Tengdar greinar

Langeldað hvítlaukslambalæri

1 lambalæri, u.þ.b. 2 1/2 kg

1 msk. ferskt tímían og meira ef vill

nýmalaður pipar og salt

40-50 hvítlauksrif

2 msk. olía

3 msk. brandí

3 dl hvítvín, soð eða vatn

Hitið ofninn í 175°C. Nuddið lærið vel með tímíani, pipar og salti. Afhýðið hvítlauksrifin en látið þau vera heil. Hitið olíuna á stórri pönnu og brúnið lærið létt. Hellið brandíinu yfir og berið eld að. Eldsteikið lærið en þegar logarnir deyja út er hvítvíninu, soðinu eða vatninu hellt yfir. Látið vökvann hitna að suðu. Færið lærið síðan yfir í steikarfat eða ofnskúffu. Hellið soðinu í fatið eða skúffuna og dreifið hvítlauksrifjunum í kring. Látið lok á fatið eða leggið álpappír yfir barmana til að mynda nokkuð þétt lok. Setjið í ofninn og steikið í um 6 klst. Ausið yfir lærið öðru hverju ef vill en það er þó ekki nauðsynlegt. Takið lokið af síðustu 20 mínúturnar,  hækkið hitann í 200°C og látið lærið brúnast. Látið það síðan standa í 15 – 20 mín. áður en lærið er borið fram. Vökvinn sem hefur orðið til á eldunartímanum verður guðdómleg sósa með lærinu. Gott er að grilla grænmeti á meðan lærið eldast í ofninum.

Ritstjórn júlí 17, 2020 11:45