Kvíðvænlegt að tæma háalofið

Það sanka flestir að sér margvíslegu dóti um dagana og þegar menn hafa búið lengi á sama stað með gott geymslupláss, fer ekki hjá því að þar safnast margt fyrir. Jafnvel svo mikið að það virðist óyfirstíganlegt. Margir standa frammi fyrir þessu þegar þeir ætla að fara að minnka við sig. Hjónin Elín Pálsdóttir, fv. forstöðumaður og séra Vigfús Þór Árnason, fv. sóknarprestur búa í einbýlishúsi í Grafarvogi í Reykjavík. Húsið er 240 fermetrar og háaloft yfir því öllu. Þar er sum sé stórt háaloft og í 27 ár, hefur verið ósköp þægilegt að setja bara allt sem þarf að losa sig við, þar upp. „Ég hef aldrei farið þarna upp, Vigfús sér um það. Börnin hafa líka varað mig við og sagt að ég myndi fá áfall ef ég færi uppá háalofið. Ég hef kíkt þarna upp en hraðað mér niður aftur. Þetta er hræðilegt, það er kvíðvænlegt að takast á við þetta“, segir Elín.

Elín og Vigfús við stigann það sem farið er uppá háaloftið

Einn daginn var allt komið uppá loft

„Við fluttum í húsið haustið 1990. Þá vorum við með búslóð, bæði frá Siglufirði og Ameríku. Það er tvöfaldur bílskúr við húsið og þangað settum við hluta af búslóðinni og ýmislegt dót sem átti eftir að fara í gegnum. Svo kom að því að við vildum nýta rýmið í bílskúrnum og í helmingi hans var skrifstofa sóknarprestsins í Grafarvogi í nokkur ár. Síðan vildu börnin fá að nýta hinn helminginn. Ég dró lappirnar, vildi fara í gegnum þessa kassa áður en þeir færu uppá loftið. Svo þegar ég kem heim einn daginn, þá eru þeir feðgar búnir að setja allt dótið uppá loft. Síðan hefur það verið þar og  stöðugt verið bætt í.  Nú stöndum við frammi fyrir því að fara yfir þetta og erum að hugsa um hvernig á að haga því“, segir Elín.

Yfirmaður á háaloftinu

Það kennir ýmissa grasa á háaloftinu. „Þar eru gamlar námsbækur og ýmislegt frá krökkunum frá því þau voru yngri“, segir Elín. „Þegar þau voru að fá unglingaherbergi, en við endurgerðum herbergin þeirra við fermingu, þá fengu þau ný húsgögn. Ég held að það séu sundurteknar kojur og rúm þarna uppi“. Síðan eru á loftinu nokkur pör af gömlum skíðum og skíðaskóm. Líka fatnaður sem ég hef ætlað að geyma. Gamlar bækur og ýmsir munir sem hafa verið teknir úr umferð á heimilinu. Annars vísar Elín málinu á Vigfús „Hann er yfirmaður á háaloftinu“, segir hún og bætir við að hann sé haldinn söfnunaráráttu. Vigfús neitar því ekki að svo sé. Hann byrjaði til dæmis lítill strákur að safna almanökum Eimskipafélagsins ásamt vini sínum. „Við fórum alltaf og fengum almanakið og söfnuðum því frá upphafi“, segir hann. Þeir söfnuðu líka tölum. Á Siglufirði fékk Vigfús gefna alls kyns gamla muni sem ýmsir hefðu hent, meðal annars frá hinum fræga“ Íslands Bersa“, Óskari Halldórssyni útgerðarmanni. Sumir hafa ratað aftur til Siglufjarðar, en aðrir bíða örlaga sinna á háaloftinu.

Best að taka þetta í smáskrefum

Þau segja að það sé ekki spurning að þau drífi sig í að taka háaloftið í gegn. „Auðvitað gerum við það“, segir Elín. Það þarf að taka kassana niður og þau segjst þurfa aðstoð við það. „Mín hugmynd var sú að strákarnir kæmu og tækju niður hluta af dótinu og við færum í gegnum það. Sonur okkar segir að það gangi aldrei, það sé best að henda þessu öllu, enda höfum við ekki saknað þess“.  Vigfús býst við að þau taki þetta í lotum eða smáskrefum. En það hafi líka komið upp sú hugmynd að taka bara allt út á hlað og skoða það. „Þessir kassar myndu örugglega fylla þriggja til fjögurra bílaplan“, segir hann. „Ég vil frekar taka hluta og hluta og skoða og láta það síðan fara“ segir Elín.  Og þau eru nokkuð bjartsýn á að það takist að fara í þetta fljótlega, þar sem þau eru bæði að mestu leyti hætt að vinna.

Ritstjórn ágúst 11, 2017 11:53