Tengdar greinar

Leikfimin heldur í þeim lífinu

Þær koma víða að, konurnar sem mæta í leikfimi hjá Báru(JSB) fyrir sjötíu plús, en tímarnir eru á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 9:30. Þær sem eru á bíl finnst það góður tími, því þá þarf ekki að keyra í mestu ösinni á morgnana og hægt að fá  bílastæði fyrir utan hjá Báru. Ein kvennanna segist hafa farið í prufutíma hjá Báru fyrir fimm árum og hún sé þar enn. Önnur sagðst fyrst hafa byrjað hjá Báru árið 1983 og hafa verið þar af og til síðan.  Henni finnst skipta máli að kennarinn þekkir alla með nafni. „Það er persónulegra en í stóru líkamsræktarstövunum“, segir hún.

Konurnar tínast inn í salinn og Ingveldur Gyða Kristinsdóttir sem kennir í dag stillir sér upp fyrir framan hópinn og segir: „Byrjum á því að ganga á staðnum stelpur“ og hópurinn þrammar af stað, á staðnum auðvitað.  Þegar líður á tímann, sækja  þær dýnur og lóð og  áfram er haldið með æfingarnar. „Nú ætla ég að fara í mittið. Ef þið eruð slæmar í bakinu takið þá léttari lóð“, heldur Gyða áfram. Konurnar sem eru  um sjötugt og allt upp í rúmlega áttrætt, gera æfingarnar samviskusamlega. Kunna þetta allt saman.

Tímarnir hjá sjötíu plús eru rólegri

Eftir tímann biður blaðamaður Lifðu núna, Gyðu um að lýsa því á hvern hátt leikfimin fyrir 70 plús sé öðruvísi en leikfimi fyrir yngri aldurshópa.  „Konurnar í tímunum eru hættar að vinna, tímarnir eru á miðjum morgni og eru rólegri en tímar fyrir yngri konur“, segir Gyða. „Það hefur reynst mér vel að spjalla við þær og hafa þetta persónulegt. Æfingarnar eru kannski ekki allt fyrir þær. Það skiptir líka máli fyrir þær að fara út úr húsi og koma sér upp venju í því tvisvar í viku. Andlega hliðin skiptir einnig máli, að þær spjalli saman og hafi það notalegt. Sumar eru kannski lélegar í hnjánum og eiga erfitt með að gera æfingar sem reyna á hnén. Þær vilja hvorki hafa tónlistina of hraða né of háa og vilja gjarnan hlusta á Abba eða eitthvað sem við könnumst við frá því við vorum yngri“.

Gyða sem er líka jógakennari notar ýmsar æfingar úr jóganu í leikfiminni og kennir konunum öndun. „Svo enda ég tímann alltaf á að láta þær fylgja mér í slökun. Ég nota ekki möntru en tel frekar, einn, tveir, þrír fjórir“, segir hún. Slökun og teygjur eru mikið notaðar í tímunum fyrir 70 plús.

Marta Ólafsdóttir

Líður afskaplega vel eftir tímana

Blaðamaður Lifðu núna tók konurnar tali eftir tímann. Marta Ólafsdóttir fór fyrst til Báru þegar starfsemin var í Suðurveri, en það var í kringum 1970. Hún hefur líka stundað líkamsrækt annars staðar á köflum. Nú er hún hér „Leikfimin fyrir sjötíu plús er ágæt, en það fer alveg eftir kennara. Þetta reynir alveg á , eins og leikfimin í gamla daga. Það er aðeins minni áhersla á að styrkja magavöðvana, sem mikið er lagt uppúr þegar konur eru yngri. Þetta er alhliða leikfimi og mikil áhersla á jafnvægisæfingar. Það er það sem er öðruvísi. Menn segja að jafnvægið fari að dala uppúr þrítugu og jafnvel fyrr“, segir Marta. „Ef maður er slæmur í baki, þá bara sleppir maður þeim æfingum sem reyna á bakið. Manni líður afskaplega vel eftir tímana, ég legg mig oft og hlusta á fréttir þegar ég kem heim“.

Rífur mann uppúr sófanum tvisvar í viku

Ragna Magnúsdóttir býr í næsta nágrenni við JSB og kemur þangað fótgangandi. Hún hefur verið hjá Báru nánast frá upphafi, eða í yfir 40 ár  og er nú  í tímum fyrir sjötíu plús, en sjálf er hún komin yfir áttrætt. „ Þetta er ekki eins hratt, það eru engir pallar og engin hopp. Annars er þetta bara eins“, segir hún um leikfimitímana Sjötíu plús.

Tvær jafnöldrur hennar úr leikfimini, Þær Erla Ingimarsdóttir 85 ára og Hólmfríður Jóhannsdóttir 86 ára leggja nú orð í belg og segja að leikfimin haldi í þeim lífinu. „Hún veitir lífskraft og ánægju, að koma innanum þessar konur veitir mikla gleði. Þetta er orðið að lífsstíl. Maður fær samvisubit ef maður mætir ekki“, segir Erla. „Við höfum haft frábæra kennara“, skýtur Hólmfríður inní og Erla segir leikfimina gefa lífinu gildi „sérstaklega þegar maður er orðinn þetta gamall og vill helst sitja í sófanum fyrir framan sjónvarpið. Þá  rífur þetta mann upp tvisvar í viku“.

Á myndinn eru talið frá vinstri: Erla Ingimarsdóttir, Ragna Magnúsdóttir og Hólmfríður Jóhannsdóttir

Ritstjórn september 26, 2023 07:00