Janis Carol

Nafn Carol Nielsson var sett upp í “ljósum” framan  á Palace Theatre í West End 1982.

Hver var þessi Carol Nielsson? Saga Janis Carol, eins og við þekkjum hana á Íslandi, er löng og viðburðarík enda konan orðin sjötug. Ekki minni maður en Andrew Lloyd Webber lét hafa eftir sér í bók sem Gaye Search skrifaði um uppsetningu söngleikja hans,  að Þessi kona, sem þá var með sviðsnafnið Carol Nielsson, væri áhugaverðasta uppgötvunin síðan Edith Piaf var og hét.“Carol Nielsson is probably the most exciting discovery since Edith Piaf”.

Foreldrarnir enskir

Janis Carol Walker er skírnarnafn þessarar flínku söngkonu sem Íslendingar vilja gjarnan eigna sér. Hún er fædd í Londn, Englandi og ólst þar upp hjá móður sinni og föður framan af. Þau skildu en þegar Janis var 6 ára gömul. Seinna giftist móðir hennar Íslendingi og flutti með dæturnar þrjár til Íslands. Það var haustið 1956 og þá var Janis 8 ára gömul og strax sett í Melaskóalann í Vesturbænum þar sem þau bjuggu. Hún var auðvitað algerlega mállaus en með tímanum náði hún þannig tökum á íslenskunni að í dag heyrist alls ekki á mæli hennar að fyrsta mál hafi ekki verið íslenska. Kennarinn sem hún lenti hjá talaði enga ensku svo Janis var nauðugur einn kosturinn að læra íslenskuna fljótt og vel og mest upp á eigin spýtur.

Farðu heim Bretadjöfull!

Þegar Janis flutti til landsins með móður sinni og systrum var þorskastríðið milli Breta og Íslendinga í algleymingi. Hún segir að mikill hiti hafi verið í fólki út af þessu “stríði” og fljótlega fóru einhverjir strákar að öskra á eftir henni: “farðu heim Bretadjöfull” og kasta á eftir henna grjóti. “Eftir að þetta gerðist nokkrum sinnum fóru  tveir bekkjarbræður mínir að fylgja mér til og frá skóla,” segir Janis og þykir minningin augljóslega óþægileg.

Auglýsing í Morgunblaðinu 1965. Janis var þá 16 ára að syngja með hljómsveit Guðjóns Pálssonar.

Féll ítrekað í yfirlið

Upp frá þessu kynntis Janis Ólafi Benediktssyni og þau stofnuðu saman hljómsveit sem spilaði mikið í Gaumbæ. Janis og Ólafur giftu sig þegar hún var 17 ára en Janis ákvað nokkrum mánuðum seinna að fara til London að heimsækja föður sinn Peter Walker sem vann  allan sinn starfsferil á BBC. Hann hafði komið því þannig fyrir að Janis fengi að komast að í prufu í BBC söngkeppninni, ekki ósvipaðri og American Idol keppnin er núna. “Ég var komin til London í ágúst 1966 og byrjuð að undirbúa mig en það var alltaf að líða yfir mig. Það var hitabylgja um þetta leyti og ég hélt mér liði svona þess vegna. Faðir minn fór með mig til læknis og niðurstaðan úr þeirri læknisheimsókn var að ég var komin 10 vikur á leið með elsta barnið mitt,” segir Janis og brosir. “Þá var sá draumur úti í bili en eftir að ég eignaðist þriðja barnið ákvað ég að fara til útlanda aftur til að freista gæfunnar. En áður en það gerðist fékk Janis hlutverk í Hárinu 1972 hér heima og ári síðar í Jesus Christ Superstar. Þegar ég var orðin 26 ára gömul, þriggja barna móðir og ákveðin í að fara til útlanda og freista gæfunnar setti ég saman sex manna hljómsveit sem ég nefndi „Lava“ og tók hana með mér til Stokkhólms í Svíþjóð þar sem ég var komin með umboðsmann. Við ferðuðumst um alla Svíþjóð og Noreg og seinna fékk ég plötusamning þar og eitt af lögunum komst á topp vinsældarlistans „Svensktoppen“, segir Janis“

Hljómsveit Ólafs Benediktssonar og Janis Carol.

Var ráðin í Evitu

Eftir rúmlega tvö ár ákvað Janis að leita grænna grasa annarsstaðar þar sem henni leið ekki nógu vel í Svíþjóð. Hún og þáverandi maður hennar, Ingvar Árelíusson, ákváðu að flytja sig með dætur Janisar til London þar sem þau keyptu sér hús. Janis vissi að mikið var að gerast í tónlistarheiminum þar. “Linda systir kom með okkur ásamt syni sínum. Þar hittum við Shady Owens og við þrjár fórum að vinna saman sem bakraddir fyrir Freddie Starr sem var hæst launaði skemmtikrafturinn í Bretlandi á þessum tíma. Freddie var „stórstjarna“ og mjög erfiður í samstarfi. Shady hætti fyrst og svo fékk ég alveg nóg líka. Svo var það einn morguninn eftir síðasta “giggið” með Freddie Starr að ég var að taka lestina inn til London og sá þá  auglýsingu í blaði sem heitir „Stage“ þar sem var verið að auglýsa eftir söngvurum. Það var svona tilfinning eins og þegar einar dyr lokast opnast aðrar,“ segir Janis og augljóst er að hún hefur ekki látið mótlæti buga sig heldur alltaf leitað tækifæranna. „Í blaðinu stóð að það væri verið að setja upp nýjan söngleik „Evita“ í London. Þetta var 1978 og ég hafði verið í London í rúma 6 mánuði. Prufurnar voru í fullum gangi og ég hefði þurft að panta prufutíma en ég hafði ekki gert það. Ég var svolítið djörf í þá daga og fór samt niður í Prince Edward Theatre í West End í London og talaði við umsjónarmanninn og mér var leyft að taka þátt í prufunum fyrir náð og miskunn hans ef ég nennti að bíða aðeins. Þetta var klukkan 10 um morguninn og klukkan hálftvö var hringt í mig og mér var tilkynnt að ég væri búin að fá hlutverk. Ég fékk algert sjokk því ég þurfti að segja þeim að ég væri ekki í “The British Actors Uninon” og enginn má vinna í London nema vera meðlimur. Félagið er mjög strangt og maður þurfti að hafa verið með fasta vinnu í 52 vikur samfleytt til að fá inngöngu í það. Ég sagði þeim þá í örvæntingu að ég væri búin að vera meðlimur í FÍH (Félagi íslenskra hljómlistarmanna) í ellefu ár en sá þennan draum slokkna með það sama. Mér að óvörum sögðu þeir: “Nú glæsilegt, við reddum þessu þá bara” og fóru strax niður í félag og redduðu leyfinu fyrir mig. Ég var í Evítu í tvö ár á meðan ég var að koma mér að í  leikhúslífinu og bransanum yfirleitt. Launin voru mjög góð og ég kynntist geysilega mörgum í tónlistarheiminum þarna og vann með þeim bestu. Eftir tvö ár ákvað ég samt að hætta því sýningarnar voru búnar að vera 8 á viku allan tímann og ég þurfti pásu. En reynslan sem ég fékk út úr þessu var auðvitað ómetanleg. Fólk hélt að ég væri klikkuð að fara frá svona vinsælum söngleik en ég hafði þörf fyrir að halda fram á við og vildi ekki staðna. Ég veit að sú ákvörðun var rétt á þeim tíma.”

Næsta verkefni – CATS!

Sjá má Janis Carol fyrir miðju í opnunarsenu sýningarinnar.

Janis tók hlé í þrjá mánuði en frétti þá að verið væri að leita að fólki í “Song & dance” sem er líka Andrew Lloyd Webber söngleikur. “Ég fór í 6 prufur þar en í þeirri sýningu er bara eitt sönghlutverk svo það var mikið i húfi. Öll önnur hlutverk voru danshlutverk. Eftir nokkra daga var kallað á mig og mér boðið að vera svokallað „understudy“ eða varamaður fyrir aðalhlutverkið í Song & Dance. En um leið vildu þeir bjóða mér að vera varasöngvari fyrir Grizabellu, sem er aðalhlutverkið í Cats. Svo þarna var ég komin inn í tvo söngleiki á sama tíma. Það vildi til að leikhúsin voru nálægt hvort öðru. Þetta var 1982 og sýningar á Cats voru búnar að vera í gangi í eitt ár við miklar vinsældir,“ segir Janis en síðan eru liðin 38 ár og allir þekkja sigurgönguna sem þessi söngleikur með tónlist eftir Andrew Lloyd Webber hefur átt en sýningin hefur verið sett upp í 110 löndum.

“Ég varð svo  algerlega yfir mig komin af undrun að ég gat varla talað,” segir Janis. “En þá kom auðvitað British Actors Union til skjalanna og sagði að sama manneskja mætti ekki vera í svo stórum hlutverkum í tveimur sýningum því ég var auðvitað að taka vinnu frá öðrum söngvurum. Aðalhlutverkið í „Song & dance“ sýningunni var mun stærra en hlutverk Grizabellu í Cats.  Á endanum var mér boði að vera varamaður fyrir aðalhutverkið í „Song & Dance“ sem var þá alveg ný uppfærsla og mjög spennandi að taka þátt í. Eins og vaninn er í London eru 8 sýningar á viku og var þetta aðalhlutverk mjög krefjandi þar sem ein söngkona fer með fyrsta hlutann ein. Þetta reyndi mikið á og ég lærði hlutverkið mjög vel en aðalsöngvarinn forfallaðist næstum aldrei. Þrátt fyrir það var ég á fullum launum og þurfti auðvitað alltaf að vera viðstödd ef eitthvað kæmi upp á. Ég ákvað að hætta eftir að eins árs samningurinn rann út. Ekki dugði að vera bara í „varastöðunni“ til lengdar. En þetta breyttist nokkrum mánuðum seinna.

Stökk inn fyrir Lulu

Tónleikar í tilefni afmælis Guðmumdar Ingólfssonar. Guðmundur Steingrímsson trommur, Björn Thoroddsen gítar, Reynir Sig xílófónn og Gunnar Hrafnsson bassi. Cafe Rosenberg 2016

„Ég fékk símtal einn daginn og í símanum var framleiðandinn af „Song & Dance“ sýningunni sem var enn í gangi. Hann sagði mér að söngkonan sem hefði tekið við aðalhlutverkinu væri veik. Þetta var Lulu sem margir kannast við úr kvikmyndinni  “To sir with love” með með Sidney Poitier. Hún hafði veikst fyrirvaralaust og varamanneskjan var með flensu. Lulu þurfti að fara í aðgerð af því röddin þoldi ekki álagið og kom ekki aftur. Klukkan var sex og sýningin um kvöldið átti að hefjast kl. hálf níu. Söngkonan sem fór með hlutverkið upphaflega vildi ekki gera þetta með svona stuttum fyrirvara og ég hugsaði: “Þarna er tækifæri sem ég verð að nýta” og ég sagði “já, ég skal gera þetta ef þið finnið tólistina í tóntegundinni sem ég æfði hlutverkið í“. Ég hafði auðvitað æft það mjög mikið en söngkonan sem fór með aðalhlutverkið forfallaðist sjaldan svo ég hafði ekki oft þurft að taka við. 20 mínútum seinna var hringt og mér sagt að tónlistin væri fundin í réttri tóntegund. Það var meira en að segja það að fara með svo stórt hlutverk fyrir framan nærri þrú þúsund manns og þetta var áhætta.“ Janis stökk út í djúpu laugina og kláraði dæmið með “bravör”, 23 lög og ekkert fór úrskeiðis. „Daginn eftir kom Andrew Lloyd Webber ásamt fyrrverandi hljómsveitarstjóra á sýninguna og mér var boðið aðalhlutverkið í Song and Dance sýningunni.” Síðar, eða 1983 fór Janis svo í prufu fyrir aðalkvenhlutverkið í Starlight Express eftir A.L.W. Sýningin er flutt á hjólaskautum alla sýninguna og það vildi svo vel til að hjólaskautar voru aðaláhugamál Janisar þegar hún var barn. „Í prufunni gekk dansinn á skautunum ágætlega en ég hafði valið „Memory“ til að flytja í söngprufunni á eftir. Ég vissi ekki að Andew Lloyd Webber og hljómsveitarstjórinn höfðu verið á hleri. Eftir prufuna var ég að fara úr hjólaskautunum fyrir utan salinn og þá komu Andrew og hljómsveitarstjórinn og buðu mér aðalhlutverkið í „Cats“! Ég var enn einu sinni alveg gáttuð því það var mikil upphefð að fá hlutverk aðal læðunnar „Grizabellu“ í vinsælasta söngleiknum á West End. Þar fór ég með hlutverkið í eitt ár, átta sinnum í viku 1984-85. Þetta var ótrúlega spennandi tímabil sem ég gleymi aldrei. Ótrúlegasta fólk kom á sýninguna sem ég hitti oft á eftir. Til að nefna einhverja kom þáverandi forseti okkar Vigdís Finnbogadóttir einu sinni og Stevie Wonder, sendiherrann í London og fleiri.

Glæsilegur ferill

Janis með Gunnari Hrafnssyni, Einari Val Scheving, Sigurði Flosasyni og Kjartani Valdimarssyni. Tónlistarmenn ekki af verri endanum.

Ferill Janis Carol, eða Carol Nielsson, er langur og farsæll en af því hún hefur verið búsett mikið í öðrum löndum hefur minna borið á henni hér á landi. En þegar saga hennar er skoðuð er ferillinn glæsilegri en margra. Ástæðan fyrir því að Janis Carol tók Nielsson nafnið er að hún giftist íslenskum manni, Ingvari  Árelíussyni en hann var bassaleikarinn í hljómsveitinni sem hún fór með til Svíþjóðar 1975. Ingvar er sonur Árelíusar Nielssonar heitins og Janis spurði tengdaföður sinn hvort hún mætti nota eftirnafn hans sem sviðsnafn og það var auðfengið. Þegar hún hætti í Evítu, skipti hún því um nafn og notaði sviðsnafnið Carol Nielsson.

Síðar skildu Ingvar og Janis eftir tíu ára hjónaband. Í framhaldi söng Janis víðsvegar um London, til dæmis í „Talk of the Town“, „London room“ og einn mánuð þvisvar í viku á „The Ritz“ hótelinu. Þar dvaldi soldánninn af Muscat, Oman einmitt þennan mánuð og eftir að hafa hlustað á Janis syngja þar bauð hann henni að koma til Muscat og halda nokkra tónleika á hóteli sínu „Albustan Palace Holel“ sem hafði verið byggt sama ár til að hýsa gesti hans á Opeque Olú Conference. Janis fór þangað nokkrum mánðum seinna, eða 1987 og upplifði þar mikið ævintýri.

Seinna giftist Janis enskum manni og var gift honum í 25 ár. Þau eignuðust saman dreng eftir að Janis hafði í tvígang verið komin  langt á meðgöngu en misst þau börn. En þriðja barnið fæddist heilbrigt og þegar svo var komið ákvað Janis að hætta í “show business” og snúa sér að því að ala upp barn þeirra því þessi erfiði tími hafði tekið mikið á hana. “Þegar sonur minn fæddist var ég 43 ára gömul og þegar hann var enn lítill var hringt í mig og mér boðið að vera “understudy” í Evítu. Ég gat ekki hugsað mér að hella mér aftur út í þessa vinnu og fara frá drengnum. Það hefði þýtt mikil ferðalög og sá tími var liðinn. Ég hafði hins vegar rosalega gaman af að taka þátt í hátíðinni sem var haldin í tilefni af lokasýningu Cats eftir 21 ár eða 2002. Þá voru kallaðir saman allir þeir sem höfðu farið með stærri hlutverk í CATS í gegnum árin og haldin mikil hátíð. Þetta var „prívat“ sýning og hvert sæti í leikhúsinu setið VIP stjörnum og þekku fólki. Sýningunni var líka varpað upp á risaskjá í Covent Garden í London svo allir sem vildu gætu séð þessa sérstöku síðustu sýningu.

Ég fékk nokkur freistandi tilboð þegar kvisaðist að ég væri komin til baka og hefði ekki dalað. Þetta kitlaði mig og ég tók mér 6 mánuði í að koma röddinni í það form sem ég vildi og lagði á hilluna sjúkranuddið sem ég hafði menntað mig í og starfað við eftir fæðingu yngsta barnsins. En þá kom aftur erfiður tími því ég fékk þær fréttir að önnur af tveimur dætrum mínum, sem báðar búa í Bandaíkjunum, væri alvarlega veik. Ég vildi auðvitað styðja hana og ég og sonur minn fórum til Seattle og ég sleppti öllu í London. Maðurinn minn kom stuttu síðar og við festum okkur þar.“ Janis var ekki alveg af baki dottin og þegar dóttir hennar var komin á bataveg freistaðist hún til að taka tilboðum að syngja á jazzklúbbum og litlum tónleikastöðum þar úti. Það endaði með því að Janis gaf út disk sem hægt er að finna á CDBaby.com undir nafninu Carol Nielsson og heitir „Here’s To Love“

Erfitt en skemmtilegt

„Þetta er búið að vera ótrúlega spennandi en stundum erfitt,“ segir Janis þegar hún hefur rifjað upp ferilinn. „Auðvitað hefur ekki alltaf allt gengið upp eins og ég hefði kosið en með dugnaði og trú á sjálfum sér getur maður flest allt,“ segir þessi kraftmikla kona sem Íslendingar munu njóta enn um ókomin ár því hún er nú búsett á Íslandi á milli þess sem hún dvelur hjá dætrum sínum sem búa í Bandaríkjunum. Synirnir búa hér á landi. Janis er mjög fjölskyldurækin og á fjögur börn, níu barnabörn og sex langömmubörn. „Ég elska að verja tíma með þeim og mikill tími fer í að flakka á milli Bandaríkjanna og Íslands að heimsækja þau öll,“ segir hún og brosir. Móðir Janisar er enn á lífi og býr hér á landi. Janis hefur reglulega haldið tónleika hér á landi með mörgum okkar bestu tónlistarmönnum og á döfinni eru eini slíkir sem margir munu eflasut vilja njóta. Þessi frábæra söngkona segist eiga erfitt með að segja skilið við sönginn enda engin ástæða til „þar sem ég get þetta enn“ eins og hún segir sjálf. Það er líklega þessi trú á sjálfa sig, og ómældir hæfileikar, sem hefur komið Janis í hóp þeirra allra bestu!

 

Börn Janis heita frá vinstri Tanya Marie, Sandra Björk, Kingsley Sean og Benedikt.

 

Ritstjórn desember 6, 2019 13:28