Tengdar greinar

„Illa menntaðir en alúðlegir fuglar“

Fyrsta alvöru bítlahljómsveitin Swinging Blue Jeans kom til Íslands í febrúarmánuði fyrir 50 árum. Dagblöð þess tíma voru uppfull af frásögnum af komu hljómsveitarinnar sérstaklega „skrílslátum“  ungra aðdáenda.  Svona lýsti dagblaðið Vísir komu hljómsveitarinnar þegar hún lenti á Reykjavíkurflugvelli 9. febrúar 1965.

Ógurlegur hávaði

„Uppi á afgreiðslubyggingunni stóðu nokkrir náungar með skilti: WELCOME TO ICELAND SWINGING BLUE JEANS og svipuð skilti voru uppi á áhorfendasvæðinu. Hávaðinn sem unga fólkið, svo til allt á aldrinum 11-14 ára, gaf frá sér var ógurlegur.“ Lögreglan og tollverðir slógu hring um hljómsveitarmeðlimina  „því aðdáendurnir sóttu á þá með óhljóðum og öskrum og þrifu og klipu í  hárið á þeim,“ segir Vísir.  Blaðamaðurinn sem náði tali af hljómsveitinni lýsti þeim svo:

Naumast komnar af barnsaldri

„Við hittum þá rétt sem snöggvast þessa hárprúðu ensku menn sem eru raunar afar venjulegir Bretar. Þeir eru heldur illa menntaðir, tala mál, sem mundi fá hvaða Oxford- eða Cambridgemann til að roðna niður í tær, en ósköp alúðlegir fuglar samt sem áður.“SWINGING BLUE JEANS héldu þrenna tónleika í Austurbæjarbíói og hneyksluðust fjölmiðlar á framkomu íslensku unglinganna. Greint er frá því að þeir hafi nánast orðið að fara huldu höfði því aðdáendur hafi setið fyrir þeim, til að líta þá augum og fá að snerta þá. Eru þetta aðallega ungar stúlkur, flestar naumast komnar af barnsaldri.

 

Ritstjórn mars 30, 2015 15:14