Tengdar greinar

Leikur Hamlet 82 ára

Hálf öld er liðin síðan breski stórleikarinn Ian McKellen lék Hamlet á sviði. Hann ætlar að endurtaka leikinn í sumar í Royal Windsor þó að hann sé orðinn 82 ára. Í viðtali við The Observer á dögunum segist leikarinn aðlaði ekki vita hvað það merki að vera gamall, honum líði eins og hann sé 12 ára.

Fékk falleinkunn fyrir Hamlet

Forsíða Observer-tímaritsins 13. júní sl.

Þegar McKellen lék Hamlet árið 1971 var skrifaður leikdómur þar sem sagði að hann hefði verið bestur þegar tjaldið féll. Semsé falleinkunn. Hann hefur ekki leikið Hamlet síðan.

Leikarinn segist ekki gefa mikið fyrir þá skýringu að önnur atlaga hans að hlutverkinu sé til að bæta fyrri frammistöðu. „Það var ekki mín hugmynd að leika Hamlet aftur nú. Mér var boðið hlutverkið, það gerði Sean [Mathias, samstarfsmaður um langt skeið], sem ég treysti betur en flestum leikstjórum.“ McKellen segir að þeir hafi verið sammála um að þetta yrði að þjóna einhverjum tilgangi, að snúa aftur í hlutverk sem hann lék síðast fyrir 50 árum. Það hljómi að sumu leyti einkennilega að ung leikpersóna skuli hafa líkama og rödd aldraðs manns, en það kunni hins vegar einnig að vera áhugavert.

McKellen er hvorttveggja í senn, ungur og aldinn, fullyrðir blaðamaður The Observer. Ungi leikarinn sem reyndi alltaf að bæta við áratugum ofan á hlutverkin sín sé nú Danaprinsinn sem reyni eftir megni að dyljast þess að vera orðinn fimmtíu árum eldri.

Langur og litríkur ferill

Blaðaviðtalið er tekið á afmælisdegi leikarans 25. maí sl. Hann vill ekki gera mikið úr deginum. „Við leikarar þurfum ekki neina athygli á afmælisdögum. Við fáum kort og gjafir á frumsýningum. Allir veita okkur eftirtekt. Afmælisdagar eru fyrir fólk sem ekki er í sviðsljósinu allt árið um kring.“

McKellen á 60 ára leiklistarferil að baki og hlutverkin hafa verið æði fjölbreytt. Líklega er hann frægastur fyrir að leika öldunginn göldrótta, Gandalf, í sex löngum Hollywood-kvikmyndum um Hringadróttinssögu. En hann á einnig fjölmörg önnur hlutverk, t.d. Ríkarð þriðja, bæði á sviði og í sjónvarpi, Magneto í X-Men, Makbeð, Sherlock, Raspútín, að ógleymdum sagnfræðikennaranum slóttuga, Leigh Teabing, í Da Vinci-lyklinum.

Efast um framhaldslíf

Flestir samleikara McKellens í fyrri uppfærslunni á Hamlet eru nú látnir, að sögn leikarans. Línurnar sem McKellen hefur verið að æfa að undanförnu upp úr leikverkinu fjalla allar meira og minna um endalokin, einhver leyndardómsfull kaflaskipti sem bíði okkar, ófundið land þaðan sem enginn ferðalangur á afturkvæmt. McKellen segist sjálfur ekki hafa mikla trú á framhaldslífi.

„Ég lét sannfærast fyrir löngu að lífið sem við lifum nú er allt og sumt. Það er ekki undirbúningur fyrir annað líf. Ég á kannski eftir að verða forviða þegar ég hverf yfir móðuna miklu. Mín kann að bíða óvænt ánægja. En ég held þó ekki. Dauðinn er leikslokin. Og hvernig hef ég svo farið með þetta eina tækifæri sem mér var gefið? Jú, ég fann mér eitthvað að gera sem ég held að ég sé laginn við. Það finnst mér að sé mitt framlag,“ segir leikarinn um leið og hann fer með línuna gamalkunnu úr Hamlet: „Þó það verði ekki nú, þá kemur að því samt; að vera viðbúinn er allt og sumt.“

„Og þér að segja,“ bætir hann við að skilnaði, „þá held ég að þeir sem deyja séu betur undir það búnir en við höldum sem eftir lifum.“

Viðtalið í Observer má lesa í heild sinni hér.

Ritstjórn júní 22, 2021 07:30