Lærði á nýja símann sinn

Björk Þorleifsdóttir, einn eigenda Nonnabita, átti nýlega afmæli og fékk þá nýjan snjallsíma, Samsung Galaxy S4 mini, ásamt Samsung Galaxy spjaldtölvu í afmælisgjöf. Hún kom á námskeiðið hjá Símanum til að læra á símann.

„Ég þurfti að fara á námskeiðið því að síminn býr yfir miklu meiri möguleikum en ég hef þekkingu til að nota. Ég var búin að átta mig á hvernig ég ætti að hringja og senda smáskilaboð en ekki mikið meira en það,“ segir Björk.

Hún segist vera græjukelling í eðli sínu, hún hafi gaman af tækni og góðum tækjum en var alveg sátt við gamla símann sinn þó að hún hefði fengið nýjan að gjöf. Henni finnst gaman að nota nýju tækin og telur að þau gefi fjölmarga möguleika. Ekki takist að fara yfir allt og læra það á klukkutíma, sumt gleymist um leið og komið er út um dyrnar. Verst sé að geta ekki farið inn á netið og lesið allt um símann sinn. Upplýsingarnar séu sjálfsagt á netinu en þær séu ekki nógu aðgengilegar, þær þyrftu að vera aðgengilegri fyrir viðvaninga að finna.

„Ég ætti til dæmis að geta farið inn á www.siminn.is til að kynna mér allt sem tækið býður upp á. Mér finnst svoleiðis síðu vanta því að þá getur fólk grúskað í því heima hjá sér,“ segir hún.

Ritstjórn júní 11, 2014 17:58