Tengdar greinar

Gunnar Þorgeirsson, nýkjörinn formaður Bændasamtakanna – hver er maðurinn?

Gunnar með nýja lausn í pakkningum fyrir kryddjurirnar frá Ártanga. Jarðgeranlegt plast (compostable plastic) mun leysa plastumbúðirnar af hólmi

Nýkjörinn formaður Bændasamtaka Íslands heitir Gunnar Þorgeirsson garðyrkjubóndi. Við tókum viðtal við Gunnar fyrir nokkru þar sem kemur í ljós hver maðurinn er og hvaðan hann kemur. Við endurbirtum viðtalið nú hér á síðunni í tilefni sigurs hans til formanns Bændasamtakanna í gær.

Gunnar Þorgeirsson, garðyrkjubóndi og fyrrverandi oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps, er rétt rúmlega fimmtugur og þar með kominn á miðjan aldur sem sumir segja að sé besti aldurinn. Það sé af því að þá hafi safnast nógu mikil reynsla í sarpinn til að fólk geti raunverulega tekið skynsamlegar ákvarðanir í lífinu. Gunnar hlær þegar þessi staðreynd er sett fram en segist þó ekki geta verið annað en sammála henni að mörgu leyti. Þegar hann fer yfir sögu sína segist hann sjá að oft hafi tilviljanir ráðið því hvernig líf hans æxlaðist. Hann er ánægður með útkomuna en segist nú samt hafa haft nokkuð að gera með endanlega mynd sjálfur. Gunnar hefur verið áberandi í umræðunni um þriðja orkupakkann og hefur mjög sterkar skoðanir hvað hann varðar. Haft hefur verið eftir honum að íslensk garðyrkja, í þeirri mynd sem hún sé nú, muni leggjast af með innleiðingu þriðja orkupakkans eins og hann er nú. Þá fullyrðingu byggir hann á því að orkupakki 3 sé samþykktur af Evrópusambandinu en fyrirvararnir sem Íslendingar vilji setja, séu það ekki. Þar geti skapast mikið vandamál þegar fram í sæki.

Fór fljótlega að skipta sér af sveitarstjórnarmálum

Gunnar fer stundum í fundafötin nokkrum sinnum á dag að eigin sögn.

Þegar Gunnar flutti í sveitina 1984 fór hann fljótlega að skipta sér af sveitarstjórnarmálum og hefur alla tíð verið sjálfstæðismaður. Árið 1994 settist hann í sveitarstjórn í Grímsneshreppi. Eftir 24 ára setu í sveitarstjórn gaf hann ekki kost á sér til áframhaldandi starfa við síðustu kosningar. “Ég var búinn að sitja þar hálfa ævina og það var komið alveg nóg,” segir Gunnar sem situr reyndar ekki alveg auðum höndum því ásamt því að stíga aftur inn í fjölskyldufyrirtækið af fullum krafti situr hann áfram í stjórn Fræðslunets Suðurlands og stjórn Byggðastofnunar ásamt því að vera formaður skólanefndar Menntaskólans á Laugavatni þar sem spennandi hlutir eru að gerast. Þar fyrir utan er hann formaður Sambands Garðyrkjubænda svo það er enn í ýmist horn að líta og kraftur Gunnars nýtist áfram víða og þannig vill hann hafa það.

Kaus sveitina fram yfir félagslífið í skólanum

Þegar Gunnar var orðinn nógu gamall til að fara að heiman, svona 10 ára gamall, fór hann í sveit til skyldfólks í Austurey við Apavatn. Öll sumur í mörg ár og allar helgar á vetrum dreif Gunnar sig austur til að taka þátt í bústörfunum. Þegar hann hóf síðan nám í Verslunarskóla Íslands fór félagslífið í skólanum að mestu fram hjá honum. Á meðan skólafélagarnir fóru í partí og á skólaböll kaus Gunnar að fara í sveitina. Foreldrar hans lögðu að honum að mennta sig og sögðu að hvað sem hann tæki sér fyrir hendur í framtíðinni myndi það koma sér vel. Hann tók mark á þeim, fór í Verslunarskólann og kláraði Verslunarskólaprófið. Eftir það fór hann í offsetprent í Iðnskólanum og gat tekið það nám á skömmum tíma þar sem hann fékk nokkrar námsgreinar úr Verslunarskólanum metnar. Gunnari fannst liggja beint við að fara í prentið þar sem afi hans hafði stofnað prentsmiðju sem faðir Gunnars stýrði í mörg ár eftir lát föður síns. En þegar til kom sá Gunnar ekki fyrir sér að starfa við prentið heldur streymdi hann í sveitina strax og færi gafst. Og svo tók við atburðarás sem var eðlilegt framhald af því hvernig Gunnar hafði varið öllum sínum frítíma fram að því.

Fann ástina í sveitinni

Sigurdís Edda Jóhannesdóttir í gróðurhúsunum á Ártanga.

Gunnar var svo heppinn að kynnast ungri snót, Sigurdísi Eddu Jóhannesdóttur (kölluð Edda) frá Ormsstöðum í Grímsnesi þegar þau voru bara táningar. Samband þeirra hófst þannig að Gunnar fór sem vinnumaður með syni bóndans í Austurey þegar sá hóf búrekstur á jörð nærri Ormsstöðum. Þá var Gunnar orðinn táningur og eins og ungra er siður sótti hann sveitaböllin. Á Minni-Borg, skammt frá, voru böll sem fræg voru í mörg ár. Þar lágu leiðir Gunnars og Eddu saman og þau fundu strax samhljóm hvort í öðru og vissu sem var að sveitalífið og frelsið sem náttúran gaf þeim átti hug þeirra allan. Þau giftu sig 1984, þá um tvítugt, og eignuðust börnin snemma. Brúðargjöf tengdaforeldra Gunnars voru 2 hektarar úr landi þeirra að Ormsstöðum sem Gunnar og Edda máttu nýta að vild og þau nefndu spilduna sína Ártanga. Um það leyti fannst heitt vatn í jörð Ormsstaða svo þá var komið fyrsta púslið í spil sem hefur raðast saman í fallega mynd á 30 árum. Gunnar og Edda voru algerlega sammála um að setjast að í sveitinni. Þau veltu mikið fyrir sér hvort þau ættu að vera með kýr og kindur eða bara kýr en hefðbundinn búskapur átti ekki fyrir þeim að liggja. Nú er nafnið Ártangi búið að skapa sér veglegan sess á Íslandi en þau hjónin eru stærstu framleiðendur kryddjurta á íslenskum markaði.

Ártangi varð til

Föðursystir Gunnars, Hildur Baldursdóttir og eiginmaður hennar Bjarni Finnsson, stofnuðu Blómaval og ráku í rúm 30 ár. Þegar Gunnar og Edda voru búin að gera upp við sig að þau vildu búa í sveitinni og komið var í ljós að hiti var í jörðu á Ormsstöðum, gerðist enn ein tilviljunin í lífi Gunnars því Bjarni og Hildur komu að máli við þau af því sárlega vantaði pottaplöntur í Blómaval. Bjarni er garðyrkjufræðingur og þótti eðlilegt að Gunnar og Edda nýttu sér aðstöðuna sem þeim hafði hlotnast heima fyrir. “Bjarni var mjög hress og sagði að auðvitað ættum við að fara að rækta pottaplöntur og hann skyldi selja þær fyrir okkur,” segir Gunnar og hlær. “Ég spurði á móti hvernig maður gerði það eiginlega og Bjarna þótti það ekki mikið vandamál. Við skyldum bara fara til Danmerkur og finna út hvort þetta væri eitthvað sem við vildum gera og ef svo væri skyldum við nýta aðstöðuna sem við hefðum þegar heima fyrir. “Bjarni vissi greinilega hvað hann var að ráðleggja okkur því garðyrkjan náði okkur snarlega,” segir Gunnar. “Dvölin í Danmörku æxlaðist þannig að ég fór í garðyrkjunám og þegar við komum heim, þá með tvö börn, vorum við reynslunni ríkari eftir stórkostlega dvöl í Danmörku og höfðum næga þekkingu til að stofna fyrirtækið sem við höfðum áður nefnt Ártanga. Auðvitað hefur þetta stundum verið basl en alltaf skemmtilegt basl. Bjarni hafði sett upp pottaplönturæktun í einu gróðurhúsinu við Sigtún en þar sem verslunin óx hratt var ekki pláss lengur fyrir ræktunina svo við keyptum borðin af honum og fórum að rækta pottaplöntur. Auðvitað munaði um að hafa vísan kaupanda að framleiðslunni í byrjun.” Fyrir utan pottaplönturnar fóru Gunnar og Edda að framleiða túlípana 1995, fyrst 25.000 stk. á ári en nú framleiða þau 600.000 og nú sér Gunnar fyrir sér enn meiri stækkun á fyrirtæki þeirra Ártanga. Hann er jú “kominn heim” og ætlar sér ekki að sitja auðum höndum.

Þekkti sinn vitjunartíma

Ártangi býður upp á blandaðar kryddjurtir fyrir mismunandi rétti. Hér er blanda í potti fyrir fiskréttina.

“Það var annaðhvort að hætta í sveitastjórninni eða halda áfram á fullri ferð og hætta garðyrkjunni,“ segir Gunnar. “Ég valdi fyrir kostinn því ég veit af reynslunni að það er erfitt að gera bæði og sveitin kallaði eins og svo oft áður. Með aukinni framleiðslu er eins gott að vera vakandi yfir öllum smáatriðum.”

Gunnar fann auðvitað út að eftir því sem hann fór meira inn í sveitarsjórnarpólitíkina voru honum falin fleiri verkefni. “Mér þótti það reyndar mjög skemmtilegt og hafði sérlega gaman af að hitta allt þetta áhugaverða fólk sem varð á vegi mínum, fólk úr öllum flokkum með ólíkar skoðanir.“ Gunnar segist hafa sérlega gaman af að takast á við fólk sem er á ólíkri pólitískri skoðun og hann. “Annars hefði ég ekki enst svona lengi,” segir hann kankvís.

Gunnar segir hlæjandi frá því að félagar hans í sveitarstjórnargeiranum hafi gantast með að hann skyldi ekki búast við að fá vinnu neins staðar og allra síst hjá eiginkonunni sem Gunnar segir að hafi stýrt fyrirtæki þeirra með glæsibrag á meðan hann sinnti öðrum störfum.

“Í stuttu máli er ég aftur kominn heim í verkamannavinnuna og kann mjög vel við það,” segir Gunnar sem er óðum að “trappa sig niður”.

Ótækt að sami kallinn sitji svona lengi

Þegar Gunnar flutti í sveitina 1984 hafði sami maður verið oddviti þar í 16 ár. „Mér þótti ótækt að sami kallinn sæti svona lengi,” segir Gunnar og bætir við að þegar hann hætti í sveitarstjórn 2018 hafði hann verið búinn að sitja þar í 24 ár. Á þeim tíma var hann 16 ár oddviti og 10 ár formaður Sunnlenskra sveitafélaga. “Ég sá auðvitað að ótækt væri að sami kallinn sæti svona lengi og hætti,“ segir hann hlæjandi.

Burstað stál og gler og ein orkidea

Í aðdraganda hrunsins hafði verið góður tími hjá blómabændum en þá voru pottablóm aðalframleiðsla þeirra á Ártanga. “Á þessum tíma breyttist pottaplöntuneyslan og þessi hlægilegi stíll með burstuðu stáli og gleri og einni orkídeu eða einni sítrónu komst í tísku,” segir Gunnar og brosir. Það var ekki hans still en auðvitað svaraði hann eftirspurninni en svo kom hrunið og þá gat fólk eðlilega sparað í pottaplöntukaupum. “Þá var ekkert annað í stöðunni en velta fyrir sér hvað annað en pottaplöntur við gætum boðið upp á og okkur fannst liggja beinast við að reyna að bjóða upp á eitthvað sem fólk borðaði. Við veltum mikið fyrir okkur að fara út í tómata- eða agúrkuræktun en þar sem góðurhúsin okkar voru hönnuð fyrir pottaplönturæktun með þar til gerðu borða- og vökvunarkerfi hefðum við þurft að leggja út í mikinn kostnað við að breyta og fundum út að það borgaði sig ekki að fórna fjárfestingunni sem við höfðum þegar lagt út í. Í framhaldi af því fórum við til Noregs til að skoða kryddjurtaræktun og þar með var teningnum kastað og við ákváðum að skipta pottaplöntunum út fyrir kryddjurtir. Þannig gátum við nýtt allt kerfið okkar í gróðurhúsunum og hafið kryddjurtaræktun sem við höfum gert frá 2013 og það hefur gengið vel.”

Viðkvæmur rekstur sem krefst yfirlegu

“Síðustu árin hef ég í raun ekki gert annað en verið í þessu stjórnmálavafstri og Edda hefur alfarið séð um reksturinn,” segir Gunnar. “Garðyrkjan er erfið atvinnugrein og það má ekki miklu muna ef endar eiga að ná saman,” segir hann. “Það má enginn við því að verða að kaupa iðnaðarmenn í lagfæringar svo dæmi sé tekið svo nú mun mín verkþekking nýtast og við erum með stækkun fyrirtækisins á prjónunum.”

Gunnar hefur búið í Grímsnesinu alla tíð og undanfarin 24 ár hefur hann þurft að vera oft á fundum í Reykjavík. Hann þekkir því vel hvaða tíma það tekur hann að komast á fund í höfuðborginni. “Ég er nákvæmlega 50 mínútur að Ártúnsbrekkunni miðað við að aka á löglegum hraða. Síðan þarf ég nú orðið að reikna annan eins tíma að komast leiðar minnar innanbæjar. Ég var til dæmis í 40 mínútur í gær að komast úr Ártúnsbrekkunni í Fjármálaráðuneytið. Svo talar fólk um að það sé langt að fara austur fyrir fjall. Ég kemst hiklaust leiðar minnar allt sem ég þarf að fara í sveitinni en í bænum þarf ég að bíða og bíða og bíða og bíða……. í bílnum.”

Kryddjurtir í blómabúðum

Salatþrenna í einum potti sannarlega bæði falleg og til að auka matarlystina.

Gunnar segir að nú séu blómabúðir farnar að selja töluvert af kryddjurtum því fólk sé í auknum mæli farið að planta þeim úti í garði eða á veröndinni, nálægt grillinu, og nota þær í matargerðina. “Nú er gífurleg aukning í kryddjurtanotkun almennings. Það helst í hendur við breytt mataræði og afturhvarf til náttúrunnar í matargerðinni,” segir Gunnar.

Í tengslum við náttúruna

Ártangabændurnir Gunnar og Edda eru sannarlega í tengslum við náttúruna og njóta þess að búa í sveit. Þau eiga þrjú börn, Héðin, Ragnhildi og Freydísi og ellefu barnabörn. Eðlilega þykir smáfólkinu gaman að fá að vera hjá ömmu og afa í sveitinni og daginn áður en viðtalið fór fram hafði Gunnar hrósaði litlum snáða mikið fyrir dugnað og sagðist bara verða að setja hann á launaskrá fyrst hann væri svona duglegur. Morguninn eftir vaknaði sá stutti klukkan 7 og var kominn alklæddur og tilbúinn niður í gróðurhús að vinna. Afi tók vel eftir því og hafði gaman af.

Ritstjórn mars 4, 2020 08:19