Kona af íslenskum ættum kynnir nýja íþrótt „pickleball“ fyrir Íslendingum

Ruth Ellis

Ruth Ellis fæddist í Reykjavík, en móðir hennar var frá Ísafirði. Hún ólst upp í Bandaríkjunum, á Washington DC svæðinu, starfaði lengi sem heimilislæknir, en er núna komin á eftirlaun. Það er áhugi hennar á pickleball og landi og þjóð, sem varð til þess að hún fékk þá hugmynd að kynna þessa skemmtilegu íþrótt fyrir Íslendingum. Stöðugt fleiri Bandríkjamenn stunda íþróttina sem var fundin upp á Bainbridge Island, úti fyrir ströndum Seattle borgar í Washington fylki í Bandríkjunum. Þrír feður tóku sig saman og fundu upp pickleball, sem er sambland af tennis, badminton og borðtennis, til að hafa ofan af fyrir börnunum sínum á sjöunda áratug síðustu aldar. Iðkun íþróttarinnar hefur síðan breiðst út. Boltinn er nú spilaður í 70 löndum og engin íþróttagrein er í jafn örum vexti í Bandaríkjunum og pickleball. Hann er ekki spilaður hér á landi.

Bjóða pickleballtíma í nóvember

Helen White

Ruth Ellis spilaði tennis í 25 ár, en kynntist pickleball árið 2018 og hefur nú fengið réttindi sem pickleball þjálfari. Hún kemur hingað til lands í næsta mánuði ásamt félaga sínum Helen White sem er mikil boltaáhugamanneskja og margreyndur pickleball spilari og þjálfari.  Hún er sérstakur sendiherra pickleball í Norður-Virginiu og Washington DC. Þær koma hingað á vegum Breakthrough Community Sports og Pickleball klúbbsins í Arlington og ætla í samvinnu við Tennishöllina í Kópavogi að vera með nokkra kennslutíma í pickleball í nóvember til að kynna íþróttina fyrir Íslendingum.  Sérstakur tími fyrir eldri borgara verður 8.nóvember og er aðgangur ókeypis, en þetta er talin sérstaklega skemmtileg íþróttagrein fyrir þá sem eldri eru.

Tvennar mæðgur fara utan til að kynna sér pickleball

Áður en að þessu kemur fara fjórir tennisspilarar frá Tennishöllinni  til Arlington til að kynna sér íþróttina og þjálfun pickleball.  Það eru tvennar tennisspilandi mæðgur sem fara utan. Alexandra Babik sem starfar í Bandaríska sendiráðinu og dóttir hennar Monika Björk menntaskólanemi. Þær eru báðar í tennis og  Alexandra hefur meðal annars skipulagt tennismót í Tennishöllinni. Hinar mæðgurnar eru Mia Georgsdóttir og dóttir hennar Sofia Sóley Jónasdóttir háskólanemi, en öll fjölskylda Miu stundar tennis . Sjálf var hún Íslandsmeistari í tennis árið 2002 og 2005 og Sofia Sóley er núverandi Íslensmeistari kvenna í tennis.

Íslandsmeistarar í meistaraflokki karla og kvenna í tennis. Birgir Gunnarsson og Sofia Sóley Jónasdóttir, ein þeirra sem fer til Bandaríkjanna að kynna sér pickleball

 

 

Ritstjórn október 13, 2022 07:00