Þegar gengið er um sögustaði og náttúruperlur Íslands fer ekki hjá því að ferðalangurinn velti fyrir sér hvernig hér var umhorfs þegar landnámsmenn stigu á land, þegar kristni var lögtekin í landinu, þegar Sturlungar riðu um héröð eða bara þegar langafi og langamma slógu engjar við kotbæinn sinn. Hver sá sem hefur velt slíku fyrir sér ætti að heimsækja Þjóðminjasafnið og skoða sjónrænt samtal Einars Fals Ingólfssonar við Sigfús Eymundsson.
Samtal við Sigfús er yfirskrift sýningarinnar en Einar Falur hefur lagt sig fram um að ferðast á staði sem Sigfús myndaði og taka myndir af þeim frá sama sjónarhorni. Það er bæði fróðlegt og eiginlega ævintýri líkast að sjá síðan myndirnar hlið við hlið. Hér verður augljós þróun og breytileiki náttúru í mótun og áhrif manna á umhverfi sitt.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Einar Falur ákveður að feta í fótspor merkra manna þetta er þriðja viðamikla verkefnið af þeim toga. Fyrsta slíka verkefni hans var Sögustaðir – Í fótspor W.C. Collingwoods. Þar vann hann út frá vatnslitamyndum breska listamannsins og fagurfræðingsins sem varðveitar eru í Þjóðminjasafninu. Samnefnd bók var gefin út af Þjóðminjasafni og Crymogeu og tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Annað slíka verkefni hans var Landsýn – Í fótspor Johannesar Larsen; sýningin var fyrst sett upp í Johannes Larsen Museet í Danmörku árið 2016 og síðar í Hafnarborg og gefin út samnefnd bók og þannig verður það líka að þessu sinni, bókin, Aftur – Samtal við Sigfús Eymundsson inniheldur rúmlega 130 ljósmyndir og texta eftir Einar Fal.

Verk á sýningunni Samtal við Sigfús – Í fótspor Sigfúsar Eymundssonar, í Þjóðminjasafninu 2025. Skógarfoss.
Sérstakt auga ljósmyndarans
Einar Falur féll fyrir mykraherberginu mjög ungur og áhugi hans og ástríða fyrir ljósmyndum hefur fylgt honum síðan. Hann kennt ljósmyndun og ljósmyndasögu og þar er Sigfús fyrirferðamikill. Einar Falur lagðist yfir myndir hans sem margar eru varðveittar í Þjóðminjasafninu, stúderaði og valdi úr þær sem hann ætlaði að vinna meira með meðan á undirbúningi verkefnisins stóð. Þú hefur talað um að Sigfús hafi haft sérlega gott auga fyrir sjónarhornum og taki hugvitsamlegar myndir. Sumir ljósmyndarar vilja meina að ekkert slíkt sé til heldur snúist þetta fyrst og fremst um þjálfun og tækni?
„Sigfús virðist hafa haft eitthvað sérstakt. Hann tók gríðarlega sterkar og áhrifamiklar myndir. Ég vil leyfa mér að fullyrða það. Eftir að hafa kennt þetta fag í áratugi held ég að ég geti alveg sagt að sumir koma inn með eitthvað sem aðrir hafa ekki,“ segir hann.
Þeir félagar eiga ýmislegt fleira sameiginlegt fyrir utan ljósmyndunina. Einar Falur er einnig rithöfundur og bókmenntafræðingur en Sigfús var mikill áhugamaður um bókmenntir og stofnaði bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar sem enn er til þótt hún hafi runnið saman við Pennann. Sigfús fæddist árið 1837 í Sunnudal í Vopnafirði. Hann ólst upp við fátækt en náði að mennta sig í bókbandi. Síðar komst hann út til Noregs þar sem hann lærði ljósmyndun. Hann var fyrstur Íslendinga til að starfa við ljósmyndun og opna ljósmyndastofu árið 1866. Auk þess var hann mikill framkvæmdamaður, stóð í útgerð, var framkvæmdastjóri þjóðhátíðar á Þingvöllum árið 1874 og seldi farmiða þeim Íslendingum sem fluttu af landi brott á níunda áratug nítjándu aldar. Einar Falur er aftur á móti kennari, ritdómari, blaðamaður, listamaður og ljósmyndari svo hann virðist ekki síður hafa gaman af fjölbreytilegri vinnu og verkefnum.

Frá Keflavík.
Gömul tækni og innsýn í huga Sigfúsar
Á sýningunni í Þjóðminjasafninu verður úrval þessara samtalsverka Sigfúsar og Einars Fals, að hluta ný prent eftir glerplötum eldri ljósmyndarans en einnig valin frumprent, frá þeim tíma á 19. öld þegar myndirnar voru teknar. Um er að ræða fágæta dýrgripi í eigu Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni sem afar sjaldan sjást, myndir sem Einar Falur kallar sannkallaðar perlur í íslenskri listasögu.
Þá verður einnig sýnt merkilegt albúm sem Sigfús setti saman með úrvali ljósmynda sinna. Var það til sýnis á ljósmyndastofu hans í Lækjargötu 2 og gátu gestir valið sér myndir til prentunar úr því. Það má kalla albúmið, sem hefur safnanúmerið Lpr. 1152, fyrstu íslensku ljósmyndabókina og hefur Einar Falur sérstaklega haft hana til hliðsjónar við mótun þessa viðamikla verkefnis. Þetta er heillandi sýning sem engin unnandi íslenskrar náttúru og lista ætti að láta framhjá sér fara.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.