Kristófer heldur á vit minninganna í Japan

Halldóra Sigurdórsdóttir skrifar um jólabækurnar

Skáldsagan Snerting, eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, segir frá Kristófer sem hyggst loka farsælum veitingastað sínum í miðbæ Reykjavíkur vegna kórónuveirunnar. Sama dag fær hann vinabeiðni á Facebook sem breytir lífi hans og við tekur ferðalag um hálfan hnöttinn sem og ferðalag um lönd minninganna.

Snerting er angurvær ástarsaga 75 ára gamals manns. Sögusviðið er Reykjavík, Bretland og Japan og spannar rúm fimmtíu ár. Hún hefst í Reykjavík en Kristófer heldur fljótlega á vit minninganna og rifjar upp árin sín í Bretlandi þar sem hann var háskólanemi og starfsmaður á japönskum veitingastað í London í kringum 1970. Síðar tekur hann sig upp og fer til Japans eftir að hann lokar veitingastaðnum sínum.

Þó að Covid ástandið hrindi af stað ákveðnu ferli í sögunni þá er sagan ekki um Covid. Hún er um ást og tilfinningar, eftirsjá eftir því sem hefði getað orðið, um það hvernig lífið fer stundum á allt annan veg en lagt var af stað með í upphafi og hvað manneskjan getur oft og tíðum ekki stýrt sínu eigin lífi.

Snerting er skemmtileg, falleg og afar vel skrifuð saga. Textinn er oft og tímum ljóðrænn og fágaður. Þetta er ein af þeim bókum sem halda manni föngnum frá fyrstu síðu til þeirrar síðustu.

Hér á eftir er að finna tvo kafla úr bókinni. Fyrri kaflinn er upphaf bókarinnar en seinni kaflinn er frá því þegar Kristófer stígur í fyrsta skipti á japanska grund.

Ég ætla að reyna að skilja sómasamlega við áður en ég skelli í lás. Ég er þegar byrjaður að ganga frá því það er svo sem ekki eftir neinu að bíða. Í gærkvöldi þegar starfsfólkið var farið heim settist ég inn í kompu og skrifaði mér tossalista sem ég betrumbætti svo í morgun þegar ég var kominn á fætur. Ég hafði ekki sofið vel, vaknaði við hríð á glugga og vindhviður sem slengdu greinum reyniviðarins í húsið með hrynjandi sem var um tíma furðu reglubundin en alls ekki óþægileg. Meðan ég lá andvaka notaði ég tímann og fór yfir listann í huganum en sat á mér að brölta á fætur og bæta við hann. Samt var ekki allt gleymt þegar ég tók til við hann að nýju eftir morgunmatinn.

Það er undarlegt til þess að vita að ekki eru nema þrjár vikur síðan hér voru áttatíu gestir í brúðkaupsveislu. Brúðguminn var íslenskur en brúðurin dönsk og matseðillinn eftir því, stjerneskud í forrétt, lambakóróna í aðalrétt. Þær eru ófáar brúðkaupsveislurnar sem ég hef haft umsjón með og get því óhikað sagt að ég sé öllu vanur í þeim efnum. Stundum þykist ég sjá brestina fyrir áður en blessað fólkið hefur látið gefa sig saman, stundum langar mig beinlínis að vara það við. En ekki íslenska drenginn og dönsku stúlkuna. Ég hef sjaldan séð fólk jafn ástfangið.

 

Hér er Kristófer kominn til Japan í fyrsta skipti.

Irasshaimase! Irasshaimase!

Við erum lent. Þrír flugvallarstarfsmenn taka á móti okkur þegar við göngum út úr vélinni, tvær konur og einn karl, hneigja sig og bjóða okkur velkomin. Þau eru öll með andlitsgrímur og flestir farþeganna líka. Sjálfum láðist mér að verða mér úti um grímu áður en ég lagði af stað frá Heathrow en ein af flugfreyjunum kom mér til bjargar svo nú er ég betur settur, í bili að minnsta kosti því ég mun auðvitað þurfa að endurnýja hana.

Það eru fáir í flugstöðinni svo ég er fljótur í gegn. Alls staðar heilsar starfsfólk mér hlýlega, ekki síst landamæravörðurinn sem segist ekki hafa séð mörg vegabréf frá Íslandi.

Þetta er í fyrsta sinn sem ég sæki Japan heim. Ég var oft kominn á fremsta hlunn með að bóka ferð hingað en sá alltaf að mér. Auðvitað hefði ég getað látið eiga sig að reyna að hafa uppi á Míkó, ferðast bara um, skoða hofin í Kýótó og Nara, höll keisarans í Tókýó og næturlífið í Shinjuku eða jafnvel heimsótt Hokkaido eyjuna í norðri, einkum hafnarsvæðin í borgunum Hakodate eða Otaru sem eru frægar fyrir afbragðs fiskmeti, ekki síst ígulker sem mér þykja svo gómsæt. Ég hefði getað farið í gönguferð um fjalllendið við Koyasan, til dæmis eftir gömlu pílagrímaslóðinni, og haldið mig frá Hírósíma, ekki einu sinni látið freistast til að eyða þar svo mikið sem broti úr degi. En ég sat á mér því ég vissi að ég myndi ekki geta hamið mig, ekki einu sinni þótt Ásta væri með í för.

Ritstjórn desember 21, 2020 08:51