Flestir vita að lengi þótti ekki við hæfi að konur stigu á svið hvort sem var í leikhúsi, tónlistarsölum eða á skemmtistöðum. Þær konur sem það gerðu hættu mannorði sínu og fengu á sig ýmsa stimpla. En smátt og smátt fór það af og hæfileikar kvenna og sköpunarkraftur fór að verða metinn þótt enn vanti á að þær hafi sömu tækifæri í skemmtana- og afþreyingariðnaði og karlar.
Þess vegna er ánægjulegt að sjá að í tilefni Kvennaársins hefur verið sett upp örsýning á 4. hæð í Þjóðarbókhlöðu sem ber heitið „Konur í sviðslistum.“ Í kynningu á sýningunni segir: „Konur hafa ætíð verið virkir þátttakendur og brautryðjendur í sviðslistum Íslands. Fimm konur voru á meðal stofnenda Leikfélags Reykjavíkur árið 1897: Gunnþórunn Halldórsdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Stefanía Guðmundsdóttir, Steinunn Runólfsdóttir og Þóra Sigurðardóttir. Gögn frá leikkonunum Gunnþórunni og Stefaníu má sjá á sýningunni. Vigdís Finnbogadóttir varð fyrsta konan til að gegna stöðu leikhússtjóra ríflega 70 árum seinna í sama leikfélagi. Tinna Gunnlaugsdóttir varð síðan fyrsta konan til að gegna stöðu þjóðleikhússtjóra árið 2005. Konur voru frumkvöðlar í dansmenntun og dansi, þær leikstýrðu tímamótasýningum, léku ógleymanleg hlutverk út um allt land, hönnuðu leikmyndir og búninga, og bæði skrifuðu og þýddu leikverk ásamt fjölbreyttum hlutverkum bakvið tjöldin á saumastofum, í miðasölu og sminkherbergjum. Á sýningunni má sjá örlítið brot af framlagi kvenna til sviðslista á Íslandi síðustu 130 árin.“
Fleiri kvennasýningar
Auk þessarar áhugaverðu sýningar eru fleiri tengdar kvennaári í Þjóðabókhlöðu, nefna má þýðingar fjögurra kvenna, en þar er um að ræða verk fjögurra kvenna sem hafa þýtt lykilverk íslenskra bókmennta og kynnt þau fyrir löndum sínum. Konurnar eru Tatjana Latinović sem hefur þýtt á serbnesku og krótísku. Hún hlaut heiðursviðurkenningu þýðenda, Orðstír, árið 2025. Catherine Eyjólfsson sem hefur þýtt á frönsku. Hún hlaut heiðursviðurkenningu þýðenda, Orðstír, árið 2015. Larissa Kyzer sem hefur þýtt á ensku og Martina Kašparová hefur þýtt á tékknesku.
Sýning á safnkosti Kvennasögusafns undir yfirkriftinni Við erum margar. Safnið á hálfrar aldar afmæli en það var stofnað 1. janúar 1975 á heimili fyrstu forstöðukonu þess, Önnu Sigurðardóttur, í blokkaríbúð hennar við Hjarðarhaga. Í kynningu á sýningunni á vef Landsbókasafns segir:
„Stofnun safnsins var fyrsti íslenski viðburðurinn á alþjóðlegu kvennaári Sameinuðu þjóðanna en árið 2025 hefur einnig verið útnefnt Kvennaár.
Markmið Kvennasögusafns er að safna, skrá og varðveita heimildir um sögu kvenna og stuðla að rannsóknum á kvennasögu. Starfsemi safnsins byggir á þeirri sannfæringu að líf húsmóðurinnar sem sýður fisk í potti sé jafn órjúfanlegur hluti sögunnar og stjórnmálakarlsins sem stígur í pontu á Alþingi. Frá árinu 1996 hefur Kvennasögusafn starfað innan Landsbókasafns í Þjóðarbókhlöðu en það var draumur Önnu Sigurðardóttur frá upphafi – enda er kvennasagan hluti af þjóðarsögunni.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







