Kona sem fannst í fiðrildakassa

Sumarbók vikunnar heitir Rótlaus og er eftir Dorothy Koomson. Á bókarkápunni segir meðal annars að bókin fjalli um konu, Clemency, sem var ættleidd í bernsku. Eina vísbendingin sem hún hefur um blóðmóður sína er pappakassi, fagurlega skreyttur fiðrildum. Á fullorðinsárum ákveður hún flytja til Brighton þar sem hún fæddist. Þar kynnist hún óvænt konu sem reynist vita sitthvað um fiðrildakassann. Smám saman afhjúpast leyndardómurinn um bernsku hennar en jafnframt eiga sér stað voveiflegir atburðir.  Áhrifamikil saga um leit að fortíð og óvissuna sem oft fylgir ættleiddum einstaklingum.

Árni Þór Árnason

Árni Þór Árnason

Kiljurnar handhægar í ferðalagið

Rótlaus er kilja og það er því auðvelt að taka hana með í ferðalagið þó hún sé um 500 blaðsíðna löng. Kápa bókarinnar er litrík og sumarleg. Sumrin eru tími kiljanna, en innbundnu bækurnar koma yfirleitt út fyrir jólin. Árni Þór Árnason kynningarstjóri hjá Forlaginu segir að á sumrin kaupi fólk frekar bækur fyrir sjálft sig, til þess að taka með í fríið og lesa á sundlaugarbakkanum eða í rólegheitum í sumarbústaðnum „Sumarbækurnar þurfa því að vera svolítið handhægari en þær innbundnu“, segir hann.

Bækur mjög mismunandi þungar

Innbundnar bækur sem eru gefnar úr fyrir jólin eru yfirleitt þyngri en kiljurnar. Það getur verið mjög erfitt að lesa 500 blaðsíðna innbundna bók upp í rúmi fyrir háttinn. Árni var spurður um þyngd bóka og hver væri þyngsta bókin hjá Forlaginu, fyrir utan stóru handbækurnar. „Það er í raun ekkert hægt að segja um þyngdina“, segir hann. „Bækurnar eru jafn misjafnar og þær eru margar en kiljurnar eru náttúrlega yfirleitt léttari en þær innbundnu. Svo fer það auðvitað bara eftir lengd bókanna hvað þær eru þungar. Þær léttustu sem við gefum út yfir árið eru ekki nema nokkur hundruð grömm en þær allra þyngstu fleiri kíló“.

 

Ritstjórn júlí 31, 2015 10:00