Fyrir tveimur árum gekk Sigrún í gegnum sambandsslit og stóð í kjölfarið á krossgötum í lífinu. Þetta var ekki í fyrsta sinn, en hún fann að hún þurfti á annars konar hugrekki að halda, komin á sjötugsaldur – til að þurfa, að einhverju leyti, að byrja upp á nýtt. Hún hafði nokkrum árum áður heyrt viðtal við Bryndísi Fionu Ford, skólastjóra á Hallormsstað sem var að segja frá spennandi eins árs námi sem skólinn býður upp á, Sjálfbærni og sköpun. Hún tók því fyrsta skrefið og sótti um.

Sigrún með Bjarma Rúnari ömmustrák en barnabörnin eru orðin sex.
Sigrún hefur reynt margt í lífinu, en hún var í hópi þeirra sem lentu í snjóflóðinu á Flateyri í október 1995.
„Ég missti manninn minn, Sigurð þegar hann var aðeins þrjátíu og níu ára og elsta son, Þorstein sem þá var átján ára,” segir hún. ,,Og auk þess var heimili okkar á Flateyri farið, svo ég flutti til Reykjavíkur með eftirlifandi börnin mín þrjú. Ég eignaðist svo fimmta barnið mitt nokkrum árum síðar.“
Sigrún var ekki nema þrjátíu og sjö ára þegar flóðið féll. „Ég var svo gæfusöm að geta eignast nýja íbúð og byggt okkur heimili í Fossvoginum. Heimilið var í lítilli lokaðri götu og ég minnist alltaf góðra nágranna sem tóku okkur opnum örmum og voru svo góð við okkur. Þau þekktu söguna okkar og vissu hvað var að baki, maður fann fyrir velvild þeirra.“

Sigrún með öðrum af yngstu ömmustrákunum sínum, Unnsteini Marínó.
Mismunandi hugrekki á ólíkum aldursskeiðum
Kannski atburðir og áföll í lífinu hafi gefið Sigrúnu hugrekki til að fara í nýtt nám, hinum megin á landinu, komin á sjötugsaldur.
„Mér fannst þetta mjög erfiðar aðstæður, einmitt vegna þess að ég var á þessum aldri.” Segir hún. ,,Ég var yngri þegar snjóflóðið féll og átti þrjú börn sem ég þurfti að hugsa um, og fljótlega bættist svo yngsta dóttir mín í hópinn. Ég og Siggi, maðurinn minn, byrjuðum nokkuð snemma að eignast börn, ég var ekki orðin tvítug þegar elsti sonur minn fæddist og var orðin þriggja barna móðir tuttugu og þriggja ára. Yngsta barnið okkar Sigga fæddist svo þegar ég var að verða þrjátíu og fjöugrra ára, og hún var ekki nema þriggja ára þegar flóðið féll. Hin börnin voru fjórtán ára og sextán ára. Á þessum aldri hafði ég öðruvísi hugrekki. Maður vill standa sig og börnin eru bara númer eitt, tvö og þrjú. Á þeim tíma fannst mér ég líka eiga meira eftir og fann styrk til að halda áfram og hefja nýtt líf.“
Sigrún var hins vegar öðruvísi kvíðin þegar kom að sambúðarslitunum.
„Öryggi mitt var farið og ég vissi ekkert hvað tæki við. Ég vissi ekkert hvað ég vildi gera. Ég vissi bara að ég þyrfti á því að halda að prófa eithvað nýtt. Þá hafði ég samband við Bryndísi skólastjóra og sagði henni söguna mína. Ég var handviss um að ég myndi upplifa eitthvað fallegt og jákvætt í umhverfinu fyrir austan. Ég hafði aldrei verið þarna áður, nema hafði að vísu keyrt þarna í gegn sem fararstjóri fyrir Rauða krossinn, fyrir sléttum þrjátíu árum. “

Það er heilandi og hollt að faðma tré.
Sigrún var þó ögn hikandi og fannst erfið tilhugsun að vera fjarri fjölskyldu og öryggi sínu í Reykjavík. En næsta skref var að gefa þessu tækifæri eftir að umsókn hennar í námið var samþykkt. Sigrún fór austur til Hallormsstaðar í september 2023.
„Ég kom þarna inn í þetta gamla fallega hús með sinni lykt og stólunum með handofna áklæðinu á. Andinn var ótrúlegur og ég hefði aldrei trúað að dvölin mín þar ætti eftir að hafa svo djúpstæp áhrif á mig.” Hún fékk úthlutað herbergi á heimavistinni á efri hæð hússins. ,,Ég sagði alltaf að ég hefði fengið besta herbergið” segir hún og hlær. ,,Ég var með tvo glugga sem vísuðu hvor í sína áttina og ég gleymi ekki fyrsta morgninum. Ég hafði átt frekar svefnlitla nótt en ég vakna alltaf snemma svo ég gekk að glugganum rétt fyrir hálf sjö og dró upp gluggatjaldið. Sólin var að koma upp fyrir utan og haustlitirnir ljómuðu í skóginum. Trén náðu nánast alveg upp að rúðunni og mér fannst þau vera bjóða mig velkomna. Þá fann ég strax ákveðinn frið og kyrrð í hjartanu.“

Sigrún tók tilvitnanir úr svörunum sem hún fékk í rannsókninni, setti yfir myndir sem hún tók í skóginum og á lokadaginn gat fólk lesið á leið sinni gegnum skóginn.
Verkefnið ,,Leitið og þér munuð finna“
Og sú kyrrð átti eftir að magnast og dýpka eftir því sem Sigrún dvaldi lengur á staðnum. Lokaverkefni hennar fjallaði um áhrif trjáa og gróðurs á fólk. Hún fékk tuttugu og tvo ólíka einstaklinga til að taka þátt í verkefninu og svara stöðluðum spurningalista.
„Þetta voru fimm spurningar um líðan út í náttúrunni og áhrif náttúrunnar á þátttakendur,” segir hún. ,,Þetta er mjög fjölbreyttur hópur, þau eru með mismunandi bakrunn, menntun, í margvíslegum störfum og á mismunandi aldri. Enginn svaraði eins en allir svöruðu beint frá hjartanu. Sumir meira út frá andlegri líðan og upplifun en aðrir einbeittu sér að því líkamlega. Meðal þátttakenda voru framleiðandi ilmolía úr trjágróðri, kennari, líffræðingur, skógarvörður, samnemendur og fólk í ýmsum störfum á Egilsstöðum. Ég sá svo fyrir mér frá upphafi hvernig ég vildi skila verkefninu. Ég gekk mikið um, fór í göngutúr nánast daglega og tók margar myndir af því sem heillaði mig í náttúrunni. Ég valdi svo nokkrar myndir og lét prenta tilvitnanir úr svörum þátttakenda á þær og útbjó spjöld fyrir lokasýningu skólans.“
Um vorið var svo haldinn opinn dagur í skólanum til að sýna hvað nemendur væru búnir að læra ásamt lokaverkefnum þeirra. „Ég var með kynningu á verkefni mínu innandyra en ásamt því hengdi ég spjöldin upp á milli trjánna í garðinum og svo gátu gestir gengið um og skoðað. Mér fannst mikilvægt að hafa verkefni mitt innan um trén og náttúruna á staðnum.“
Nokkrar tilvitnanir í svörin sem Sigrún fékk í rannsókn sinni:
„Formfalleg með langar mjúkar nálar sem eru fimm saman í búnti og með fallegan börk og stóra köngla og fræ, fullt af próteini.“
„Í skógi líður mér betur en í öðrum vistkerfum. Þar er ekki eingöngu tré, þar eru fuglar, skordýr, sveppir, ótal plöntutegundir svo eitthvað sé nefnt. Trén vinna og tala saman neðanjarðar.“
„Birki minnir mig á æskusumar í sveitinni í Finnlandi þar sem sólin skein ég gegnum fallega birkiskóginn sem var á bak við húsið. Frá fornu fari hefur reynir verið heilagt tré, þar sem það er þekkt sem tré lífsins og táknar hugrekki, visku og vernd. “

Hinn heillandi Hallormsstaður.
Töfrarnir í náttúrunni
Sigrún hefur mikla trú á að hollt sé að mynda tengsl og rækta þau. Henni finnst margt benda til þess að margir vanræki þennan hluta af sjálfum sér og lífinu.
,,Maður hefur heyrt að unga fólkið fylgist lítið með en ég er ekki endilega sammála því. Ég vil alls ekki að alhæfa um alla en ég fæ það frekar á tilfinninguna að unga fólkið og í raun fólk yfir höfuð staldri ekki við. Það fer á netið, les stuttar fréttir um það sem þeim finnst spennandi en hefur kannski minni áhuga á dýpri umræðum um öll hjartans mál eða það sem er að gerast í samfélaginu. Heimurinn er breyttur, hann er öðruvísi, en ekkert jafnast á við að tala saman maður á mann, horfast í augu, segir hún. ,,Skjárinn og samfélagsmiðlar geta aldrei komið í stað þess. Við þurfum líka tengsl við náttúruna. Hún er í okkur og við erum hluti af henni. Nú er mikil umræða um heilsu og vellíðan og það þarf ekki kosta mikið að sækja sér heilsubót út í náttúruna. Hægt er að gera marga einfalda hluti til að bæta heilsuna og stuðla að betri líðan, meðal annars að fara í göngutúra og faðma tré.“
Þess má geta að Sigrún fór víða í verkefni sínu, fjallaði meðal annars skógarböð, ilm, hljóð og nærandi návist skógarins en einnig fann hún heimildir um trjáanda og hulduverur sem leynast í laufskrúðinu þótt ekki allir hafi næmni til að sjá þær ferðast um. „Náttúran hefur alltaf haft heilandi áhrif á mig og ég fer í göngutúra með það að markmiði að leyfa mér að upplifa það sem kemur til mín. Hvort sem það eru hugsanir, minningar, hljóð, lykt eða annað. Ég hef grátið og hlegið, dansað og hlustað á tónlist og svo staldra ég oft við til að taka myndir og faðma tré. Þegar ég var fyrir austan, þurfti ég að taka einn dag í einu. Ég fann hvað dvölin var mér mikilvæg en mér fannst líka mjög erfitt að vera í burtu frá fjölskyldu minni og barnabörnum og að kveðja sjö ára samband með öllum þeim tilfinningum sem því getur fylgt. En það hægðist einhvern veginn á öllu, enda rólegra umhverfi en maður er vanur úr höfuðborginni með sínum hraða og áreiti. Það gaf mér rými til að fara í gegnum þennan erfiða tíma og í skóginum fyrir austan náði ég staldra við, hlusta betur á mína innri rödd og finna innri ró. Stundum langar mig mest að flytja austur.” Segir hún og hlær.

Hópurinn saman í skógarveislu eftir útskrift. Á myndinni er einnig Sigurður Arnar, ömmustrákur, Sigrúnar en hann fékk að koma og vera með.
Grunnþörfin fyrir félagsskap útundan
Og enn og aftur stendur Sigrún á krossgötum. Hún hefur langa og fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu og er ekki tilbúin að hætta að vinna. Meðal annars vann hún sem matráður hjá flugfélaginu Wow og eldaði heilnæman mat fyrir starfsfólkið, en Sigrún er grænmetisæta og hefur verið í mörg ár. Hún hefur einnig verið flotkennari, stuðningsfulltrúi, sinnt umönnun barna og aldraðra og fararstjórn. Fyrir nokkrum árum gerði hún líka tilraun til að hleypa af stokk fyrirtæki, Lifað á líðandi stundu, sem átti að bjóða upp á þá þjónustu að aðtoða við umönnun eldra fólks.
,,Grunnþörfum þeirra er sinnt, en grunnþörfin fyrir félagsskap á það til að verða útundan. Hugmyndin var að vera til staðar félagslega, fara með fólk til læknis, í leikhús, sund eða á kaffihús.” Hún hafði fengið ýmsan stuðning við að koma fyrirtækinu á fót en af ýmsum ástæðum varð ekki meira úr því.“
En heilsan og manneskjan sjálf hefur lengi verið hennar hjartans mál. ,,Við þurfum að setja heilsuna í forgang til að hjálpa okkur að takast sem best á við lífið og öll verkefnin sem það færir okkur. Heilsan er mikilvæg til að njóta allra góðu stundanna til fulls en einnig er hún það mikilvægasta sem við eigum þegar erfiðleikar bjáta á,” segir hún.

Holl skilaboð í skógi.
Vill kynna upplifun sína af Hallormsstað
Aðspurð um hvað hún hafði hugsað sér að gera við verkefnið í framhaldinu stóð ekki á svörum.
„Ég hafði hugsað mér að kynna sögu mína og upplifun af Hallormsstað. Ég er búin að tala við rekstraraðila Flórunnar í Grasagarðinum og langar að fá fleiri með mér og vera með svona pop-up viðburði um náttúruna og heilsuna. Viðburðirnir yrðu auglýstir að einhverju leyti en markmiðið væri samt að þeir væru heimilislegir og persónulegir. Mig langar að segja frá minni upplifun, að fara í nám hinum megin á landinu sextíu og fimm ára gömul og hvernig sú ákvörðun hjálpaði mér og studdi mig á minni göngu við að kveðja heimili mitt og sjö ára sambúð. Ég spurði sjálfa mig; hvað langar mig að gera? Ákvað að fara í burtu og læra á sjálfa mig, á nýjan hátt, og það var það sem gerðist.
Í skólanum kynntist ég frábærum hópi af fólki frá tvítugu til sextíu og fimm. Við vorum tvær á þeim aldri. Við erum öll mjög ólík, komum úr mjög ólíkum áttum en náðum að deila níu mánuðum saman og upplifa mjög margt, innan um skóginn.
Þetta átti sérstaklega við um mig. Ég hef alltaf elskað að fara út í náttúruna. Hef alltaf sótt mikið í hana. Á mér langa sögu af heimsóknum í Hellisgerði, Grasagarðinn og Heiðmörk. Ég fann hvað það róaði taugakerfi mitt og mín næmni liggur svolítið á þessum stað. Í náttúrunni næ ég að jarðtengja mig, finna að ,,hér er ég” og finna hvernig mér líður. Það er svo margt sem tosar í lífinu og svo margvísleg verkefni sem maður þarf að takast á við.“

Þegar Sigrún vaknaði fyrsta morguninn á Hallormsstað blasti litríkur skógurinn við.
Hægjum á okkur
„Og ég er enn að bíða eftir ,,tækifærinu”, heldur Sigrún áfram. „Spurningarnar ,,hvað tekur næst við” og ,,hvað hef ég fram að færa” eru mér ofarlega í huga. Ég er ekki þannig manneskja að ég geti bara sest í helgan stein. Ég bý að þeirri reynslu sem ég öðlaðist þegar við hjónin fluttum fyrst vestur. Þegar maður flytur svona út á land fær maður svo mörg tækifæri að mínu mati. Þú verður hluti af samfélagi og allir hafa hlutverk og eru inn í lífi hvers annars. Ég byrjaði að vinna þar á litlu öldrunarheimili og endaði sem yfirmanneskja þar undir lokin. Börnin mín ólust upp við mikið frelsi, fengu að fara niður á bryggju að taka á móti pabba sinum og fara með honum á sjó. Þau voru þátttakendur í lífi hinna fullorðnu og hluti af samfélaginu öllu. Ég sé mun á þremur börnunum mínum elstu sem fengu að alast upp á Flateyri og yngri dætrum mínum sem ólust upp í borginni. Hér erum við alltaf á fullu að skutla börnunum okkar hingað og þangað, hver í sínu horni og alltaf verið að reyna fylla upp í einhverskonar gerviþarfir af því við erum með svo mikið samviskubit yfir því hvað við erum upptekin í lífinu. Mig langar að finna leið til að hjálpa fólki að hægja á sér og njóta þess sem við erum svo lánsöm að hafa ótakmarkað aðgang að, náttúrunni allt í kring.“

Skógurinn bætir geð flestra og gefur orku.
En hvenær, hvernig og hvar tækifærið bankar upp á er í það minnsta alveg víst að Sigrún á eftir að halda áfram að notfæra sér heilandi áhrif trjáa og gróðurs.
„Það getur hjálpað til við að örva skilningarvitin og opna vitund okkar um að leita inn á við og hlusta. Hvað mig sjálfa varðar þá nýt ég þess að eiga góðar stundir með börnum mínum og barnabörnum umfram allt. Ég er heppin að vera við góða heilsu svo ég nota stundirnar með barnabörnunum til að fara með þeim út í náttúruna sem oftast. Þar kenni ég þeim að taka eftir umhverfinu sínu, snerta og hlusta.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.