umburðarlyndi svarið? Þolinmæði? Ákveðni? Kærleikur? Svarið fer eftir eðli vandans og allir hafa marga góða eiginleika sem hægt er að rækta og nýta sér þegar erfiðar áskoranir mæta þeim.

Hins vegar er vert að muna að lausnin á hverjum vanda liggur í að horfa á hann utan frá. Öllum hættir til að festast í ákveðnu hugarfari og sjá þess vegna enga leið út. Með því að staldra við og velta fyrir sér hvort þín hegðun, viðbrögð, framkoma eða aðgerðir séu hluti vandans er hægt að ákveða að stíga út vítahringnum og finna aðrar leiðir. Að vera meðvituð/meðvitaður um þetta er oft nóg til að nýtt sjónarhorn fæst á það sem verið er að takast á við. Gamlar venjur, siðir og hegðunarmynstur standa mjög oft í vegi fyrir okkur og eru stærstu hindranirnar á leið okkar til þroska. En með því að efla innsæi sitt inn í slíka hugsanaferla og tilfinninga viðbrögð hjá sjálfum sér skapast farvegur fyrir aðrar og betri lausnir.

Allir hafa innsæi og með hjálp þess má öðlast skilning á því hvar rót vanda í samskiptum og tilfinningalífi liggur. Oftast nær eru svo þær hindranir grunnurinn að því hvers vegna einstaklingar taka rangar ákvarðanir og skapa erfiðleika í lífi sínu. Vandi okkar kann að einnig að vera til kominn vegna gerða annarra en þá þurfum við að skoða viðbrögð okkar við þeim og hvernig þau stjórna síðan líðan okkar og lífi í kjölfarið. Of oft leiðum við hjá okkur það sem innsæið segir okkur. Það varar stundum við að treysta ákveðnum manneskjum eða segir okkur hver séu bestu viðbrögðin við tilteknum aðstæðum. Við kjósum hins vegar að hlusta ekki, látum aðra draga okkur inn í kringumstæður sem við kærum okkur iðulega ekki um að vera í. Það er einnig algengt að fólki finnist það hafa meiri stjórn á hlutunum en raunin er. Hugleiðsla, bænir, samræður og upplýsingaleit eru allt dæmi um aðferðir sem geta dugað vel til að draga úr streitu og opna hugann fyrir þeim möguleikum sem eru í stöðunni.

Vissulega er það svo að þegar eitthvað alvarlegt gerist þurfa menn að taka ákvarðanir skjótt og ekki gefst mikill tími til umhugsunar. Þá ríður á að muna að oft er hægt að biðja um umhugsunartíma, fá frest eða einfaldlega ganga burtu og taka sér tíma. Öll él birtir upp um síðir og þegar við nýtum okkar bestu hæfileika til að leysa vandamál getum við verið viss um að við verðum sáttari við útkomuna en ella hefði verið.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 6, 2024 07:00