Get ekki hugsað mér að flytja aftur heim

 

Sigurveig Eysteins.

Það getur verið löng þrautaganga að fá vinnu ef fólk er komið á miðjan aldur. Fólk sækir um fjölda starfa og fær sjaldnast svör. Þetta hefur Sigurveig Eysteins fengið að reyna á eigin skinni. Hún segir að það hafi farið að þyngjast fyrir fæti þegar hún komst á fimmtugsaldurinn en fram til þess tíma hafi það verið minnsta mál í heimi að skipta um vinnu eða fá nýja vinnu. Sigurveig er fjölmenntuð hún er með próf sem útstillingahönnuður, tækniteiknari og með próf í iðnhönnun. Hún hefur tekið fjölda námskeiða í myndlist meðal annars frá Myndlistarskólanum í Reykjavík og sótt námskeið til London. „Ég er búin að eyða tveimur áratugum á allskonar námskeiðum á meðan ég hef verið að bíða eftir að einhver vilji ráða mig í vinnu,“ segir hún glettin þegar blaðamaður Lifðu núna nær tali af henni.  Sigurveig býr í Noregi. Hún ogsambýlismaður hennar fluttu þangað fyrir um sex árum. „Við búum skammt frá Osló á yndislegum stað í Bødalen en hann er mitt á milli Asker og Drammen.

Sótti um allt

„Á meðan ég bjó á Íslandi sótti ég um fjölda starfa. Ég sótti um allt sem var laust, vinnu sem ég taldi að ég hefði menntun til að sinna en ég lét ekki þar við sitja, ég sótti líka um á leikskólum og frístundaheimilum. Ég komst stundum í viðtöl og mér fannst þau yfirleitt ganga vel. Það var allavega ekki að sjá að þeim sem voru að ræða við mig leiddist á meðan á viðtalinu stóð. Ef ég vissi hjá hvaða fyrirtæki ég var að sækja um, fylgdi ég umsókninni eftir og þegar var búið að ráða hringdi ég og spurði hvers vegna ég hefði ekki verið ráðin. Svarið var oft að ég væri allt of hæf og menntuð í starfið eða þá að allir sem störfuðu hjá fyrirtækinu væru mun yngri en ég og því passaði ég ekki í hópinn. Kennitalan mín er bara handónýt,“ segir Sigurveig.

Ástæður fyrir uppsögn hreinn skáldskapur

Dóttir Sigurveigar í heimsókn.

Hún fékk þó vinnu sem henni líkaði afar vel og vissi ekki betur en hún myndi halda þeirri vinnu. „Ég fékk kennarastöðu og fór að kenna myndlist. Mér líkaði starfið ákaflega vel og náði vel til krakkanna. Ég byrjaði í ágúst en í janúar fékk ég flensu og var heima í viku. Þegar ég kom til baka var mér sagt upp munnlega og gert að hætta strax. Ég bað um skriflegt uppsagnarbréf þar sem ástæða uppsagnarinnar væri tilgreind. Þegar ég fékk uppsagnarbréfið loksins í pósti nokkru síðar, voru þær ástæður sem gefnar voru fyrir uppsögninni hreinn skáldskapur. Í millitíðinni hafði ég fengið símtöl frá samkennurum mínum og foreldrum þar sem fólk var miður sín yfir því að ég væri alvarlega veik og hefði þurft að hætta. Skólastjórinn hafði þá dreift þeirri sögu að ég væri veik og hefði orðið að hætta. Hann sagði hins vegar engum frá því að hann hafði ráðið kennara með réttindi í mitt starf í desember, mörgum vikum áður en mér var sagt upp. Ég reyndi að leita réttar míns hjá Kennarasambandinu og en það hafði ekkert upp á sig. Það vildi enginn gera neitt í málinu, þrátt fyrir að ég hefði greitt félagsgjöld  og annað sem mér bar af launum mínum,“ segir Sigurveig. Hún segir að þetta mál hafi haft mjög slæm áhrif á hana andlega. „Mér leið hræðilega eftir þessa reynslu og hafði mig ekki í að sækja um fleiri kennarastöður þrátt fyrir að mér líkaði mjög vel að kenna og samskipti mín og barnanna væru með miklum ágætum.“

Fór í algert þunglyndi

Sigurveig segir að það reyni mikið á fólk andlega að fá ekki vinnu. „Þegar ég sótti um hvert starfið á fætur öðru og fékk lítil sem engin viðbrögð þá fór ég í algert þunglyndi. Ég var stundum svo slæm að ég lokaði mig af inn í svefnherbergi, dró niður gardínurnar og lokaði á eftir mér, svo reyndi ég að sofa sem lengst og mest. Það koma upp allskonar hugsanir eins og hvað er að mér, af hverju fæ ég ekki vinnu eins og allir aðrir? Af hverju fæ ég engin svör, af hverju er ég ekki ráðin? Maður verður alveg miður sín. Smátt og smátt missir maður svo móðinn og hættir að sækja um. Fólk heldur oft að það sé eitthvað að fólki sem fær ekki vinnu. Það sé gallað á einhvern hátt.Maður finnur fyrir fordómum. Ég veit hins vegar að það er ekkert að mér. Ég er vel menntuð var vel liðinn í þeim störfum sem ég sinnti. Ég hef enga útlitsgalla og hef hugað vel að útliti mínu og heilsu í gegnum tíðina.  Það er hins vegar eitthvað að samfélagi sem hafnar fólki sem komið er á miðjan aldur.“

Það getur verið ansi snjóþungt en hvutti þarf samt að komast í sinn daglega göngutúr.

Er í listaskóla í Noregi

Sigurveig segir að það segi sig sjálft að atvinnuleysi hafi slæm áhrif á fjárhaginn. „Ég er reyndar svo vel sett að ég er vel gift og maðurinn minn hefur séð fyrir mér. Hann er á góðum launum hér í Noregi.“ Í dag brosir lífið við Sigurveigu hún er í listaskóla í Noregi sem hún segir að námið sé alveg frábært. „Þetta er lítill einkaskóli, Det tverrfaglige kunstinstitutt i Bœrum, skammt frá Fornebu. Þetta er þriggja ára nám og ég útskrifast eftir ár. Ég hef lært alveg ótrúlega mikið hér í skólanum og ég kvíði næstum fyrir að útskrifast.  Ég fær norsk námslán í skólanum, þau eru miklu hagstæðari en íslensk lán. Kerfið er líka mjög einfalt. Ég sótti um í gegnum tölvuna, það tók tíu mínútur, þremur eða fjórum dögum síðar voru peningarnir komnir inn á reikninginn minn. Þetta var engin skriffinnska ekkert vesen. Ég fæ lán fyrir skólagjöldunum og sem samsvarar 40 til 50 þúsund krónum á mánuði í vasapeninga. Það dugar mér fyrir bensíni á bílinn, pappír og öllu því nauðsynlegasta sem ég þarf. Þar sem ég hef engar tekjur er um það bil helmingurinn af námslánunum afskrifaður á hverju ári.“

Norskar vinnumiðlanir hagnast á að menn fái störf við hæfi

Sigurveig segist hafa sótt um nokkur störf í Noregi en eftir að hún byrjaði í skólanum hafi hún hætt að sækja. „Ég var ekki orðin nógu góð norskunni þegar ég var að skoða vinnumarkaðinn hér, nú er ég hins vegar orðin full talandi á norsku. Ef maður fer til vinnumiðlana og er á skrá hjá þeim þá fær maður vinnu. Það kostar hins vegar talsvert, maður þarf að borga fyrir að vera á skránni og svo fær vinnumiðlunin prósentur af tekjum manns fyrsta árið sem maður er í vinnu. Þetta er hins vegar mjög hvetjandi fyrir vinnumiðlanirnar, þær hagnast á því að fólk fái störf við hæfi. Þær gera því sitt í því að hjálpa fólki til að fá vinnu, jafnvel þó það sé orðið sextugt eins og ég er.“

Á ferð með myndavélina en ljósmyndun er áhugamál Sigurveigar.

Líkar afskaplega vel að búa í Noregi

Hún segir að þeim hjónum líki afskaplega vel að búa í Noregi og hún sjái það ekki fyrir sér að flytja til Íslands aftur. „Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að flytja aftur til Íslands. Ég hef efni á því að koma þrisvar til fimm sinnum á ári til Íslands. Börnin mín og barnabörnin búa þar og ég held góðum tengslum við þau. Þau koma líka oft í heimsókn til okkar. Ég er mjög dugleg að bjóða vinum og vandamönnum að koma í heimsókn til mín. Ég á marga vini hér bæði norska og íslenska svo mér leiðist aldrei. Veðrið hér er gott. Hér bíður maður ekki í marga mánuði eftir sumri sem aldrei kemur. Maður getur stólað á sumrið. Veturnir eru að vísu oft snjóþungir en hér rutt, saltað og sandað svo maður er aldrei í vandræðum vegna færðar. Það er heldur ekki þetta eilífa rok hér, hér á lognið heima. Heilbrigðiskerfið hér er líka mjög gott. Ef maður þarf á læknishjálp að halda þarf maður aldrei að bíða neitt. Ég gæti ekki hugsað mér að enda inni á hjúkrunarheimili á Íslandi þar sem mér skilst að þjónustan og aðbúnaðurinn sé ekki neitt til að hrópa húrra fyrir. Ég held að ég kjósi að eldast í Noregi.“

 

Ritstjórn júlí 13, 2018 09:53