Kona/spendýr segir allt sem þarf

Nýverið kom út ljóðabókin Kona/spendýr eftir Ragnheiði Lárusdóttur. Eftir hana hafa áður komðu út ljóðabækurnar ,, 1900 og eitthvað“ sem er ævisöguleg og ,,Glerflísakliður“ en þar yrkir Ragnheiður um móður sína og eigin sögu, önnur með alzheimer og hin í sorg. Nýjasta bók hennar segir hún sjálf að sé almennt um stelpur og konur. Ragnheiður er er prestdóttir alin upp í  Holti í Önundarfirði. Hún segist muna eftir því að hafa undrast hina heilögu þrenningu ,,faðir, sonur og heilagur andi“ og hugsað oft ,,en hvað um mig, hvar á ég að vera“ og eitt ljóðið í nýju bókinni fjallar einmitt um það.

,,Mín reynsla er auðvitað þarna á bakvið en ég er að yrkja almennt um það sem ég held að flestar konur upplifi. Kvenhlutverkið, móðurhlutverkið og húsmóðurhlutverkið eru risastór hlutverk og ég upplifði mikið óréttlæti og misrétti sem er enn við líði í heiminum. Ég var að heyra í útvarpinu áðan að enn er 10% launamunur á körlum og konum og það er bara ekki í lagi. Samt erum erum við hér í þessu forréttindalandi sem er í rauninni gósenstaður fyrir konur miðað við það sem gerist annars staðar. En nú er svo mikil afturför í kvenréttindabaráttunni mjög víða og nægir að nefna afnám fóstureyðinga í Bandaríkjunum og í Íran þar sem konur eru drepnar fyrir að ganga ekki með slæðu. Og í fréttunum í gær var að nú ætti líka  að banna konum í Íran að fara í skemmtigarða. Það er svo undarlegt og hræðilegt að fylgjast með þessu gerast árið 2022. Mér eru þessi mál mjög hugleikin og ég sé að afturförin varðandi réttindi kvenna er mikil.“

Ljóðabækurnar þrjár eftir Ragnheiði.

Ragnheiður segir að hún hafi alltaf verið mikið í karlaheimi, var ein í strákabekk og var að vinna á karlavinnustöðum. ,,Ég held að karlarnir hafi oft verið að ofbjóða stelpunni í hópnum en það er auðvitað ákveðið ofbeldi. En þetta tíðkaðist þá og ég óttast að þessi ósiður viðgangist enn.“

Í bókinni fjallar Ragnheiður meðal annars um það hvernig er að vera barnshafandi og að fæða barn. ,,Ég upplifði sjálfa mig vanmáttuga og að ekki hafi verið talað við mig  eins og viti borna manneskju. Ég var mæld og vigtuð og skoðuð innan og utan. Það var merkileg lífsreynsla sem ég nýti mér í ljóðum þessarar bókar,“ segir Ragnheiður.

,,Við héldum allar að þetta væri nú bara allt að koma þegar haldið var fyrst upp á kvennafrídaginn 1975. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar en við eigum samt langt í land varðandi jöfnuð,“ segir Ragnheiður og nýjasta ljóðabókin hennar á sannarlega erindi við samfélagið í dag, ekki síst ungar konur.

Sonur Ragnheiðar, Þorvaldur Sigurbjörn Helgason, er ljóðskáld eins og móðir hans og starfar líka sem blaðamaður. Hann gaf nýverið út bókina Manndómur en hún er hans þriðja ljóðabók. Áður komu út ljóðabækurnar ,,Draumar á þvottasnúru“ og ,,Gangverk“.

Ritstjórn nóvember 25, 2022 13:25