Þung ský eftir Einar Kárason

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir

Þung ský er önnur bók Einars þar sem hann byggir lauslega á sögulegum atburðum en fyrri bókin er Stormfuglar sem kom út fyrir þremur árum. Hér er byggt á hinu skæða flugslysi sem varð í Héðinsfirði þegar farþegaflugvél frá Flugfélagi Íslands brotlenti í bröttum fjallshlíðum árið 1947.

Fámennt var í Héðinsfirði enda fjörðurinn við það að leggjast í eyði en til leiks er kynntur unglingspiltur sem þótti kostulegur þar sem hann er einfari og hefur mestan áhuga á fuglum og flugvélum. Þennan tiltekna dag sér hann þessa stóru flugvél fljúga svo lágt yfir fjörðinn hans að hann sér farþega veifa til hans og hann veifar á móti. Hann hafði oft dreymt um að ferðast um loftin blá í svona stórri flugvél og því var honum og sveitungum hans mjög brugðið þegar það fréttist að vélin væri týnd og líklegt væri að hún hefði farist í firðinum þeirra. Þeir voru beðnir að hefja leit og ungi maðurinn sem stuttu áður hafði unnið björgunarafrek fór með leitarmönnun þrátt fyrir ungan aldur og erfiðar aðstæður.

Við kynnumst fleiri sögupersónum en unga piltinum:

Hún var blaut og hún var köld og hún var í öngum sínum. Hún settist inn á Hressingarskálann og pantaði kaffi til að fá í sig yl og hugsa málin, en fór svo enn á ný með strætisvagni til Hafnarfjarðar. Hún reyndi að hringja norður en náði ekki sambandi, og grét sig í svefn um kvöldið. Hún átti unnusta fyrir norðan, eða það var það sem hún var að vona; það höfðu verið stuttaralegar kveður síðast þegar þau sáust. Hann var togarasjómaður og hann yrði farinn úr höfn og í langa veiðiferð áður en hún hefði möguleika á að komast norður úr þessu. Þau höfðu semsé kvatt hvort annað ósátt síðast er þau fundust og hún hafði haldið að það væri allt búið á milli þeirra en svo hafði hann hringt og beðið hana að koma norður og finna sig því hann saknaði hennar, og boðist til að endurgreiða fyrir hana flugmiðann sem hún myndi kaupa til að þau gætu hist, bara ef hún vildi koma, hann vildi fá að faðma hana og sjá áður en hann færi í næsta túr. En svona fór þetta. Það væri eins og einhver vildi gera henni illt. Hún hafði aldrei áður á ævi sinni farið út fyrir dyr einhverra erinda án þess að muna eftir að taka með sér það sem skipti öllu máli það sinnið. Hvernig gat hún farið út og alla leið til Reykjavíkur án þess að taka seðlaveskið með; sem lá svo bullandi af brúnum, bláum og grænum seðlum á borðinum beint fyrir framan hana þegar hún sneri við til að gá að því?“

Það eru margar yndislegar lýsingar í bókinni sem hljóta að snerta við flestum.

Ritstjórn nóvember 30, 2021 08:13