Tengdar greinar

Íslandsvinur með vonlausa þrá í brjósti

Þeir sem fylgjast með sjónvarpsþáttum um endurnýjun og uppbyggingu húsa hafa án efa tekið eftir að veggfóður njóta sívaxandi vinsælda meðal Bandaríkjamanna, Breta og Ástrala. Smekkfólkið sem gerir um upp hús í þáttum á borð við Brother vs. Brother, Rehab Addict, The Block og Fixer Upper velur stundum gullfalleg veggfóður, sum þannig að mynstrið gæti allt eins vera ættað úr ævintýraveröld óskyldri þessari. Þau eiga uppruna sinn í kolli breska listamannsins William Morris.

William var hönnuður, handverksmaður, ljóðskáld og lífskúnstner. Hann var í eðli sínu mikill fagurkeri og fullkomnunarsinni þess vegna snerist sköpun fagurra hluta og híbýlaskreytinga í hans huga um það að veita öðrum hamingju. Allt átti að vera fallegt, líka bréfsefnið á borðinu og fatan undir fjaðrakústinn sem þurrkað var af með. Hann er þekktur fyrir einstaklega vönduð vinnubrögð og kannski er það þess vegna sem verk hans lifa enn og ganga alltaf reglulega í endurnýjun lífdaga. Meðal þess sem hann hannaði voru húsgögn, áklæði, efni, gluggar úr steindu gleri, veggfóður og pappírsvörur.

Þessi frumkvöðul og áhrifamaður fæddist 24. mars árið 1834 Walthamstow í Essex. Hann lést 3. október árið 1896 í Hammersmith. Fjölskylda hans var velefnuð en William var jafnaðarsinni og vildi að allir nytu þeirra gæða og velmegunar sem iðnbyltingin færði Englendingum. Hann var frumkvöðull og stóð í stafni the Arts and Crafts-hreyfingarinnar á Bretlandi en hún átti eftir að gerbreyta smekk manna á Viktoríutímanum og hafa bergmálsáhrif langt fram á okkar öld.

Frá heimili William Morris.

Fyrstu árin

William fæddist í litlu þorpi í Essex rétt við Epping Forest. Fjölskylda hans var stór en velefnuð. Þrettán ára var hann sendur í Marlborough College til náms. Honum var lýst þannig af samtíðarmönnum sínum að hann hafi verið rjóður í andliti, þéttvaxinn og sterklegur. Hann var þægilegur og hlýr í umgengni almennt en reiddist illa ef hann reiddist. William hafði mikið, liðað dökkt hár og mild augu. Síðar sagði William sjálfur að þarna hafi hann nánast ekkert lært vegna þess að nánast ekkert var kennt. Hann var reyndar fylgjandi því alla ævi að menn lærðu aðeins það sem þeir vildu læra og hefðu áhuga á en létu annað vera.

Árið 1853 hóf hann nám í Oxford-háskóla. Þar var mikil gerjun á þessum árum og ungir hugsjónamenn kepptust við að móta sér lífsviðhorf og tjá þau á margvíslegan listrænan hátt. Þar kynntist hann Edward Jones en hann bætti síðar við nafn sitt Burne og varð þekktur málari og hönnuður. Þeir urðu nánir vinir og hélst sú vinátta meðan báðir lifðu. Þeir unnu mikið saman og höfðu mikil áhrif á listsköpun hvors annars. En á Oxford-árunum urðu þeir fyrir sterkum áhrifum af Oxford-hreyfingunni en það var vakningarhreyfing innan bresku kirkjunnar sem miðaði að því að taka upp að nýju margvíslegar kaþólskar hefðir og siði í messuhaldi að nýju. Um tíma héldu ættingjar að þeir vinirnir myndu gerast prestar en það varð ekki úr.

En kenningar forsprakka hreyfingarinnar höfðu mikil áhrif á William og hann skrifaði ljóð innblásin af þeim meðal annars The Defence of Guenevere. Þar tók hann upp hanskann fyrir drottingu Arthurs konungs en hún hefur haft svipaða stöðu í huga margra Breta og Hallgerður langbrók hér. Guenevere sveik mann sinn í tryggðum og það varð upphaf að endalokum Camelot og riddara hringborðsins.

„Sama ár heimsækir William Ísland í fyrsta sinn. Dagbókin sem hann hélt bæði þá og í síðari ferð sinni árið 1873 hafa komið út á íslensku en þær þykja afburða vel skrifaðar og eru fallega myndskreyttar af listamanninum.“

Veggfóður eftir William Morris.

Áhrif frá Evrópu

William og Edward ferðuðust til Belgíu og Frakklands og urðu þar fyrir áhrifum frá merkustu og stærstu listamönnum þessara landa. William sá í ferðinni málverk eftir Hans Memling og Jan og Hubert Van Eyck í fyrsta sinni. Auk þess heimsóttu þeir dómkirkjurnar í Amiens, Chartres og Rouen. Miðaldamálverk og skreytingar einkenna þessar kirkjur og William heillaðist af þeim. Hann kynntist einnig um þetta leyti verkum málarans og ljóðskáldsins Dante Rossetti. Það varð til þess að hann skipti um grein í háskólanum, fór úr arkitektúr í málaralist. Í nýrri deild komst hann fljótt í hóp ungra málara sem voru að skreyta veggi The Oxford Union en þar er málfundafélag háskólans til húsa.

Þeir höfðu valið sér að viðfangsefni senur úr sögunum af Arthur konungi og riddurum hans en þeirra helsta heimild var kvæðið Le Morte D’arthur eftir fimmtándu aldar skáldið Sir Thomas Malory. Aðeins eitt málverk eftir William frá þessum árum hefur staðist tímans tönn en það er La Belle Iseult eða Guenerve drottning. Hann notaði Jane Burden sem módel en hvort eitthvað kviknaði á milli þeirra þá eða áður er ekki vitað en þau giftust árið 1858. Eftir því var tekið á þessum tíma hversu ákveðinn William var og hve skýra sýn hann hafði á hvað hann vildi gera. Hann og Edward deildu stúdíói við Red Lion Square á námstímanum.

William hannaði húsgögn handa þeim félögum og þau þóttu bera miðaldayfirbragð en það sýnir hve sterk áhrif ferðin um Belgíu og Frakkland hafði á hann. William hafði alla tíð afskaplega næmt auga fyrir smáatriðum og minnstu blæbrigðum lita og forma. Eftir því var tekið og hann fékk mjög fljótt verkefni frá vini sínum Philip Webb arkitekt. Philip byggði hús á Bexleyheath, Red House, svokallað vegna þess að það var byggt úr rauðum múrsteinum en ekki úr kalksteini eins og þá var í tísku. William sá um að innrétta og fylla húsið húsgögnum og það var til þess að hann og vinir hans fengu þá hugmynd að stofna félag eða samtök fyrsta flokks handverksmanna, Morris, Marshall, Faulkner & Company varð til og var með skrifstofur í stúdíói þeirra Williams og Edward.

William Morris hönnuður, listamaður og Íslandsvinur.

Nóg að gera

Fleiri komu fljótt að verkum og Ford Madox Brown, Dante Rossetti, Philip Webb og Edward Burne-Jones bættust í hópinn. Þeir félagar hönnuðu steinda glugga, húsgögn og útsaum. Þetta varð til þess að þeir fengu mörg verkefni við að skreyta kirkjur G.F. Bodlley en þær voru þá í byggingu. Sú þekktasta þeirra er St. Martin‘s-on-the-Hill í Scarborough. Kóróna sköpunarverks þeirra á þessum tíma er hins vegar án efa steindu gluggarnir sem Edward gerði fyirr Jesus College-kapelluna í Cambridge og loftið sem þeir William og Philip máluðu.

En einkalífið gekk ekki jafnvel. Hjónaband þeirra Jane var ekki hamingjusamt. Dæturnar Jenny og May fæddust árin 1861 og 1862. Þau bjuggu á þessum tíma í the Red House og líklega voru það samt þeirra bestu ár. William veiktist alvarlega af gigtarsótt sem sennilega hefur komið til vegna of mikillar vinnu. Þau fluttu til Bloomsbury í London árið 1865 og stór hluti hússins var lagt undir fyrirtækið. Þar fór að bera á kvíða hjá Jane og hún var mjög hrædd um heilsu sína en ekkert bendir til að hún hafi verið veik.

Fyrstu veggfóðursmynstur Williams urðu til á þessum árum og hétu, Trellis, Daisy og Fruit. Þau þykja nokkuð góð í dag en snilldarverk hans eru Jasmine og Marigold en þau urðu til tíu árum síðar

„Auk þess heimsóttu þeir dómkirkjurnar í Amiens, Chartres og Rouen. Miðaldamálverk og skreytingar einkenna þessar kirkjur og William heillaðist af þeim.“

Stóll hannaður af William Morris.

Skáldskaparfrægð

Þegar ljóðið, The Life and Death of Jason kom út árið 1867 öðlaðist hann frægð fyrir skáldskap og skömmu síðar kemur út ljóðið The Earthly Paradise en það var ljóðaröð byggð á margvíslegum miðaldafrásögnum. Í inngangsljóðum að safninu má lesa milli línanna að William er óhamingjusamur í hjónabandinu. Næst kemur stórkostlegur ljóðabálkur, Story of Sigurd the Volsung and the Fall of the Niblungs en þar byggir William á langvarandi rannsóknum sínum á miðaldasögum og ljóðum þar á meðal íslenskum en hann var mikill aðdáandi Íslendingasagna og Íslands.

Næst sendir hann frá sér A Book of Verse, en þar yrkir hann um vonlausa ást sína á Georginu Burne-Jones, eiginkonu Edwards, vinar hans. Árið 1871 taka William og Dante Rossetti á leigu stóran herragarð, Kelmscott í Oxfordskíri. Sama ár heimsækir William Ísland í fyrsta sinn. Dagbókin sem hann hélt bæði þá og í síðari ferð sinni árið 1873 hafa komið út á íslensku en þær þykja afburða vel skrifaðar og eru fallega myndskreyttar af listamanninum. Uppi hafa verið kenningar um að Morinsheiði á gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls sé nefnd eftir William.

Þegar heim kom varð sífellt ljósara að samleigan með Dante Rossetti gengi ekki upp og hann flytur burtu. Um svipað leyti missir hann heilsuna og deyr árið 1882 fimmtíu og fjögurra ára að aldri. Ári síðar endurskipuleggur William fyrirtækið og tekur það í raun alveg yfir. Eftir það hét það Morris & Company. Hann hafði byrjað að prófa sig áfram með litarefni unnin úr grænmeti árið 1875. Þetta var mjög framúrstefnuleg aðferð til að vinna liti og þegar hann komst í gott húsnæði í Merton Abbey í Surrey hóf hann að lita ofin efni og prenta mynstur á margvísleg efni með þessum litum.

Talaði fyrir hinum síðri listum

Hann hóf einnig að flytja fyrirlestra um skreytilistir en á þessum tíma var talað um þær sem hinar síðri listir eða the lesser arts. William skildi hins vegar og vissi hve mikilvægar þær voru og í hans huga var innrétting húsa og innanhússhönnun jafnmikilvæg og byggingalist. Fyrirlestrar hans voru gefnir út á bók hafa án ef stuðlað að því að menn gerðu sér grein fyrir gildi á vandaðrar listrænnar hönnunar.  Hann stofnaði einnig félag með þann tilgang að vernda og varðveita gömul hús. Hann lagði hart að sér að koma í veg fyrir að þegar gert væri við þau væri það á óvandaðan hátt og barðist fyrir að allt væri unnið í samræmi við þann stíl sem húsið var upphaflega byggt í.

Árið 1879 flutti hann ásamt fjölskyldu sinni í hús sem hann nefndi Kelmscott House sem var nefnt eftir húsinu í Oxfordskíri. Fimm árum síðar gekk hann í demókrataflokkinn og hóf að ferðast milli stærstu og öflugustu iðnaðarsvæða Bretlands og fræða verkafólkið um sósíalisma. Ætla mætti að þetta hefði ekki farið vel ofan í íhaldssöm bresk stjórnvöld en William Morris komst upp með það og líka að leiða hóp mótmælenda á Trafalgar Square á hinum svokallaða Blóðuga sunnudegi eða Bloody Sunday 13. nóvember árið 1887. Dagurinn fékk nafnið vegna harðra aðgerða lögreglu sem rýmdi torgið með öllum tiltækum ráðum. William marseraði við hlið George Bernhard Shaw þennan dag. Hann gaf út tvær skáldsögur, A Dream of John Ball  og News from Nowhere sem báðar eru óður til sósíalismans. Hann stofnaði Hammersmith Socialist Society og hélt vikulega fyrirlestra í hliðvarðarhúsinu og talaði á opnum fundum víða um London.

William stofnaði The Kelmscott Press árið 1891 með prentaranum og leturhönnuðinum Emery Walker. Þeir stóðu að útgáfu bóka, hönnuðu bréfsefni og sköpuðu nýjar leturgerðir. Enn og aftur leitaði William innblásturs í miðöldum og margar af leturgerðum hans eru enn notaðar af skrautskrifurum og handverksmönnum sem eru að vinna einstakar bækur.

Sumarið 1896 sigldi William til Noregs en í stað þess að endurnæra hann og fylla hann orku eins og hann hafði vonast til kom hann til baka þreyttur og bugaður og hann lést skömmu síðar. Hann þótti einstaklega framsækinn í verkum sínum þótt fortíðin væri honum ótrúlega oft innblástur hugmynda.

„William hafði alla tíð afskaplega næmt auga fyrir smáatriðum og minnstu blæbrigðum lita og forma.“

Steingerður Steinarsdóttir ritsjtóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 13, 2024 07:00