Kristinn H Gunnarsson fyrrverandi alþingismaður

Kristinn H. Gunnarsson fyrrverandi alþingismaður hefur ekki setið auðum höndum síðan hann hætti á þingi 2009. Það er raunar með ólíkindum hvað hann hefur komið miklu í verk. „Ég fór í Háskólann og tók BA próf í ensku og útskrifaðist 2012. Ég hef alltaf haft áhuga á tungumálum,“ segir Kristinn en hann lét ekki þar við sitja heldur lauk í beinu framhaldi Mastersprófi í stjórnmálafræði við háskólann í Leeds í Bretlandi. Áhugi á hagfræði hafði blundað í honum svo hann dreif sig í að ljúka meistaraprófi í greininni frá Háskóla Íslands 2016, jafnframt lauk hann kennsluréttindanámi á framhaldsskólastigi það sama ár. „Ég hef verið að kenna stærðfræði og hagfræði við Menntaskólann við Sund. Þetta er þriðji veturinn sem ég er að kenna. Mér líkar alveg ágætlega. Ég var að kenna áður en ég fór í pólitíkina en starfið hefur breyst töluvert síðan þá finnst mér, sérstaklega hvað varðar stöðu nemenda og kennara. Það eru meiri kröfur gerðar til kennarans en áður var. Þetta snýst meira um réttindi nemendanna. Mér finnst stundum að nemendur séu orðnir meiri neytendur en nemendur. Þeir horfa á skólann og spyrja, hvað getur hann gert fyrir mig sem er ekkert óeðlilegt.“

Kristinn er stærðfræðingur lauk BS prófi í stærðfræði fyrir tæpum 40 árum. Hann flutti til Bolungarvíkur á áttunda áratug síðustu aldar og fór að kenna þar. Hann var bæjarfulltrúi en náði kjöri sem þingmaður Alþýðubandalagsins 1991. Ferill hans sem þingmanns er um margt óvenjulegur, hann sagði skilið við Alþýðubandalagið og gekk í Framsóknarflokkinn 1998 fyrir þann flokk sat hann á þingi til ársins 2007 þegar hann beið lægri hlut í prófkjöri innan flokksins. Þá gekk hann til liðs við Frjálslynda flokkinn og sat á þingi fyrir hann 2007 til 2009. Kristinn sat því á þingi fyrir þrjá flokka.  Kristinn hefur aldrei gefið afslátt af skoðunum sínum og hafði oft aðrar skoðanir en flokkssystkini hans.

Kristinn á lögheimili fyrir vestan, hefur aðsetur í Reykjavík, en segist reyna að vera sem mest fyrir vestan.  Fyrir nokkrum vikum tók hann yfir ísfirska fréttavefinn bb.is ( Bæjarins besta). „Ég hef ritstýrt vefnum héðan að sunnan síðan ég tók við. BB.is verður lifandi fréttavefur og mun flytja fréttir af Vestfjörðum. Mig langar hins vegar til að stækka lesendahópinn og vera með efni og fréttir sem höfða til fólks annars staðar á landinu. Það gerir maður með því að vekja áhuga fólks málum sem hafa skírskotun til fleiri en Vestfirðinga. En þetta er svo sem allt í vinnslu,“ segir Kristinn.

En Kristinn hefur fleiri verkefni í pokahorninu. Hann er langt komin með BA nám í þýsku við Háskóla Íslands. „Mér fannst að það væri ekki nóg að vera með enskuna. Hinn enskumælandi heimur er ekki allt og þýskan er góð viðbót. Það opnar svo mikið sjóndeildarhringinn að vera læs og skrifandi á fleiri tungumál,“segir hann. Svo er það doktorsritgerðin sem hann er byrjaður að leggja drög að.“Ég ætla að ljúka doktorsritgerðinni þegar fer að hægjast um hjá mér. Ritgerðin á að fjalla um kvótakerfið hér á landi.“ Þegar Kristinn er spurður hvernig hann komi þessu öllu í verk segist hann einfaldlega alltaf hafa unnið gríðarlega mikið. „Ég hef alltaf unnið mikið sama hvort það er í námi eða pólitík. Pólitík er endalaus vinna.“ Kristinn hefur hin síðari ári haldið sig til hlés á hinu pólitíska sviði. Hann segist ekki vita hvort hann snúi til baka þangað. „Ég hef verið upptekin í öðru. Það er mikil deigla. Pólitíkin hefur ekki jafnað sig eftir hrun,“ segir hann að lokum

Ritstjórn október 24, 2018 09:29