Tengdar greinar

Kaka með berjum og heitri karamellusósu

Árstími berjatínslunnar er runninn upp og að sögn fróðra er þetta mjög gott berjaár. Sumir hafa notið meiri sólarblíðu en aðrir hafa upplifað meiri vætutíð. En til að berin þroskist vel þarf sitt lítið af hvoru og þar sem við höfum ekki enn uppifað frost er nú tíminn til að fara í berjamó og njóta útiveru. Þessi kaka er óviðjafnanleg og yfir heita karamellusósuna er stráð berjum. Ef við komumst ekki í berjamó er alltaf hægt að redda sér með því að kaupa fersk ber í verslunum og í þetta sinn urðu hindber fyrir valinu.

125  döðlur

1 tsk. matarsódi

120 g mjúkt smjör

5 msk. sykur

2 egg

3 dl hveiti

1/2 tsk. salt

1 1/2 msk. lyftiduft

1  tsk. vanilludropar

Setjið döðlurnar í pott með vatni svo fljóti yfir og látið sjóða í 3 mín. Hrærið matarsódanum út í þegar vatnið hefur aðeins kólnað. Látið í hrærivélarskál og bætið öllu öðru hráefni saman við og hrærið saman. Deigið á að vera líkt og vöffludeig að þykkt. Hellið deiginu í kringlótt form með háum börmum og bakið kökuna við 180°C í 30-40 mínútur.

Karamellusósan:

120 g smjör

100 g púðursykur

1/2 tsk. vanilludropar

4 msk.rjómi

Setjið allt hráefnið í pott og látið suðuna koma upp. Látið malla í 3 mín. og hrærið stöðugt í á meðan. Hellið sósunni yfir kökuna þegar hitinn hefur aðeins rokið úr henni. Dreifið berjum yfir og mjög gott er að bera þeyttan rjóma fram með þessari köku.

Ritstjórn september 17, 2021 15:44