Tengdar greinar

Kominn aftur í bílskúrinn eftir tæp 60 ár

Magnús Magnússon og Þorgeir með Dave Davies í Kinks

„Við urðum „heimsfrægir“ á einni nóttu þegar hljómsveitin Kinks kom til Íslands og hélt sex tónleika í Austubæjarbíó og við fengum að hita upp fyrir þá“, segir Þorgeir Ástvaldsson þegar hann rifjar upp hvernig hljómsveitin Tempo kom til sögunnar á sjöunda áratug síðustu aldar. Þá voru þeir félagarnir í hljómsveitinni 14 og 15 ára. Vettvangur þeirra hafði verið í bílskúrunum í Álfheimunum, þar sem þeir áttu heima hjá foreldrum sínum. „Með mér í Tempo voru þeir Halldór Kristinsson bassaleikari og gítarleikararnir Davíð Jóhannesson og Guðni Jónsson. Þrír trommarar spiluðu með hljómsveitinni; fyrst Ólafur Garðarsson, síðar Páll Valgeirsson og loks Gunnar Jökull Hákonarson. Allir frábærir trommarar sem hófu feril sinn í Tempo,“ segir Þorgeir. Það varð sumarvinnan þeirra næstu árin að spila á böllum og því fylgdi mikið frelsi. Það var númer eitt í bransanum á þessum tíma að vera með sítt hár og Þorgeir segir að það hafi verið miklu meira mál en það er í dag. Svo var það klæðnaðurinn. Tempo varð einkum þekkt fyrir þverröndóttar peysur þeirra félaga, sem voru rauð og svart röndóttar.

Ásta og þorgeir með frumburðinn

Var ærslabelgurinn í fjölskyldunni.

Þorgeir ólst upp við mikla tónlist, en hann fæddist í Reykjavík árið 1950. Foreldrar hans, Ástvaldur Magnússon og Guðbjörg Helga Þórðardóttir, komu bæði úr Dölunum. Faðir hans söng með Leikbræðrum á sínum tíma og móðir hans lék á píanó. Systir hans lærði á píanó. Afi hans spilaði á harmoniku. „Ég var ærslabelgurinn og lærði sjálfur það sem ég kann“, segir Þorgeir og brosir. Hann er sjálfmenntaður píanisti og kynntist harmonikunni hjá afa sínum. Eftir Tempo ævintýrið fór hann í Menntaskólann í Reykjavík og segir að þar hafi átt að bjarga síðhærða villingnum. „Á þeim tíma kynntist ég Ástu Eyjólfsdóttur, konunni minni,“ bætir hann við. Þau ákváðu að verða kærustupar og fjórum börnum og átta barnabörnum síðar eru þau enn kærustupar og fóru á eftirlaun um svipað leyti. 

Ástvaldur og Guðbjörg Helga með börnin sín, f.v. Magnús, Dóru Steinunni og Þorgeir

Á 20 lög sem enginn hefur heyrt nema hann.

Þorgeir starfaði síðast með Síðdegisútvarpinu á Bylgjunni en hætti þar störfum fyrir tveimur árum. Hann segist hafa komið sjálfum sér á óvart með hversu auðvelt það var, en hans vinnuævi hafi heldur aldrei verið hefðbundin 9 til 5 vinna. „Ég hef óskaplega gaman af tónlist og þegar ég hætti að vinna hafði ég hana til að snúa mér að“, segir Þorgeir sem er kominn aftur í bílskúrinn að spila. Hann segir að það hafi verið sér mikils virði að Ásta konan hans fór á eftirlaun um svipað leyti og hann.

Þorgeir hefur svo aftur farið að syngja með Fóstbræðrum, nánar tiltekið eldri Fóstbræðrum. „Tónlistin hefur alltaf eflt mig. Ég er núna að taka saman lög sem ég hef samið og ætla að koma þeim frá mér, en ég á 20 lög í handraðanum sem enginn hefur heyrt nema ég!“ Þorgeir, sem átti samleið með Ragnari Bjarnasyni í tónlistinni um 20 ára skeið, segir tónlistina frábæran orkugjafa og góða leið til að kynnast fólki alls staðar. „Það er mikill fjársjóður að lifa og hrærast í tónlist. Ég, Ásgeir Páll Ásgeirsson og Björgvin Frans Gíslason höfum undanfarið verið að fara á milli staða og syngja lögin hans Ragga. Við áttum allir samleið með Ragga Bjarna og köllum okkur í gríni Vini Ragga,“ bætir Þorgeir við en þeir hafa spilað á fjölmörgum elliheimilum. „Það er bara dásamlegt. Salurinn tryllist af kæti þegar við spilum Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig?“ segir hann og hlær.

Var ráðinn forstöðumaður Rásar 2.

Myndin af Þorgeiri hér vinstra megin var tekin þegar Rás tvo fór loftið, en myndin til hægri er tekin af honum á sama stað 30 árum síðar

Þorgeir fór í Háskóla Íslands eftir stúdentspróf og hóf nám við landa- og jarðfræðiskor skólans. Hann segist hafa lokið náminu með herkjum og fór að því loknu að vinna á Þróunarstofnun Reykjavíkur við kortagerð og skipulagsmál. En örlögin höguðu því þannig að hann fór að vinna við gerð útvarps- og sjónvarpsþátta um tónlist. „Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, síðar forseti Alþingis,  sem er úr Laugardalnum eins og ég hringdi í mig og bað mig að leysa sig af í poppþætti á Ríkisútvarpinu. Og þannig hófst ævintýrið“, rifjar hann upp. Í kjölfarið fylgdu fleiri þættir í útvarpi og síðar í sjónvarpi. „Ég var með þætti svo árum skipti í útvarpinu. Það var þrýstingur á stofnunina að spila þessa nýju tónlist sem hafði ekki verið fyrirferðarmikil í dagskrá Ríkisútvarpsins. Svo kemur að því að Andrés Björnsson, sem mér þótti mjög vænt um, ákveður að láta kanna hvort það sé möguleiki á því að innrétta eitt hornið í nýja útvarpshúsinu fyrir nýja útvarpsrás. Á þeim tíma var orðið ljóst að RÚV gæti ekki lengur einokað útvarps- og sjónvarpsrekstur og ákveðið var að bæta við annarri útvarpsrás til að styrkja rekstur þess áður en rekstur einkastöðvanna hæfist og auglýst var eftir forstöðumanni. Ásta Ragnheiður hvatti mig til að sækja um og ég gerði það í rælni. Umsækjendur voru 9 og ég var, nokkru eftir að umsóknarfresturinn rann út, kallaður niður á Skúlagötu og sagt að ég hefði fengið starfið“, segir Þorgeir sem þar með var orðinn forstöðumaður
Rásar 2.

Starfsfólk Rásar tvö á fyrstu árum hennar. Þorgeir fyrir miðju

Gríðarlegur áhugi á nýju stöðinni.

Þorgeir fékk Pál Þorsteinsson til liðs við sig en þeir höfðu á árum áður verið saman með útvarpsþátt á Rás eitt. „Ég hafði bara nokkra mánuði til að búa til nýja útvarpsstöð en það var gríðarlegur áhugi á stöðinni. Ég hafði ekki við að svara í símann og ég hvarf nánast af yfirborði jarðar þegar Rás 2 var að fara í loftið. Ég þurfti að vera í samskiptum við útvarpsráð, fylgjast með tæknibreytingum, fara til útlanda að kaupa tæki og svo framvegis. Ég vildi hafa fjölbreytta tónlistardagskrá og marga þáttagerðarmenn. Þarna kom sér vel að hafa Andrés Björnsson með mér í liði. Hann var hreinskiptinn og vissi alltaf hvað var í gangi“, rifjar Þorgeir upp. Rás 2 fór í loftið 1.desember 1983. Þetta voru tímamót í útvarpsrekstri hér á landi og til að byrja með var einungis útvarpað á rásinni að degi til. „Mér finnst ég hafa tekið þátt í breytingum, bókstaflega fært útvarpið inn í nútímann,“ segir Þorgeir.

Meira frelsi á einkastöðvunum.

Eftir að Rás 2 hóf göngu sína og einokun Ríkistúvarpsins var afnumin bættust fljótlega nýjar einkastöðvar við. „Fyrst var það Bylgjan, en þangað fóru nokkrir útvarpsmenn af Ríkisútvarpinu. Síðar stofnuðum við Jón Axel Ólafsson og Gunnlaugur Helgason útvarpsstöðina Stjörnuna, með Ólaf Laufdal með okkur í liði.“ segir Þorgeir.

Þorgeir með Bjarna Ara og Braga Guðmundssyni

Síðar sameinuðust Stjarnan og Bylgjan og þá bauðst Þorgeiri að taka við morgunþætti Bylgjunnar, sem hann gerði ásamt Margréti Blöndal útvarpskonu og þau héldu þættinum úti fram að aldamótunum. Eftir það tók Þorgeir við Síðdegisútvarpinu á Bylgjunni, og starfaði þar fram að starfslokum hans, lengst af með Kristófer Helgasyni. „Ég fann að ég var einfaldlega frjálsari þarna en á ríkisstofnunni. Ég var sjálfs míns herra og fékk að móta það sem ég var að fást við. Ég var líka búinn að fá nóg af stjórnunarstarfi og fundarsetum. Ég vildi vinna við þáttagerð, sem ég elskaði“.

Að vera á útvarpsstöð er svipað og að standa á Hlemmi.

Sumargleðin. Ragnar Bjarnason, Ómar Ragnarsson, Þorgeir og Magnús Ólafsson

Þorgeir fann fljótt á ferlinum að útvarpið var hans miðill. „Að vera á úvarpsstöð er eins og að standa á strætóstöð eða lestarstöð. Þú færð tækifæri til að kynnast fullt af fólki og horfa í kringum þig“, segir hann og svipað eigi við um Sumargleðina sem hann ferðaðist með um landið í 6 ár. Þar var Ragnar Bjarnason höfuðpaurinn og Þorgeir segir að hann hafi viljað halda tryggð við landsbyggðina og ná til alls landsins. „Fyrir mér var Sumargleðin stórkostleg tækifæri til að kynnast fólkinu úti á landi. Þarna lærði ég að þekkja þjóðina og þetta var virkilega skemmtilegur tími í lífi mínu. Einkunnarorð Sumargleðinnar voru söngur, grín og gleði,“ segir Þorgeir og brosir. Síðasta ár Sumargleðinnar var hún með 15 skemmtanir á Hótel Sögu. Þá fannst Ragga Bjarna nóg komið og þar með lauk Sumargleðinni. En samstarfi Þorgeirs og Ragga lauk ekki. Þeir áttu eftir að gefa út sex hljómdiska eftir að Sumargleðin hætti, en Ragnar Bjarnason lést 85 ára gamall.

Vill betra líf fyrir eldri borgara.

Þorgeir er þeirrar skoðunnar að íslenskt samfélag, sem hann hafi verið þáttkandi í bæði í fjölmiðlum og í tónlistinni, sé á hraðferð í gegnum ákveðnar breytingar sem ekki sjái fyrir endann á. „Sumt er jákvætt og annað óumflýjanlegt,“ segir hann. „Sú mynd sem blasir við mér núna þegar ég er kominn á eftirlaun staðfestir að eldri borgarar hafa verið hlunnfarnir, eins og rætt hefur verið um opinberlega. Ég er undrandi á því að ráðamenn þjóðarinnar taki mál eldri borgara ekki fastari tökum, og hafa ekki einu sinni reynt að taka önnur Norðurlönd sér til fyrirmyndar. Það hefur varla nokkur einasti þingmaður gert þetta að sínu máli. Það væri óskandi að eldri borgarar sameinuðust í átaki fyrir næstu kosningar til að krefjast þess að hlutur þeirra sem búnir eru að skila sínu lífsstarfi verði réttur,“ segir Þorgeir alvarlegur en breytir svo um tón. „Núna ætla ég að njóta lífsins og held út í vorið með tónlistina mína í farteskinu og Ástu mér við hlið.“

Þorgeir heldur tryggð við nikkuna sem hann kynntist hjá afa sínum í Dölunum

 

 

 

Ritstjórn mars 31, 2023 07:00