Eftir voru örfá pör af skóm

Jóhanna Margrét Einarsdóttir

Flutningum fylgir mikið rask og þeir taka á taugarnar. Hvað á að halda upp á og hverju á að henda. Svo er að pakka og koma sér fyrir á nýjum stað, útbúa nýtt heimili.  Undanfarnar vikur hef ég verið að fara í gegnum allt mitt dót. Sumt af því hefur verið óhreyft í kössum í næstum áratug eða síðan ég flutti þar síðast.  Ég tók góðan tíma í að fara í gegnum þessa kassa sem ég taldi að geymdu ýmiss verðmæti, hluti sem ég gæti ekki verið án og myndi án efa þurfa að nota einhvern tímann síðar á lífsleiðinni.  Ég byrjaði á að fara í gegnum bókakassana mína. Eftir nákvæma athugun komst ég að því að það voru í raun sárafáar bækur sem mig langaði að eiga. Ég mat bækurnar sem ég hélt eftir ekki út frá bókmenntagildi heldur því hvort að þær hefðu eitthvert tilfinningalegt gildi. Mér fannst ekkert auðvelt að losa mig við bækurnar en hugsaði sem svo að ef að mig langaði skyndilega að lesa einhverja þeirra aftur þá væri hægt að nálgast bókina á bókasafni. Það var mér huggun á meðan ég var að sortera bækurnar.

Svo voru það kassarnir sem geymdu allskonar dót, gamlar teikningar frá því sonur minn var í leikskóla og grunnskóla, allskonar föndurdót sem hann hafði gefið mér þegar hann var barn. Ég fór þá leið að velja nokkrar teikningar og hluti sem mér fannst eitthvað varið í. Hitt fór í ruslið. Það sama gilti um gamlar myndir. Það er óþarfi að eiga margar myndir af því sama. það fór drjúgur tími í að flokka ljósmyndir og ákveða hvað skyldi halda uppi á. Svo voru það öll gömlu fötin. Alla ævi hef ég haft gaman að því að kaupa mér falleg, klassísk föt og ég hef haldið upp á þau. Föt tengjast allskonar minningum úr fortíðinni og eru dýrmæti fyrir mér. Að vísu skal það játað að ég hef stækkað nokkuð með aldrinum og sumt af því sem ég hef verið að halda upp á er í barnastærðum sýnist mér nú. Ég valdi úr föt sem ég kemst enn í eða næstum því, það er aldrei of seint að fara í eina góða megrun. Það sama gilti um skóna, ég hélt eftir örfáum pörum. Það var því álitlegur stabbi sem fór í fatasöfnun Rauða krossins.

Svona hélt ég áfram og var grimm í því að losa mig við hluti eða henda. Þegar upp var staðið var ég búin að losa mið við þrjá fjórðu af öllu því sem var í geymslunni minni.  Síðan er ég búin að fara í gegnum aðrar veraldlegar eigur mínar og hef komist að því að það er í raun og veru fátt sem ég nota af öllu þessu dóti sem ég er að burðast með í gegnum lífið. Ég hef því spurt sjálfa mig að því; til hvers ertu að eiga þetta allt og niðurstaðan er sú að ég ætla að halda áfram að fækka þeim hlutum sem fá að fylgja mér í gegnum lífið. Ónauðsynlegt dót og hlutir valda manni vandræðum þegar maður flytur. Svo þarf að koma þeim fyrir á nýjum stað þar sem þeir gera ekki annað en rykfalla eða fara í geymslu.  Niðurstaðan er því sú að eiga einungis fáa hluti í framtíðinni. En eiga það sem ég hef ánægju af og nota.

Jóhanna Margrét Einarsdóttir júlí 8, 2019 06:59