Lagningu Miklubrautar lauk í ágúst 1949

Lagning Miklubrautar, sem lauk síðla sumars árið 1949, þótti mikil samgöngubót fyrir Reykjavík. Þann 20.ágúst birtist frétt um málið í Morgunblaðinu þar sem sagði:

Fyrir nokkrum dögum var lokið lagningu Miklubrautar er í framtíðinni mun verða ein aðalgatan fyrir umferðina til Reykjavíkur og frá. Miklabraut er og ein lengsta gata bæjarins. Það eru ekki nema nokkur ár síðan byrjað var að leggja Miklubrautina. Það sem þótti athyglisvert við langingu hennar var, að gatan átti að liggja í beinni línu alt frá mótum Miklatorgs og Snorrabrautar og inn undir Elliðaár, en þar áttu Miklabraut og Suðurlandsbraut að sameinast. Þessi leið frá Miklatorgi að Elliðaám, er tæplega fjórir kíómetrar á lengd og er Miklabraut því í tölu lengstu gatna bæjarins. Hún er 30 m. að breidd og eru þar meðtaldar gangstjettir, sem ekki hafa enn verið lagðar. Miklabraut er nú malarborin, en er gatan hefir þjappast vel undan umferðinni, mun núverandi ofaníburður verða notaður sem undirstaða fyrir malbikun og steypu.

Árið 1957 var ákveðið að ráðast í þá framkvæmd að skipta um jarðveg undir götustæðinu frá Miklatorgi að Lönguhlíð vegna þess að mælingar þóttu sýna að mýrarjarðvegurinn undir götunni myndi ekki þola aukið umferðarálag í framtíðinni. Við þessar framkvæmdir var Miklabraut breikkuð meðfram Klambratúni og gerð undirgöng við götuna við gatnamót Lönguhlíðar og Miklubrautar auk ýmissa annarra umbóta sem miðuðu að auknu umferðaröryggi. Undirgöngin voru að líkindum þau fyrstu sem gerð voru undir götu í Reykjavík.

Klambratún dró nafn sitt af býlinu Klömbrum sem þar stóð, en seinna var heiti þess breytt í Miklatún, uns heitið Klambratún var tekið upp á ný árið 2010.

 

Ritstjórn apríl 15, 2015 15:42