Það mun birta á nýjan leik

Séra Vigfús Þór Árnason

Vigfús Þór Árnason fyrrverandi prestur í Grafarvogskirkju skrifaði eftirfarandi hugvekju á Facebook á mánudaginn var og gaf Lifðu núna leyfi, til að birt hana. Í greininni segir:

„Í gær, á Pálmasunnudegi,hófst svonefnd dymbilvika sem einnig hefur verið nefnd kyrravika, bænavika og friðarvika. Þessi vika er ávallt sérstök í lífi kirkjunnar okkar. Henni lýkur á föstudeginum langa þegar við minnumst þjáningar og krossfestingar Krists.

Fáir eða enginn hefur fjallað betur um þjáningu og krossfestingu Krists en sjálfur Hallgrímur Pétursson, Passíusálmaskáldið okkar. Það er því ánægjulegt að
Passíusálmar hans skulu ávallt um langan tíma hafa verið fluttir á föstunni á öldum ljósvakans í Ríkisútvarpinu. Á eftir
föstudeginum langa, þegar lærisveinar Krists upplifðu að vonir þeirra og þrár urðu að engu, komu síðan páskarnir sjálfir.
Páskarnir þegar sá, sem hafði kennt þeim svo mikið í lífinu, bent þeim á kærleikann, umhyggjuna og fyrigefninguna, var
upprisinn, hafði sigrað sjálfan dauðann og var mitt á meðal þeirra.

Segja má að íbúar heimsins gangi þessa dagana nokkurs konar föstugöngu vegna þeirrar veiru sem nefnd er Covid-19
og herjar nú á heiminn. Víða er brugðist vel við eins og hér á okkar litla landi. Framvarðarsveit Almannavarna stendur sig
afar vel, enda góður Siglfirðingur þar í forystu ásamt fleiru afburðagóðu fólki. Heilbrigðisyfirvöld eiga svo sannarlega hrós skilið sem og stjórnvöld þjóðar okkar. Það er yndislegt að finna hvað við stöndum vel saman á erfiðum stundum í lífi þjóðarinnar. Sjaldan eða aldrei hef ég fundið fyrir meiri umhyggju og kærleika en um þessar mundir. Undir þau orð geta margir tekið.

Við munum sigrast á þessari veiru. Það mun birta á nýjan leik. Sá sigur kristallast í sigri Krists á helgum páskum.
Í fyrsta sinn í þúsund ár verður ekki messað í kirkjum okkar á sjálfri páskahátíðinni, aðalhátíð kristinna manna.
Gott er þó að heyra að það verður messað í Rúv. þennan dag, páskadag og við sem erum heima m.a. í sjálfskipaðri sóttkví og að ósk barna okkar, tengdabarna og jafnvel að ósk barnabarnanna fáum að njóta messunnar.

Kæra fjölskylda, ættingjar og vinir, nú þegar eitt æviár hefur bæst við hjá undirrituðum, bið ég góðan Guð að blessa ykkur öll. Á þessum erfiðu tímum finnum við öll hvað skiptir mestu máli sem auðvitað er fjölskyldan sjálf, ættingar og vinir. Hér má svo bæta við að mikilvægt er að eiga trú á lífið sem er eilíft.

Með blessunaróskum.
Vigfús Þór Árnason“.

Ritstjórn apríl 9, 2020 11:53