Tengdar greinar

Lát hjartað ráða för þegar taka þarf stórar ákvarðanir

Á hverjum degi allt okkar líf, erum við stöðugt að taka ákvarðanir. Flestar eru þær auðveldar og það þarf ekki að hugsa mikið um þær. Hvað á ég að hafa í matinn? Ætti ég að lesa bók eða horfa á sjónvarpið í kvöld? Ætti ég að hringja í dóttur mína og spjalla aðeins við hana?  Þú hugsar kannski um þetta eitt augnablik, en þessar ákvarðanir valda ekki kvíða, sama hvaða ákvörðun er tekin.

Þannig hljóðar upphaf greinar á vefnum sixtyandme, þar sem fjallað er um hvernig best er að taka erfiðar ákvarðanir. Greinin birtist hér í lauslegri endursögn, en hún miðast að sjálfsögðu við það að menn ráði hvenær þeir fara á eftirlaun, eins og algengt er að fólk geri í Bandaríkjunum.

Stóru málin

En stundum þurfum við að horfast í augu við miklu stærri vandamál sem þarf að taka ákvarðanir um. Við getum frestað því í  einhvern tíma en að lokum verður ákvörðunin ekki umflúin. Þetta eru ákvarðanirnar sem hafa mikil áhrif á líf okkar og framtíð. Þær geta til dæmis snúist um húsnæðismál. Ætti ég að minnka við mig? Ef ég geri það, hvernig vil ég búa? Vil ég hafa garð?

Þessar ákvarðanir geta líka snúist um hvernig menn haga lífi sínu. Hvenær á fólk að fara á eftirlaun? Vill það halda áfram að vinna fulla vinnu, eða fara í hlutastarf? Væri það hamingjusamara ef það hætti að vinna og færi frekar í sjálfboðastarf? En hvers konar sjálfboðastarf ætti það að vera?

Þær geta líka snúist um samband fólks við aðra. Er ástæða til að reyna að sættast við gamlan vin eftir rifrildi um daginn? Væri gaman að  verja meiri tíma með barnabörnunum?

Þannig er þetta, stundum snúið. En hvað er það helst sem getur hjálpað okkur að taka ákvörðun?

Augljóst val

Stundum liggur alveg ljóst fyrir hvað við ættum að gera, segir í greininni og höfundurinn tekur sem dæmi aðstæður fullorðinnar konu sem er að velta fyrir sér hvort hún eigi að flytja í stúdíóíbúðina sem sonur hennar og tengdadóttir byggðu við húsið, með hana í huga. Þar sem hún þarf orðið ákveðna aðstoð í daglegu lífi kemur sér vel að þau séu tilbúin að hjálpa henni. Þetta er jú nánasta fjölskylda og hún dáir litla ömmustrákinn.

Það virðist liggja beinast við að flytja til sonarins og málið er leyst.

Erfið ákvörðun

En þetta er ekki alltaf svona augljóst og kannski ekki einu sinni algengt að hlutirnir séu svona einfaldir.

Oft segir skynsemin okkur hvað er rétt að gera, segir í greininni, en hjartað er ekki endilega sammála. Og höfundurinn setur upp örlítið breytt dæmi.

Þú ert farin að þarfnast aðstoðar og veist  að sonur þinn og tengdadóttir eru reiðubúin að hjálpa þér, en þú ert ekki viss. Þér líkar ekki alls kostar hvernig þau haga sínu lífi. Langar kannski ekki að umgangast þau alla daga. Ömmustrákurinn er ekki vel uppalinn þannig að það er heldur ekkert sérlega skemmtilegt að hitta hann daglega.

Það virðist eðlilegasta lausnin að þiggja aðstoð þeirra en þú óttast að sambúðin við þau geti valdið deilum og leiðindum.

Hvað gerir þú þá?

Láttu tilfinningarar ráða för

Ég hef ekki skipt mér af lífi vina eða fólks í fjölskyldunni minni, vegna þess að mér finnst slíkar ákvarðanir í hæsta máta persónulegar, segir í greininni. Höfundurinn segist frekar hafa reynt að aðstoða með því að spyrja óbeinna spurninga sem varpa ljósi á málin og auðvelda fólki ákvörðunina. Það sé fjarri honum að taka fram fyrir hendurnar á fólki og segja því hvað sé best að gera.

En hann segi fólki gjarnan að það sé best að fylgja tilfinningum sínum, eða með öðrum orðum að láta hjartað ráða för.

Ekki augljóst mál

En öll mál eru ólík og lausnin ekki alltaf augljós. Höfundurinn tekur annað dæmi.

Þú ert á sjötugsaldri og einhleyp og það fer að líða að því að þú hættir að vinna. Þú ert við góða heilsu og allir segja þér að þú ættir að hætta sem fyrst og fara að ferðast til að skoða heiminn. Það hljómar vel en þú ert mjög ánægð í vinnunni, finnst skemmtilegt að umgangast vinnufélagana og hefur engan áhuga á ferðalögum.

En kannski er þessu þveröfugt farið. Þér er kannski ráðlagt að halda áfram að vinna og afla fjár, en alls ekki að hætta að vinna. Það hljómar skynsamlega, en innst inni veistu að þú ert orðin leið á vinnunni og langar mest að komast af stað til að skoða heiminn.

Þarna eru aðstæðurnar þær sömu hjá tveimur manneskjum, en tilfinningarnar gerólíkar. Enginn nema þær sjálfar geta vitað hvaða ákvörðun er rétt. En það er sjálfsagt að ræða málin við þá sem menn treysta. Það getur hjálpað verulega til við að komast til botns í þessu. Það er sjálfsagt að láta svona ákvörðun gerjast í höfðinu í einhvern tíma.

Reynið að fylgja hjartanu

Það er ekki víst að það sé auðvelt, en reynið að láta hjartað ráða för. Það verða kannski einhverjir móðgaðir og það getur haft áhrif á fjárhaginn þannig að þú hafir ekki úr jafn miklu að spila, segir höfundurinn en bætir við að í hvert skipti sem hann hafi látið heilann ráða, hafi það runnið upp fyrir honum síðar að það var rangt. Þegar hann hafi hins vegar fylgt hjartanu, hafi allt gengið upp og hann verið sáttur. Það sé það mikilvægasta að vera sáttur við þær ákvarðanir sem menn taki.

 

Ritstjórn september 7, 2022 07:00