Innflytjandinn

Innflytjandinn, nýjasta bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar hefur vakið mikla athygli, en í henni segir frá innflytjanda sem finnst látinn úti í Örfirisey. Um sömu helgi hverfur ung íslensk stúlka.  Hildur Haraldsdóttir sem búið hefur í New York um árabil kemur til Íslands með jarðneskar leifar vinar síns til að uppfylla hans hinstu ósk. Hún hefur þýtt Kóraninn á íslensku og leitar lögreglan ráða hjá henni í tengslum við lát innflytjandans. Í kynningu frá bókaforlaginu Bjarti sem gefur söguna út, segir að Innflytjandinn sé mögnuð skáldsaga um mátt og árekstur menningarheima, um vegi ástarinnar og óblíð örlög, um lystisemdir lífsins, vonir manna og vonbrigði. Hér á eftir fer kafli úr bókinni.

   Kannski var hann búinn að hringja áður, ég veit það ekki. Ég var enn í kápunni þegar ég brölti á fætur til að svara en hafði ekki rænu á að fara úr henni og ekki þrek til að segja dyraverðinum að ég vildi enga gesti. Þannig komst Georg Vilhjálmsson upp til mín, bara vegna þess að mig skorti þrek.

Hann sagði ekki orð þegar ég opnaði fyrir honum heldur tók bara utan um mig. Það var svo auðfundin einlægni í faðmlagi hans að ég streittist ekki á móti heldur hvarf inn í hlýjuna því hvernig sem á því stóð var ég öll farin að skjálfa. Ég veit ekki hvað við stóðum þannig lengi í forstofunni en svo hjálpaði hann mér úr kápunni og við lögðum af stað í tómið og þögnina sem beið okkar inni í íbúðinni.

Ég man ekki hvort við sögðum nokkuð þennan dag. Ef einhver orð hafa fallið þá hafa þau ekki verið mörg. En þögul nærvera hans bjargaði mér, kyrrðin sem fylgdi honum og samhygðin. Ég veit ekki hvernig ég hefði komist af án hans.

Hann hélt utan um mig þar til ég hætti að hristast og skjálfa, þá stóð hann loks á fætur. Við höfðum setið í sófanum inni í bókaherbergi en nú fór hann fram og kom svo með volgan þvottapoka og strauk framan úr mér áður en hann brá sér fram í eldhús og hitaði handa mér te.

Þegar mennina frá garðyrkjustöðinni bar að garði um fimmleytið vísaði hann þeim ekki frá heldur tók á móti þeim og hjálpaði þeim að bera blómin og runnana út á verönd. Ég sá þá út um gluggann, tvo menn í grænum bolum með nafni gróðrarstöðvarinnar áletrað á bakinu og Georg sem var klæddur í gráar buxur og hvíta skyrtu. Ef ég hefði ekki verið svona máttlaus myndi ég hafa beðið hann um að senda þá til baka en nú horfði ég bara á þá skjótast fram hjá glugganum og heyrði óm af rödd Georgs þegar hann leiðbeindi þeim og seinna þegar hann kvaddi þá.

Læknirinn hafði gefið mér töflur áður en ég fór af spítalanum en ég gleymt þeim í töskunni minni. Nú tók ég þær loks og svaf í tvær klukkustundir og þegar ég vaknaði var Georg búinn að panta mat sem við borðuðum í eldhúsinu. Ég hafði enga lyst en stakk upp í mig nokkrum bitum að áeggjan hans. Það eru reyndar fyrstu orð hans sem ég man eftir þennan dag.

Reyndu að borða eitthvað, sagði hann. Ef þú mögulega getur.

Það var auðvitað ekki fyrr en síðar sem ég spurði sjálfa mig hvað ég hefði gert í hans sporum. Hefði ég árætt að heimsækja konu sem var nýbúin að missa maka sinn, konu sem ég kannaðist við en var ekki náin, hefði ég hætt mér inn fyrir dyr sorgarinnar þar sem allir standa utangátta nema sá sem syrgir?

Hefði ég þorað það?

Ég hef alltaf svarað þeirri spurningu neitandi og ég geri það enn. Syrgjendur eru eins og hinir holdsveiku –það vill enginn koma nálægt þeim sem þarf þess ekki. Ekki vegna þess að fólk sé svo illa innrætt heldur slær sorgin öll vopn úr höndum þess, sérhvert orð fær holan hljóm, sérhver svipbrigði verða eins og æfð, viðveran ein er sem innrás.

Þess vegna höldum við okkur í hæfilegri fjarlægð, fyrstu dagana að minnsta kosti, segjum eitthvað á þá leið að fólk verði að fá að syrgja í friði, það sé ekki tilhlýðilegt að trufla það, kveðumst ekki vilja vera með einverja framhleypni. Sendum blóm eða skeyti, sýnum samhug úr fjarska en vitum af vanmætti okkar og óttumst að einhvern tíma muni sorgin vitja okkar.

Hann þvoði upp eftir matinn og brá sér svo heim til að ná í föt til skiptanna, tannbursta og snyrtidót. Hann var ekki lengi í burtu en ég man að ég beið í ofvæni eftir endurkomu hans. Hann hafði tekið með sér lykil að íbúðinni og þegar ég heyrði að hann kom inn stóð ég á fætur og gekk á móti honum. Hann hafði kveikt alls staðar áður en hann fór og ljósið gerði sitt gagn nema þegar ég gekk fram hjá speglinum í forstofunni. Þá hefði betur verið slökkt.

Hann hafði keypt ís á leiðinni. Hvernig honum hafði dottið það í hug veit ég ekki. Ég kannaðist við umbúðirnar –ísbúðin var uppi á nítugasta og sjöunda stræti svo hann hafði þurft að leggja lykkju á leið sína.

Ég rétt náði áður en lokaði, man ég að hann sagði.

Við borðuðum ísinn inni í eldhúsi, hann var það eina sem ég kom niður átakalaust. Hann hafði keypt margar tegundir og of mikið af hverri. Ég bragðaði á þeim öllum og þannig sátum við hvort á móti öðru, þögul þar til ég brotnaði aftur saman.

Um nóttina gisti hann í einu af gestaherbergjunum en fór ekki inn til sín fyrr en hann hafði gengið úr skugga um að ég hefði tekið svefnlyfin og væri komin upp í rúm. Hann vaknaði á undan mér um morguninn, var búinn að fara út í bakarí og kaupa croissant og kanilsnúð þegar ég fór á fætur, hella upp á kaffi. Svo hjálpaði hann mér að tilkynna vinum og vandamönnum um andlát Ómars, fjölskyldum okkar, samstarfsfólki hans og umboðsmanni, nánustu vinum okkar.

Hann svaf ekki heima hjá sér næstu vikur heldur  lagði sig allan fram við að aðstoða mig við útförina og annað sem fylgdi andlátinu. Hann gat lesið hug minn, þurfti varla að spyrja hvað mér þætti um hitt og þetta, tranaði sér samt aldrei fram og fór ekki fram á neitt í staðinn.

Og nú er hann hérna hjá mér, tvö eða þrjú bollamál af ösku í keri, yrjóttri ösku sem lyktar eins og arininn sem hann kveikti stundum upp í þegar við sátum saman í bókastofunni á kvöldin.

Ég tek upp kerið og held á því svolitla stund en set það svo aftur á sinn stað, geng úr skugga um að lokið sé fast áður en ég bregð mér niður í móttökuna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 15, 2019 14:22