Kjúklingabitar með appelsínum og sítrónum

Þessi kjúklingauppskrift er tímafrek en hún er mjög góð. Hún er til að mynda tilvalin ef barnabörnin eru í mat því flestir krakkar kunna vel að meta kjúkling eldaðan á þennan máta.

10 – 12 kjúklingabitar (best að nota læri og leggi)

2 sítrónur

2 appelsínur

1 msk. ítalskt krydd

1 msk. rósmarin (þurrkað)

1 msk. timian (þurrkað)

1 tsk. laukduft

½ tsk. paprikuduft

1 meðalstór laukur

4 hvítlauksrif

2 msk. sykur

3 msk. bráðið smjör

¼ bolli olífuolía

Salt og pipar

Steinselja og ferskt rósmarin til skrauts

Hrærið saman í skál ólífuolíu, bráðnu smjöri, sykri, smátt skornum hvítlauk, safa úr einni sítrónu og einni appelsínu. Saltið og piprið blönduna. Setjið kjúklingabitana í ofnskúffu. Hellið blöndunni yfir kjúklingabitana, snúið þeim og passið að blandan þeki alla bitana.

Kryddið með ítölsku kryddi, rósmarin, timian, laukduftinu og paprikunni. Sneiðið hina appelsínuna og sítrónuna ásamt lauknum og  leggið yfir og undir kjúklingabitana.  Saltið vel og piprið. Látið kjúklingabitana bíða í um það bil 20 mínútur við stofuhita áður en þeim er stungið  inn í 180 gráðu heitan ofn í 45 til 60 mínútur.  Borið fram með fersku salati, brauði eða hverju því sem ykkur finnst best.

Ef þið hafið nógan tíma þá verður þessi réttur enn betri ef þið marínerið kjúklingabitana í nokkra klukkutíma eða yfir nótt í olífuolíu blöndunni.

Ritstjórn febrúar 22, 2019 07:53