Kjarngóð súpa í Kópavogi

Ragnheiður Hermannsdóttir eldaði í vikunni frábæra súpu handa bókaklúbbnum sem hún er í. Með henni hafði hún ristað rúgbrauð, sýrðan rjóma og eplablöndu. Þetta rann ljúflega niður og punkturinn yfir i-ið var svo hrákaka með jarðaberjum og rjóma.  Lifðu núna herjaði út úr henni uppskriftirnar að þessu góðgæti. Þess má geta að í klúbbnum var bókin Elín ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur til umræðu. Niðurstaða klúbbsins var að bókin væri einstaklega vel skrifuð og athyglisverð. En hér koma uppskriftirnar.

Súpa

 • 1 grasker
 • 1 laukur
 • 1 sæt kartafla
 • 2 stórar gulrætur
 • 4 lauf hvítlaukur
 • 1 stór tsk rifinn engifer
 • 1 chilí, skorið þvert og steinhreinsað
 • 1 msk olífuolía
 • 1 msk sítrónusafi
 • ½ tsk cumen
 • ¾ dós kókosmjólk
 • malaður pipar
 • vatn

Grasker, sæt kartafla, gullrætur og laukur skorið gróft niður og sett í pott. Olífuolía og vatn hellt yfir, vatnið þeki u.þ.b. 2/3 af grænmetinu, frekar minna en meira. Ef súpan verður of þykk er hægt að bæta vatni í hana síðar.

Leggið chilí ofan á grænmetið í pottinum ásamt engifer, cumen og  sítrónusafa. Setjið lokið á og sjóðið við háan hita í 15 -18 mínútur.

Takið chilíið í burtu og maukið grænmetið með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Smakkið til með sítrónusafa, salti og pipar. Bragðbætt með túrmerik og cumen.

Ristað rúgbrauð passar vel með súpunni

Ábót í súpu

 • Sýrður rjómi
 • Handfylli graskersfræ
 • 1 tsk smjör
 • ½ tsk salt
 • 1 epli
 • 2 tsk sítrónusafi
 • ½ tesk hunang

Ristið graskersfræin á pönnu með smjörinu. Þegar fræin byrja að poppa takið þau af hitanum og stráið salti yfir.

Skerið eplin niður í smá teninga og blandið sítrónusafa og hunangi saman við.

Berið eplin, sýrða rjómann og graskersfræin fram með súpunni.

Gott að bera fram gróft brauð með súpunni eða ristað rúgbrauð.

Ristað rúgbrauð

Skerið rúbrauð í þunnar sneiðar, penslið með olíu og leggið á bökunarplötu. Ristið í ofni við 160°C ca 20-25 mínútur. Getur verið gott að strá salti yfir brauðið.

 

Hrákaka 

Botn

 • 100 gr kókosmjöl
 • 100 gr möndlur (með hýðinu á)
 • 250 gr döðlur
 • 2-3 msk kakó
 • Örlítið vatn

Hrákakan var unaðsleg og rjómi með úr hundrað ára gamalli rjómaskál úr fjölskyldu Ragnheiðar

Malið möndlurnar í matvinnsluvél, gætið þess að mala ekki of mikið þá verða þær að smjöri. Bætið öll öðru út í þar til deigið er oðið vel þykkur massi. Bætið vatni við eftir þörfum í ferlinu.

Setjið smjörpappír í mót og pjappið deiginu niður í mótið.

Krem

 • 1 ½ dl kókosolía
 • 1 ½ dl hrein kakó
 • ¾ dl Agavesíróp
 • salt

Bræðið kokosolíunna í heitu vatni. Hellið í skál og bætið öllu öðru út í og hrærið vel saman þar til kermið er oðið silkimjúkt og glansandi. Hellið kreminu yfir kökuna í forminu og setjið í frysti  í 15-20 mínútur. Takið kökuna út og skerið í bita.

Gott er að bera fram með kökunni jarðarber og rjóma.

Ritstjórn apríl 13, 2018 17:49