Tengdar greinar

Konur af erlendu bergi brotnar standa frammi fyrir sérstökum prófraunum á Íslandi

Eliza Reid skrifar í bókinni Sprakkar um kvenskörunga Íslands og hvernig þær leitast við að breyta heiminum. Bókin sem fjallar um jafnréttismál hér á landi er hugsuð fyrir erlendan markað en oft er gaman að heyra hvernig þeir sem eru aðfluttir upplifa veru sína hér. Kaflar í bókinni sem fjalla um innflytjendakonur eru þannig áhugaverðir.

En upplifanir innflytjenda fylgja engri forskrift, því hún er ekki til. Fyrir hverja konu eins og mig sem flytur hingað í innbyggt tengslanet venslafólks og fær vinnu sem tengist menntun hennar er önnur kona sem níðst er á, vinnur fyrir smánarlaun við óöruggar aðstæður af því að enginn hefur sagt henni frá réttindum launafólks hérlendis. Hælisleitendur koma með fáar eigur, á flótta undan ofsóknum og í leit að friði og öryggi. Sumar konur búa hér áratugum saman og tala málið lýtalaust, aðrar dvelja ekki nema nokkra mánuði eða ár á eyjunni, ánægðar með að búa í félagslegri kúlu ásamt öðrum innglytjendum og eiga sjaldnast samskipti við innfædda. Sumar verða einmana í litlum og að því er virðist einsleitum byggðarlögum. Aðrar láta drauma sína rætast með nýjum tækifærum og stefnumiðum. Enginn græðir á því að mála alla innflytjendur með sama lit og ætla þeim öllum sömu úrlausnarefnin og sama metnaðinn.

Konur af erlendu bergi brotnar standa samt vafalaust frammi fyrir sérstökum prófraunum á Íslandi sem ólíklegra er að verði á vegi kvenna með nöfn sem enda á -dóttir. Við þurfum að læra nýtt og óneitanlega flókið tungumál. Við höfum ekki innbyggt tengslanet æskuvina og ættingja og vitum ekki heldur alltaf hvar við getum leitað aðstoðar ef við þurfum á henni að halda. Við getum orðið fyrir barðinu á fordómum vegna upprunalands okkar, kynþáttar, málhreims , trúarbragða. Við erum hlutfallslega fleiri en innfæddar konur í kvennaathvarfi höfuðborgarinnar og ólíklegra er að við þekkjum lögbundin réttindi okkar og vitum af verndinni sem okkur stendur til boða ef við þurfum á slíku að halda. Það er líklegra að innflytjendakonur á Íslandi séu meira menntaðar en krafist er í störfunum sem þær fá heldur en innflytjendakarlar og einnig líklegra að þær vinni lengri vaktir en konur fæddar á landinu.

Eliza lýsir ekki bara stöðu innflytjendakvennanna almennt, heldur hittir hún þær einnig og tekur þær tali. Á Vopnafirði býr fólk af meira en tuttugu þjóðernum og þar býr ein þeirra kvenna sem Eliza fjallar um í bókinni sinni.

Ég kynntist Arlette fyrst þegar hún bauð sig fram í sjólaboðastarf við Iceland Writers Retreat í Reykjavík. Hún hafði fengið styrk frá kvenfélagi staðarins fyrir ferðinni til borgarinnar og gistingu á hóteli meðan á ritlistarbúðunum stóð. Arlette er hlý og full af eldmóði, á auðvelt með að umgangast fólk, hörkudugleg og elskuleg. Hún kom meira að segja með nokkra ferðamannabæklinga um Norðausturland og útbýtti þeim til erlendu gestanna okkar.

Þegar ég heimsótti hana svo á sveitabæinn skammt frá Vopnafirði að sumarlagi tveimur árum síðar játaði hún samt eitt fyrir mér: „Ísland hefur gert mig einrænni“. Hún hlútur að hafa séð hvað ég varð hissa. „Frá því ég flutti hingað,“ útskýrði hún, „líða stundum margir dagar án þess að ég tali við neinn nema manninn min og son minn“. Hún fékk sér tesopa.“Fyrst var það erfitt en nú er það komið upp í vana.“

Arlette er í hópi þeirra sem fluttu til landsins út af ást. Hún kynntist manninum sínum á netinu.

„Ég vissi ekkert um Ísland nema að það væri langt í burtu,“ sagði hún. „Ég hélt þess vegna að við myndum aldrei hittast, að við yrðum bara vinir á netinu.

Ég hafði einu sinni sagt honum að ég byggi í smábæ í Mexíkó með um það bil átta hundruð þúsund íbúum,“ hélt hún áfram og brosti ástúðlega við minninguna. „Þá svaraði hann kæruleysislega: „Ó, við erum aðeins færri hér.“ Þegar ég heimsótti hann fyrst stakk hann uppá því að við skryppum „í bæinn“ um kvöldið svo að ég klæddi mig uppá Þegar við komum þangað sagði hann að þetta væri allt og sumt og ég hélt að hann væri að grínast og fór að hlæja. Hér er enginn bar, ekkert diskótek, ekkert kvikmyndahús.“

Hún flýtti sér að benda á björtu hliðarnar:“En það er ekki nema tveggja og hálfs tíma akstur til Akureyrar.“

Ritstjórn desember 17, 2021 14:17