Hversu sek var Christine Keeler?

Christine Keeler var aðeins nítján ára þegar hún varð miðpunktur hneyklismáls kenndu við John Profumo varnarmálaráðherra Bretlands.

Árið 1963 skók hneykslismál tengt varnamálaráðherra Bretlands, John Profumo, bresku þjóðina. Hann hafði átt í ástarsambandi við unga konu og hún á sama tíma í tygjum við rússneskan flotaforingja. Á tímum kalda stríðsins var þetta alvarleg ávirðing og Profumo, líkt og Clinton síðar, neitaði öllu í fyrstu. BBC gerði mjög góða þætti um þetta umdeilda mál, The Trial of Christine Keeler, en þar er sagan sögð frá sjónarhóli stúlkunnar sem allra augu beindust að á þessum tíma.

Christine var aðeins nítján ára þegar samband hennar og Johns stóð yfir. Hann var kvæntur, Valerie Hudson, leikkonu og einni af glæsilegustu konum Bretlands. Hún var upprunnin í verkalýðsstétt, fædd í Uxbridge í Middlesex. Faðir hennar, Colin Keeler, yfirgaf fjölskylduna þegar hún var þriggja ára. Móðir hennar Julie Ellen Payne giftist aftur og stjúpinn, Edward Huish misnotaði Christine þegar hún var tólf ára. Það gerðu einnig sumir vina hans sem hún gætti barna fyrir, að hennar sögn, en hún sagði frá ofbeldinu sem hún var beitt í viðtölum. Sautján ára átti hún í ástarsambandi við þeldökkan yfirmann í bandaríska flughernum og varð ófrísk eftir hann. Í örvæntingu reyndi hún að losa sig við fóstrið og notaði til þess penna. Lítill drengur fæddist löngu fyrir tímann og lifði aðeins í sex daga.

Kannski var þess vegna ekkert undarlegt að Christine fór að heiman eins fljótt og hún gat, settist að í London og fór að vinna fyrir sér sem módel í kjólabúð. Hún þráði betra líf og vildi verða ljósmyndafyrirsæta. Christine átti því að baki margvíslega erfiða lífsreynslu þegar henni bauðst vinna í Murray‘s Cabaret-klúbbnum í London. Þar gengu gengilbeinur um beina berar að ofan og hún bættist í þeirra hóp.

Leiddi saman miðaldra karla og ungar stúlkur

Klúbbinn sóttu margir velefnaðir karlmenn í góðum stöðum og þar hitti Christine, Stephen Ward. Hann var liðskekkjulæknir og mjög vinsæll meðal yfirstéttarfólks á þessum árum. Hann átti íbúð í Wimpole Mews og bauð ungum konum reglulega að búa hjá sér um tíma og lánaði þeim fé ef þær voru blankar. Hann átti ekki sjálfur í kynferðislegum samböndum við þessar vinkonur sínar en hafði gaman af að kynna þær fyrir valdamiklum og ríkum viðskiptavinum sínum sem á móti nutu þess að heimsækja hann og njóta félagsskapar laglegra ungra kvenna.

Stephen kynnti Christine fyrir John Profumo í helgarheimsókn á Cliveden-sveitasetri Astor vísigreifa. Á sama tíma var þar gestur Yevgeny Ivanov rússneskur flotaforingi og starfsmaður rússneska sendiráðsins í Bretlandi. Hann og Christine höfðu átt í stuttu sambandi skömmu áður. John heillast af ungu konunni og í skamman tíma eiga þau í eldheitu ástarsambandi. Oft hittust þau heima hjá Stephen en einnig á hótelum og í bíl hans. Hann sendi henni nokkrum sinnum skrifuð skilaboð meðan á þessu stóð og lét jafnan ýmis ástarorð fylgja. Þau urðu til þess að Christine átti ekki í vandræðum með að sanna mál sitt þegar hún seldi blöðunum sögu sína.

Margar bækur hafa verið ritaðar um Profumo-málið og áður gerðir sjónvarpsþættir um það. Í þeim tilfellum hefur mest verið einblínt á hlið ráðherrans, valdamikla mannsins sem missti starfið og trúverðugleika sinn vegna hliðarspors síns eða sjónarhorn Stephen Ward sem var sakaður um að lifa af ósiðlegum tekjum og drap sig í kjölfarið. Kvikmyndin Scandal fjallaði til að mynda eingöngu um hann. Christine hefur hins vegar verið ófrægð og iðulega ýmist látið að því liggja að hún hafi verið útsmogið tálkvendi eða einfaldlega vændiskona. En ef marka má handrit þessara nýju þátta var hún hvorugt. Ekki má gleyma að hún er aðeins nítján ára þegar allt verður vitlaust og sautján þegar samband hennar við Profumo hófst. Á þeim aldri er ólíklegt að fólk hafi þá reynslu og kænsku til að bera sem þarf til að tæla og beita aðra óheiðarlegum brögðum á sannfærandi hátt.

 „Stjúpinn, Edward Huish misnotaði Christine þegar hún var tólf ára. Það gerðu einnig sumir vina hans,sem hún gætti barna fyrir, að hennar sögn, en hún sagði frá ofbeldinu sem hún var beitt í viðtölum.“

Þráði ást og viðurkenningu

Líklegt er að mynd þáttanna af Christine sé nokkuð raunsönn. Hún á að baki sára og erfiða æsku og þráir það eitt að hljóta viðurkenningu og aðdáun. Allsnægtalíf hinnar valdamiklu yfirstéttar virkar heillandi og hún hefur gaman af að skemmta sér. Í fyrstu er allt létt og fjörugt en þegar syrtir í álinn bæði vegna ofbeldisárása tveggja fyrrum elskhuga hennar, þeldökkra jasstónlistarmanna, og eilífra peningavandamála ákveður Christine að segja frá ævintýri sínu og Profumo. Þættirnir, The Trial of Christine Keeler, hafa verið í vinnslu í sex ár og Christine sjálf tók þátt í undirbúningi þeirra þar til hún dó í október 2017. Henni var mjög umhugað um að hún yrði ekki sýnd sem leiksoppur karlmanna en margvísleg öfl eru að baki því hvernig Profumo-málið var blásið upp og hvernig það fór á endanum.

John Profumo

Engin vafi er á að pólitískir andstæðingar stjórnar Harolds Macmillans notfærðu sér ástandið en stjórnin féll í kjölfarið. Það gerðist þrátt fyrir að innan kerfisins hófst strax viðleitni til að þagga niður málið og bjarga því sem bjargað varð. Liður í því var að færa sönnur á að Christine og vinkona hennar, Mandy Rice-Davies hafi verið vændiskonur og Stephen Ward notið góðs af vinnu þeirra. Stúlkurnar voru neyddar til að segja að þær hafi látið hann hafa peninga en báðar sögðu síðar að þar hafi eingöngu verið um smáupphæðir að ræða til að greiða fyrir sinn hlut í mat og húsnæði þegar þær bjuggu hjá honum eða endurgreiðsla á lánum hans.

Stephen var ákærður fyrir að lifa af ósiðlega fengnum tekjum sem er ögn fínni leið til að tala um hórmang. Hann þoldi ekki álagið og framdi sjálfsmorð áður en dómur féll með því að taka inn ofskammt af svefnlyfjum. Í raun var kæran hugsanlega röng því hann hafði gríðarlega góðar tekjur af lækningastofu sinni og þurfti síst af öllu á smáaurum frá stúlkunum tveimur að halda. Margt bendir hins vegar til þess að Stephen hafi verið einn þeirra manna sem sóttist eftir félagsskap valdamikilla aðila og hann hafi þráð að gera sig gildandi í þeim hópi. Hann var fljótur að finna að þessir menn kunnu vel við sig í notalegu umhverfi inni á heimili hans þar sem þeir gátu notið félagsskapar ungra kvenna án þess að óttast að um það væri talað.

„Margt bendir hins vegar til þess að Stephen hafi verið einn þeirra manna sem sóttist eftir félagsskap valdamikilla aðila og hann hafi þráð að gera sig gildandi í þeim hópi.“

Önnur sýn í dag en þá

Slíkt er auðvitað hórmang í sjálfu sér þótt ekki skipti peningar um hendur. Stephen hefur líklega litið á stúlkurnar sem aðgöngumiða sína að þeim félagslegu kreðsum sem hann þráði að tilheyra. Honum fannst hann vera vinur þeirra og hann reyndi að ráða þeim heilt eftir bestu getu, bæði hvaða menn gott væri að leggja lag sitt við og hvað varðaði útlit og klæðaburð. Að mörgu leyti minnir framganga hans á íslenskan athafnamann sem lengi rak nektardansstaði hér á landi. Sá taldi sig vera að gera konunum gott, veita þeim tækifæri til betra lífs og hann sjálfur komst í kynni við ýmsa áhrifamenn sem litu inn á staðina hans til að smakka viskí og horfa á konurnar fækka fötum.

Metoo-byltingin og þær frásagnir sem komu upp í tengslum við hana varpa hins vegar alveg nýju ljósi á samskipti af þessu tagi. Þótt Christine Keeler hafi ekki viljað líta á sjálfa sig sem fórnarlamb verður að setja spurningamerki við það að sautján ára stúlka hafi átt að vera svo útsmogin að hún hafi getað blindað rækilega fjörutíu og sex ára velmenntaðan, auðugan stjórnmálamann á hátindi ferils síns. Sú staðreynd að John Profumo brast dómgreind getur vart verið hennar sök. Stephen Ward var einnig fullorðinn maður og hans þáttur í atburðunum verður heldur varla skýrður með því að hún hafi blekkt eða flækt hann í neti sínu.

Það er algjörlega ljóst að Christine er ekki saklaust barn heldur. Hún er peningagráðug og hana þyrstir í athygli. Hún er einnig hvatvís og hugsaði sjaldnast langt fram í tímann en í raun er erfitt að sjá að nokkur hafi átt skilið að flækjast inn í þennan hvirfilbyl að John Profumo undanskildum. Hann hefði í ljósi þess að hann var kvæntur og í ábyrgðarstöðu í samfélaginu átt að sýna meiri og betri siðferðisþroska. Auður hans tryggði það síðan að hann fór best út úr þessum málum. Kona hans ákvað að fyrirgefa honum. Hann dró sig í hlé frá stjórnmálum og helgaði sig góðgerðarmálum og hlaut fyrir það orðu frá Elísabetu II.

Lifði í fátækt

Stephen Ward valdi að kveðja þetta líf en samúð almennings með honum hefur alltaf verið mikil. Dómur yfir honum var ekki fallinn þegar hann tók þá ákvörðun en Christine bar vitni fyrir réttinum. Stephen var flinkur teiknari og góður myndlistarmaður og andlitsmynd hans af Christine Keeler var keypt af breska andlitsmyndasafninu og hangir þar til sýnis.

Christine Keeler var dæmd og afplánaði dóm fyrir að bera fyrrum kærasta sinn, Lucky Gordon röngum sökum. Hún giftist tvisvar en hvorugt hjónabanda hennar entist lengi. Hún átti tvö börn en annað þeirra var alið upp af móður hennar, Julie. Mest af þeim gríðarlegu fjárhæðum sem hún fékk borgaðar frá blöðunum fyrir sögu sína fóru í að greiða lögfræðingum fyrir aðstoð. Seinna sagði hún í viðtal í breska sjónvarpinu að allan sjöunda áratug síðustu aldar hafi hún ekki lifað heldur skrimt. Hún lést úr langvinnri lungnateppu aðeins sjötíu og fimm ára.

Ritstjórn júlí 6, 2023 07:00