
Nanna Rögnvaldardóttir
Nanna Rögnvaldardóttir rithöfundur skrifar.
Ég hef farið til útlanda rétt fyrir jól mörg undanfarin ár og verið þar mislengi. Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu sem ég ætla ekkert að rekja hér en læt nægja að segja að þetta er alls ekki af því að ég þoli ekki fjölskyldu mína eða þau ekki mig. Ég segi aldrei neinum fyrirfram hvert ég ætla, ekki einu sinni börnunum mínum; þau fá að giska á það eins og aðrir.
Áfangastaðurinn valinn
Ég byrja yfirleitt að undirbúa næstu jólaferð snemma árs, kannski í febrúar eða mars. Byrja á að skoða lista yfir staði sem mér finnst að komi til greina og ég geymi frá ári til árs. Staðurinn sem ég ætla á núna er til dæmis búinn að vera á þessum lista í tíu ár eða svo og nú er komið að honum. Ég hendi stundum einhverjum stöðum út af listanum, kannski af því að ég hef misst áhugann eða af því að það er stríðsástand þar eða þannig aðstæður að ég vil ekki fara þangað. Ísrael til dæmis. Einu sinni kom bærinn Byblos í Líbanon sterklega til greina en svo fór allt í háaloft á þeim slóðum og mig langar ekkert þangað núna. Og svo bætast aðrir staðir inn, sem ég hef fengið áhuga á af einhverri ástæðu.

Famagusta á Norður-Kýpur var einn forvitnilegasti staðurinn þar sem ég hef eytt jólunum: fornar kirkjurústir út um allt, innan um bensínstöðvar og kaffihús, og við hliðina mannlaus draugabær með hrynjandi lúxushótelum og allt í kringum hann fullt af skiltum um að það væri stranglega bannað að taka myndir, með teikningum af alvopnuðum hermönnum til áherslu. Ég tók margar myndir og sá ekki nokkra sálu, síst af öllu hermenn.
Ýmsar ástæður geta orðið til þess að ég setji staði á listann. Suma hefur mig dreymt um frá því að ég var ung, kannski af því að ég las bók sem gerðist þar að einhverju leyti. Það gilti til dæmis um Valletta, Famagusta, Ortigia (Sýrakúsu) og Marseille. Stundum hef ég tiltölulega nýlega lesið eða séð eitthvað sem vakti áhuga minn. Það á við um Trieste (ég las bók sem heitir Trieste and the Middle of Nowhere og langaði að vita hvort Trieste væri þannig borg – sem hún var ekki – og þó, einu sinni kom í ljós í skoðanakönnun að 70% Ítala höfðu ekki hugmynd um að Trieste væri ítölsk borg og hefði verið það í meira en hundrað ár), Split og Þessalóniku. Gíbraltar líka en kannski ekki síst vegna þess að það var einn af fáum stöðum sem ekki var lokaður ferðamönnum vegna covid í árslok 2021.
Ég hef alltaf valið staði sem ég hef ekki komið til áður, staði þar sem ekki er allt fullt af ferðamönnum og ekki miklar líkur á að rekast á Íslendinga. Nei, ég hef ekkert á móti íslenskum túristum en ég þarfnast ekki félagsskapar. Flestir staðirnir hingað til hafa verið í sunnanverðri Evrópu. Ég er enginn sóldýrkandi og er ekki að sækjast eftir sól en vil samt helst geta setið úti með kaffibolla af og til. Eða Aperol-glas. Og það hefur svo sem gengið upp á öllum þessum stöðum, þótt mistralvindurinn væri ansi napur í Marseille og jóladagsnæðingurinn í Þessalóniku litlu skárri. (Sólsetrið yfir Ólympusfjalli bætti hann samt alveg upp.)
Á meðan ég var í fastri vinnu notaði ég jólafríið í ferðirnar, geymdi kannski einhverja daga af sumarfríinu til að geta verið milli jóla og nýárs, en eftir að ég fór á eftirlaun 65 ára ákvað ég að vera lengur, ekki síst til að losna við kulda og ófærð um tíma. Var 2022 fyrst á Sikiley í fimm vikur og þvældist dálítið um og endaði svo á Tenerife með dótturdótturinni og fjölskyldu hennar. En næsta ár var ég reyndar bara í nokkra daga í Split og lét það duga. Þá fannst mér ég orðin svo léleg til heilsunnar. Eða kannski bara svo gömul. Ég treysti mér ekki að vera lengur og kom heim á gamlársdag.
Sú ferð var ein af ástæðunum til þess að ég ákvað að taka á mínum málum, fór í magahjáveituaðgerð, léttist um 46 kíló og losnaði við alls konar kvilla sem ég var komin með. Þar á meðal svæsinn kæfisvefn. Ég varð miklu léttari á mér, fór að ganga langar leiðir og leið svo vel að ég hikaði ekki við að skipuleggja mánaðardvöl á flakki um Norður- og Mið-Portúgal eftir að hafa verið um jólin í Marseille. Það var mjög fínt. Og ég þurfti ekki lengur að drösla svefnöndunartækinu með mér og lyfjunum hafði fækkað. Ég gekk líka mjög mikið.
Vinnuferðir
Ég var að skrifa Völskuna þegar ég var á Sikiley – er reyndar alltaf með tölvuna í utanlandsferðum og nota hverja lausa stund til að skrifa – og var að hugsa um að gera eins og rithöfundar gerðu stundum hér áður fyrr, telja upp alla staði sem bókin hafði verið skrifuð á. Upptalningin hefði getað verið einhvern veginn svona: Santiago de Compostela, Dublin, Oxford, Korfu, Sarandë, Crickvenica, Salzburg, Ortigia, Taormina, Palermo, Piazza Armerina, Agrigento, Cefalú … flottur listi en svo hefði ég þurft að enda á Playa de las Americas og það hljómaði einhvern veginn ekki nógu bókmenntalegt í þessu samhengi. Ég sleppti því listanum.
En mér gengur alltaf vel að skrifa í útlöndum og ferðirnar mínar eru í aðra röndina vinnuferðir. Í fyrra skrifaði ég uppkast að öllum seinni helmingnum af bókinni Mín er hefndin í Marseille og Portúgal. Þá var ég búin að koma mér upp rútínu – ég vaknaði snemma, sat við tölvuna í nokkra klukkutíma, fór svo út í langa göngu, skoðaði mig um, fékk mér að borða, kom aftur á gististaðinn og skrifaði í nokkra klukkutíma í viðbót. Fór svo stundum aftur út í göngu eftir að dimmt var orðið, fékk mér kvöldsnarl ef ég fann að ég þyrfti þess (ég verð sjaldan svöng eftir aðgerðina en finn stundum að nú ætti ég að borða eitthvað) og fór svo frekar snemma í háttinn.

Alein á göngu í miðbæ Aveiro í Portúgal á gamlárskvöld. Yndislega friðsælt og rólegt.
Ég kveiki sjaldan á sjónvarpi – þó kannski ögn oftar í Portúgal en annars staðar af því að þar eru bíómyndir ekki talsettar og ég skildi því oft það sem sagt var – en les oft nokkra stund í bók á Ipadinum mínum áður en ég sofna. En ég fer eiginlega aldrei út seint á kvöldin. Ég rölti reyndar niður í bæ á gamlárskvöld í Aveiro en var komin heim fyrir klukkan ellefu og sofnuð fyrir miðnætti.
Skipulagning og val á gististað
Ég panta (og borga) oftast flugferðir með löngum fyrirvara, eða um leið og ég er búin að ákveða hvert ég ætla, því að það er erfiðara að breyta þeim. Erlendis nota ég lestir og rútur til að fara á milli staða ef hægt er og þótt það geti verið betra að panta slíkt fyrirfram þarf fyrirvarinn sjaldan að vera langur.
Gistingu panta ég oft með löngum fyrirvara en gæti þess að velja gistimöguleika sem hægt er að afpanta því að ég veit af reynslunni að plön geta breyst – mín gera það allavega oft. Kannski breytast áfangastaðir eða dagsetningar, kannski rek ég allt í einu auga á eitthvað sem mér finnst galli við gististaðinn, eða ég finn einfaldlega stað sem mér líst betur á. Það kostar kannski aðeins meira að hafa afpöntunarmöguleika en getur margborgað sig.
Ég vel yfirleitt góða gististaði sem höfða til mín af ýmsum ástæðum, alls ekki þá ódýrustu sem ég gæti fundið en staðirnir sem ég hef valið eru yfirleitt hóflega dýrir á þessum árstíma (í Portúgal í fyrra var meðalverðið líklega 10–11.000 krónur nóttin, á sumrin má búast við miklu hærri leigu) en stundum rekst ég á gott tilboð á lúxushóteli og ákveð að splæsa á mig gistingu þar í eina eða tvær nætur. Ég á það skilið …

Í Piazza Armerina á Sikiley leigði ég 200 fermetra lúxusíbúð með antikhúsgögnum fyrir 50 evrur á nóttina. Og útsýnið spillti ekki fyrir.
Ég leita næstum alltaf að gistingu á booking.com og oft panta ég í gegnum þau líka en stundum beint hjá gististaðnum. Það kemur líka fyrir að ég veit af álitlegum stað sem ekki er á booking.com og panta þá beint.
Ég gisti ýmist á hótelum eða í íbúðum/herbergjum og verðið er eins og ég sagði ekki úrslitaþátturinn. Ég skoða staðsetninguna alltaf vel. Ég vil vera fremur miðsvæðis. Ef ekki alveg í miðbænum, þá set ég markið gjarna við um 15 mínútna göngu í miðbæinn. Oft vil ég helst vera nálægt lestarstöð/rútustöð/ferjuhöfn svo að ég þurfi ekki að draga ferðatöskuna lengi á eftir mér um ósléttar hellusteinagangstéttir eða brattar brekkur. Eða rogast með bakpokann, ef ég er í styttri ferð.
Ég skoða margar umsagnir annarra gesta (jákvæðar og neikvæðar), myndir af herberginu og gististaðnum og margt fleira. Ég skoða auðvitað líka kort af nágrenninu vandlega. Í umsögnum finnur maður oft góðar upplýsingar og ábendingar, t.d. um hvernig á að finna staðinn (það getur verið erfitt að rata á suma) og komast inn ef þetta er ekki hótel, ábendingar um verslanir og veitingahús í grenndinni o.fl. Í fyrra vissi ég t.d. vegna slíkra ábendinga að morgunmaturinn á hótelinu þar sem ég gisti í Aveiro væri ekki góður – eða a.m.k. ekki að mínum smekk – og þar sem hann var ekki innifalinn sleppti ég honum en fór í bakaríið/kaffihúsið beint á móti.
Í íbúðum sem ég vel þarf að vera ísskápur, einhver eldunaraðstaða, borð til að skrifa við og loftkæling/hiti. Það gat orðið ansi kalt á Sikiley um miðjan vetur, Norður-Portúgal var ögn skárri. Og svo þarf að vera þvottavél og þurrkunaraðstaða, a.m.k. í sumum íbúðanna. Það munar miklu í löngum ferðum, maður þarf mun minni farangur. Ég miða við að geta komist í þvottavél ekki sjaldnar en vikulega.
Þegar ég gisti á hótelum er þar sjaldnast eldunaraðstaða eða þvottavél en oft lítill ísskápur/minibar og kaffivél. Kaffivélin skiptir mig reyndar ekki máli nú orðið því að ég tek með mér pínulítinn rafmagnsketil og Aeropress-kaffigræjuna mína. Þetta er hvorttveggja létt og tekur lítið pláss í töskunni. Og ég lít yfirleitt ekki við hótelherbergjum þar sem er engin vinnuaðstaða en ef er góð setustofa eða lobbí á hótelinu sest ég stundum þar með tölvuna mína.
Næsta jólaferð
Ég legg af stað í jólaferðina mína núnq 22. desember, eftir að hafa haldið Litlu jólin heima hjá mér og gefið afkomendum góðan mat og jólagjafir. Auðvitað upplýsi ég ekkert um hvert ég er að fara fremur en venjulega. Facebook-vinir mínir fá vísbendingar og geta giskað.
Svo eftir að fyrsti áfangastaður kemur í ljós ætla ég öðru hverju að skrifa um staðina sem ég kem til með að dvelja á (þeir verða þónokkrir) og birta það hér, ef það gæti orðið öðrum til fróðleiks og jafnvel skemmtunar.







