Tengdar greinar

Jólaóróinn – tákn um fegurð og frið en getur líka táknað kvíða og jafnvel angist

Jólaóróinn er á mörgum heimilum tákn um farsæld og frið og gleðileg jól. Þessi órói, sem tengdur er jólunum, er sérlega fallegt skraut sem listamenn hafa lagt mikla vinnu í að hanna. Hann er líka löngu orðinn safngripur því árlega kemur nýr jólaórói.

Bára predikar í Útskálakirkju. 
Altaristaflan sem sést er líklega eina myndin í íslenskri kirkju þar sem engillinn tjáir Maríu um verðandi þungun sína. Boðun Maríu.

Orðið ,,órói” þýðir auðvitað eitthvað sem hreyfist og þannig er einmitt sérkenni jólaóróans. En þetta orð getur vitanlega líka merkt andstæðuna við rólegheit. Þetta vita þær Bára Friðriksdóttir, Petrína Mjöll Jóhannesdóttir í Árbæjarkirkju og Bryndís Malla Elídóttir í Seljakirkju, sem allar eru prestar og hafa því miður fundið fyrir vaxandi óróa í kringum hátíðarnar á undanförum árum. Bára segir að Petrína hafi fengið þessa hugmynd að bjóða upp á námskeið þar sem þátttakendur fá stuðning í gegnum þennan tíma og hafi fengið hinar tvær með. Streita og óróleiki hafi tekið yfir í lífi margra og þær ákváðu þess vegna að nefna námskeiðið Jólaórói.

Undið ofan af jólaóróanum   

,,Fyrstu hugrenningatengslin við jólaóróann eru við fallegu hönnunina sem dinglar í gluggum um jólin,” segir Bára.

,,Okkur langar að dempa niður asann og glimmerið en huga betur að innihaldi sem nærir,” heldur hún áfram. ,,Við erum að vekja athygli á erfiðleikunum sem margir finna fyrir á þessum tíma. Jólin eiga nefnilega að vera svo fullkomin, allir svo glaðir, gjafirnar eiga að vera svo frábærar og svo framvegis en samt finna margir fyrir einmanaleika og kvíða og höndla þennan tíma illa. Við vitum að það er langt því frá að vera  raunveruleiki allra að jólin séu falleg og góð. Ástæðan getur verið fátækt, sumir geta ekki verið nálægt ástvinum sínum, t.d. eftir skilnaði eða ástvinamissi, væntingar eru of miklar og mörgum finnst eins og þeir standi ekki undir þeim og þá er stutt í vanlíðan. Við gerum svo miklar kröfur til okkar sjálfra og finnst við verða að taka þátt í þessu leikriti. Sumir hafa átt erfiða æsku og þá leitar það ómeðvitað á okkur á fullorðinsárum,” segir Bára. Hún bætir við að þær þrjár langi til að vekja athygli á ástæðunum fyrir vanlíðaninni og bjóða þátttakendum að eignast þetta samfélag. ,,Það má líta á þetta sem nokkurs konar stuðningshóp sem hittist nú í

Gítarleikur er áhugamál Báru.

fimm vikur fram að jólum, einu sinni í viku í tvo tíma í senn. Þá förum við yfir þau atriði sem við ráðum yfir og getum breytt og hvað við getum ekki haft áhrif á. Við þurfum nefnilega öll að hafa fyrir því að finna friðinn á hverjum degi.”

Leitum til æskuáranna

Bára segir að í hópi, eins og námskeiðið um jólaórónn er, finni fólk samkennd og það sé svo gott að finna að maður er ekki einn að burðast með erfiðar tilfinningar á jólum. ,,Við tökum á

væntingum og vonbrigðum og hlutverkum okkar, kvíða, streitu og sorg og yfirleitt öllu sem snýr að fjölskyldutengslum. Við viljum  hjálpa fólki að draga úr áhrifunum sem valda erfiðleikum á þessum tíma.”

Bára segist hafa áttað sig á því að hún hugsi sjálf mjög oft aftur til bernskunnar þegar hún er að leitar að hughrifum sem kalla fram jólaandann. ,,Ég hef komist að því að það er fyrst og fremst tvennt sem stendur upp úr hjá mér. Það er annars vegar þegar ég var í barnakórnum og við sungum alltaf á jólatrésskemmtunum í skólanum. Við gengum í kringum jólatréð og sungum og ég fann að það gaf mér mjög mikið. Svo fann ég aftur þessa sömu, góðu tilfinningu þegar ég fór í kór sem fullorðin manneskja og söng jólalögin. Hitt sem sat eftir var þegar kennarinn í barnaskólanum tók upp biblíuna og las fyrir okkur jólasöguna. Hún er um hjónin sem voru á leið í skrásetningu keisarans og eignuðust barn á þeim hrakningum. Þau voru í raun og veru eins og flóttafólkið er í dag og voru á hrakhólum því fljótlega skipaði Heródes fyrir um að láta drepa þau. Sem fullorðin upplifði ég að Jesús væri jafn lifandi í dag og þá, hann veitir mér kærleika og styrk til að takast á við hversdaginn. Birta hans veitir birtu inn í jólin mín.”

Fullkomnunaráráttan

Bára á fjöllum 2019.

Bára segist sannarlega hafa verið með snert af fullkomnunaráráttu eins og svo margir og það hafi orðið til þess að jólamánuðurinn varð oft mjög erfiður. ,,Ég vildi gera ,,allt” fyrir jólin. Eitt af því var að skrifa jólakort og ég lagði mikið í að skrifa 30-40 kort með skemmtilegum athugasemdum og upprifjunum. Þetta var töluverð vinna fyrir utan allt hitt sem mér fannst ég þurfa að gera. Mér fannst þetta vera mjög mikilvægt en svo komu samfélagsmiðlarnir til sögunnar og ég fór að skrifa rafræn jólakort. Mér fannst ég vera að svíkjast um til að byrja með en svo fann ég að þessi breyting  létti af mér mikilli pressu þegar upp var staðið. Væntingarnar og kröfurnar sem við setjum á okkur sjálf eru oft of miklar og það er bara allt í lagi að breyta til. Þetta er eitt af því sem við viljum fara yfir á námskeiðunum og hjálpa fólki að koma auga á. Trúmál koma ekki inn í þetta námskeið að öðru leiti en því að við förum með þakkarbæn í lok hvers fundar. Svo bjóðum við þeim sem þurfa á meiru að halda að koma í helgihaldið í kirkjunni og sálgæsluna sem prestarnir veita.”

Forgangsröðunin

,,Það skiptir svo miklu máli að forgangsraða,” segir Bára. ,,Við verðum að gera okkur grein fyrir því sem skiptir virkilega máli og sleppa hinu. Það

Bára og Guðmundur með dóttur þeirra, Önnu Guðrúnu, þegar hún útskrifaðist úr sálfræði.

vinnur svo gegn okkur þegar við erum að reyna að gera allt. Fækkum hlutunum á listanum og þá kemur í ljós hvað skiptir mestu máli. Þegar ég hætti öllu veseninu með jólakortin hafði ég tíma til að gera annað sem var mun skemmtilegra og meira gefandi. Og nú breyti ég venjunum á hverju ári.”

Elskar að elda mat og ferðast innanlands    

Bára og Guðmundur Ásmundsson, eiginmaður hennar, á göngu inn að Lónsöræfum.

Bára segir að eitt af því sem skipti hana mjög miklu máli er að geta varið tíma í að elda mat. ,,Eldamennskan færir mér mikinn frið og ég elska að búa til eitthvað gott fyrir aðra. Við hjónin höfum ferðast mikið innanlands og höfum lengi haft á dagskránni að kaupa húsbíl. En umhverfismálin hafa tafið þau plön okkar og nú erum við að bíða eftir að framleiddir verði rafmagnshúsbílar,” segir Bára og brosir. ,,Annars geri ég mikið af því að ganga og er nýkomin upp á lagið með hljóðbækur. Að ganga úti í náttúrunni og hlusta á góða bók er óviðjafnanlega skemmtilegt.”

Hægt að koma inn í jólaóróann á síðari stigum

Námskeiðið er haldið í Seljakirkju á þriðjudögum frá 19 – 21 fram að jólum.   Það er mikil tilhlökkun hjá þeim Báru, Petrínu Mjöll og Bryndísi Möllu að sjá árangurinn því þær vita sem er að þörfin er fyrir hendi. Fyrsta kvöldið tókst vonum framar með 15 áhugasömum þátttakendum. Það má enn bætast í hópinn á síðari stigum fyrir þau sem hafa áhuga.

 

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður lifðu núna skrifar

Ritstjórn nóvember 26, 2021 07:00