Kveðjubréf til þeirra sem þér þykir vænt um

Sumt fólk skipuleggur brotthvarf sitt af þessari jörð afskaplega vel. Persónulegir pappírar eru í röð og reglu, erfðaskráin hefur verð samin og vottuð og fólk hefur skrifað niður hvernig það vilji að lífslokum þess verði háttað, segir í grein á vefnum aarp.org.

En það er eitt sem flestir gleyma hversu skipulagðir sem þeir annars kunna að vera og það er að skrifa kveðjubréf þar sem þeir segja ástvinum sínum hversu mikils virði þeir hafa verið þeim. VJ Periyakoil sérfræðingur í geð- og hjartasjúkdómum í Stanford University Medical Center hefur oft átt í samræðum við deyjandi fólk. Hún segir að algengasta umræðuefni fólks sé eftirsjá – eftirsjá yfir því að þeir hafi ekki sagt fólkinu sínu hversu vænt þeim hafi þótt um það eða þá að fólk sjái eftir að hafa ekki beðist afsökunar á einhverju sem það telur að það hafi gert á hlut annarra. Periyakoil segir að það sé þó ekki of seint að stinga niður penna eða skrifa bréf á tölvu svo lengi sem andleg og líkamleg heilsa leyfi. Hugsið um að skrifa fjölskyldu ykkar og vinum hinsta bréfið og segið þeim hvað ykkur liggur á hjarta. Bréfið mun gera þeim lífið léttbærara á erfiðum stundum. Hún segir að það geti þó verið erfitt að skrifa slík bréf og ákveða hvað eigi að segja.

Periyakoil segir að góð bréf hefjist á því að segja þeim sem standa hjarta þér næst hversu vænt þér hafi þótt um þá. Hún segir að fólki finnist kannski að það þurfi ekki að tjá sínum nánustu það bréflega því það hafi sagt fólkinu sínu það marg oft hversu vænt því þyki um það.  Hún segir að stundum gleymist töluð orð, týnist í öðru orðskrúði, og því sé það afar dýrmætt fyrir eftirlifendur að geta lesið bréf þar væntumþykja er tjáð. Hún ráðleggur fólki líka að minnast í bréfinu á skemmtileg atvik og stóru stundirnar sem þið hafið deilt saman.

Næst er það erfiði hlutinn það er að biðjast afsökunar. Margir finna til mikillar eftirsjár vegna einhvers sem þeir telja að þeir hafi gert á hlut einhvers sér nákomnum. Periyakoil hvetur fólk til að skrifa bréf og biðjast afsökunar telji það sig hafi brotið á einhverjum. Hún segir að eitt bréfkorn bæti kannski ekki allt en það geti hjálpað mikið til. Það geti jafnvel stuðlað að því sættir takist í fjölskyldum þar sem ágreiningur hefur ríkt.

Fólk gæti líka langað til að fyrirgefa einhverjum sem því þykir vænt um en hefur sært það. Það geti verið heilandi fyrir þann sem er fyrirgefið. Hafið ætíð í huga að síðasta bréfið frá ykkur á að vera uppfullt af ást og kærleika, segir hún. Það á ekki að vera særandi fyrir þá sem eftir lifa.

Þegar fólk hefur skrifað þau bréf sem það ætlar sér, ætti það að setja bréfið eða bréfin ofan í skúffu þar dýmætir hlutir eru geymdir. Mundu að bréfið sé það skrifað af hlýju, væntumþykju og ást verður ein dýrmætasta gjöfin sem þú skilur eftir.

Ritstjórn júní 25, 2019 10:54