Tengdar greinar

Kanntu á Spotify í farsímanum þínum?

Erna Indriðadóttir skrifar

Sunny Afternoon með Kinks hjómar úr símanum og já, It Ain´t Me Babe með Dylan, svo koma Hljómar og syngja Sveitapiltsins draumur og svo framvegis og svo framvegis. Mér finnst eitt augnablik að ég sé aftur orðin fimmtán og skotin í bekkjarbróður sem nú er orðinn 68 ára. Þetta eru töfrar og ótrúlegt að ég sem er orðin 67 ára, skuli ekki fyrr hafa lært að setja Spotify í símann minn.

En fyrir eitthvert kraftaverk datt mér í hug að kíkja í heimsókn hjá símafyrirtækinu mínu Nova og það var ekki nóg með að ungur starfsmaður þar, Andri Þór Magnússon  kenndi mér að setja Spotify í símann, heldur upplýsti hann mig í leiðinni um að ég gæti lækkað símareikninginn minn verulega, með því að hringja minna í Upplýsingaveitur. Eftir að ég fékk bíl, þar sem síminn er innbyggður, hef ég iðulega notfært mér að hringja í upplýsingaveitur til að fá upplýsingar um símanúmer og láta tengja mig beint við þau númer sem ég þarf að ná í, sem er vissulega þægilegt og ég geri þetta oftar og oftar. Vissi ekki að hvert símtal kostar 400 krónur minnst og meira ef talað er lengi. Nú veit ég það sum sé og get lækkað símareikninginn.

Geislaspilarar verða smám saman úreltir eins og gamli plötuspilarinn. Mín kynslóð fór úr vinyl plötum í geisladiska og nú er röðin komin að Spotify, hvað verður það næst? Sjálfsagt kunna margir sem eru komnir yfir miðjan aldur að setja Spotify í símann og búa sér til playlista. Eru löngu búnir að því. En kannski eru líka einhverjir sem hafa slegið því á frest að taka Spotify í sína þjónustu. Fyrir þá eru eftirfarandi leiðbeiningar, sem ég setti saman með aðstoð Andra Þórs.

En í stórum dráttum er það gert þannig.

  1. Þú velur Play store í símanum.
  2. Ferð í leit og leitar að Spotify.
  3. Ýtir á SETJA UPP takkann og opnar þannig Spotify.
  4. Þá koma upp þrír möguleikar sem hægt er að velja úr.
  • Sign up free – en þá fylgja auglýsingar með í pakkanum.
  • Continue with Facebook – þá er aðgangurinn í gegnum Facebook og þú sleppur við að þurfa að logga þig inn í hvert sinn sem þú ætlar inná Spotify.
  • Log in, sem þýðir að þú skráir þig inn í Spotify, eða „loggar“ þig inn.
  1. Það virtist í fljótu bragði þægilegast að velja Continue with Facebook, þannig að ég valdi það, því mér leiðast auglýsingar inní efni sem ég er að hlusta eða horfa á, en að sjálfsögðu gildir það alls ekki um alla og það er auðvelt og aðgengilegt að velja bara Sign up for free.
  2. Þá kom upp skilti, Continue as Erna, sem ég átti að smella á.
  3. Vista reikning var næsta skref.
  4. Þá blasti við efnið á Spotify. Alls kyns tilbúnir Play-listar sem hægt var að velja.
  5. Á skjánum birtist líka Premium.  Með því að velja það, er hægt að sleppa við auglýsingar gegn því að greiða um 10 evrur á mánuði, sem eru 1.596 krónur miðað við gengið í dag.
  6. Síðan er fólki boðið að prófa Premium frítt í einn mánuð, en að þeim tíma loknum þurfa þeir sem velja þennan kost að byrja að greiða mánaðarlegt gjald, nema þeir segi áskriftinni upp áður.
  7. Fyrir eina manneskju er hægt að velja Premium individual free for að month. En hjón geta notað sama aðgang og uppí sex manneskjur geta notað sama aðgang að Spotify.
  8. Síðan þarf að setja inn greiðslukortaupplýsingar.
  9. Þá ættu menn að vera klárir og hægt að hlusta á alla playlista í Spotify, án þess að þurfa að opna það sérstaklega í hvert sinn. Bara ýta á Spotify merkið á skjánum.
  10. Fyrir þá sem vilja er hægt að búa til eigin playlista með uppáhaldslögunum sínum.
  11. Þá er valið lag. Lengst til hægri á skjánum við lagið, eru þrír punktar sem ýtt er á.
  12. Þá kemur upp listi yfir það sem hægt er að gera og til að búa til lista er ýtt á Add to playlist og það er hægt að búa til marga playlista ef vill.

Vilji menn hlusta á tónlistina í hátalara heima hjá sér, þarf að tengja símann við hátalarann sem er ekki flókið að sögn Andra Þórs sem bætti við að kannski mætti fá börn eða barnabörn til að hjálpa til. Einnig væri hægt hjá þeim að hringja í þjónustufulltrúa sem aðstoða fólk gjarnan í gegnum símann við einfalda hluti, eins og að tengja síma við hátalara.

Ritstjórn júlí 14, 2020 08:30