Léttist um 40 kíló og komst í kjörþyngd

Kolbrún Sandholt Jónsdóttir heilsar með brosi á vör þegar við hittumst á kaffihúsi í miðborg Reykjavíkur. Tággrönn og vel tilhöfð. Hún er ein af fáum sem hefur grennst og  tekist að viðhalda sér í kjörþyngd árum saman.

Nokkur áður en átakið hófst.

„Í september 2006 var ég orðin 107 kíló og líðanin eftir því. Ég skammaðist mín fyrir sjálfa mig,“ segir hún og bætir við að hún hafi verið komin með allskonar krankleika. „Ég var með fitulifur sem getur breyst í skorpulifur ef ekkert er að gert. Ég var með astma, háan blóðþrýsting, mér leið einfaldlega illa bæði andlega og líkamlega.“ Dóttir Kolbrúnar sá að þetta stefndi í óefni og skráði sig og mömmu sína á TT námskeið hjá JSB. „Mér leist ekkert á þetta og taldi að ég ætti ekkert erindi inn á líkamsræktarstöð. Ég sá alltaf fyrir mér vöðvastælt og fitt fólk þegar ég hugsaði um líkamsræktarstöðvar. En ég drattaðist af stað og eftir fyrsta tímann fann ég að mér leið betur.  Þetta var erfitt skref að stíga fyrir konu í yfirvigt sem skammaðist sín fyrir eigið útlit,“ segir hún.  Kolbrún tók tvö TT námskeið og léttist um 28 kíló. Hún lét ekki þar við sitja og hélt áfram í opna kerfinu hjá JSB og náði af sér 12 kílóum til viðbótar en það sem var dýrmætara, var hún fékk heilsuna aftur. „Heilsan er númer eitt tvö og þrjú. Maður hefur ekkert ef maður missir hana,“  segir hún.

Kolbrún sem í dag býr á Suðurnesjunum mætir þrisvar í viku hjá JSB. „Eftir að ég hætti í TT fór ég í opna kerfið.  Um þessar mundir mæti ég í hádeginu mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. Kerfið er þannig hjá JSB að hver tími er 30 mínútur og maður getur valið hvort maður tekur einn, tvo eða þrjá tíma í röð. Ég tek þrjá tíma þá daga sem ég mæti,“ segir hún. Kolbrún segir að henni finnist gaman að koma í tíma hún hafi kynnst mörgum ágætis konum í ræktinni og með þeim tekist vinátta. „Með tímanum kynnist maður vel þeim sem mæta á sama tíma og maður sjálfur. Það er líka ákveðið aðhald fólgið í því að maður er spurður af hverju maður hafi ekki mætt, ef maður missir úr tíma.“ Hún segir líka að tímarnir séu fjölbreyttir svo maður fái ekki leið á að mæta. Það eru mismunandi kennarar á þeim dögum sem ég mæti og það eykur enn á fjölbreytileikann.“

Fyrsti dagurinn í TT hjá JSB.

Kolbrún segir að mataræðið skipti mjög miklu máli ef maður ætli að halda sér í kjörþyngd, það sé ekki nóg að vera bara í líkamsrækt. „Ég er fljót að bæta á mig og ég rokka upp og niður um eitt til tvö kíló. Ég á jakka sem ég held upp á og máta hann reglulega. Ef mér finnst að hann sé aðeins farinn að þrengjast þá segi ég hingað og ekki lengra. Þetta verður smátt og smátt  lífsstíll og maður lærir að borða og njóta matar upp á nýtt. Hún haldi eina reglu í heiðri og það sé að fá sér aldrei tvisvar á diskinn. Hún segir að það sé ýmislegt sem hún borði núna með góðri lyst, sem hafi ekki verið í miklu uppáhaldi hjá henni hér áður. „Sem dæmi er ég búin að skipta brauði út fyrir hrökkbrauð, nota kotasælu sem álegg og borða avocado. Í dag finnst mér þungur matur fara illa í mig. Mér líður hreinlega illa af honum. Það er eins og líkaminn sé að segja að hann kæri sig ekki um þetta.“ Kolbrún segir að það fari í taugarnar á henni þegar fólk sé að benda henni á að hún eigi ekki að grenna sig meira. „þú mátt ekki missa meira þá verður þú svo tekin í framan,“ eru komment sem maður fær. Mér finnst að fólki komi þetta ekki við. Það fer líka í taugarnar á mér þegar fólk er að segja manni að borða meira þá fær maður kommentið „Þú ert svo nett að þú mátt alveg við því að fá þér meira. Svo er allt þetta selskapsát. Manni ber engin skylda til að taka þátt í því, til dæmis þegar einhver er að koma með afganga og kökur í vinnuna.“  Kolbrún segir að hún borði það sem hana langi í í veislum. „Ég fæ mér bara minna, sker þunnar sneiðar af tertunum. En ég smakka á því sem mig langar og nýt þess.“

Kolbrún vinnur við ræstingar hjá Eflingu en hefur verið í sjúkraleyfi um tíma vegna slitgigtar. „Ég spurði sjúkraþjálfarann minn hvort það gæti verið að ég væri svona slæm af

Nýleg mynd af Kolbrúnu.

slitgigtinni vegna þess að ég hefði verið svo mikið í ræktinni. Hún  sagði svo ekki vera. Þvert á mót væri ég líklega enn verri ef ég væri kyrrsetumanneskja.“  Hún segir að líkamsræktin sé ekkert sérstakt áhugamál hjá henni. Hún mæti bara þrisvar í viku og hugsi svo ekki meira um það þess á milli. Kolbrún er orðin amma og barnabörnin eru orðin sex, í vor bættist svo langömmustrákur í hópinn. „Mér finnst gaman að vera með barnabörnunum. Svo er ég forfallin blómakona,“ segir hún og bætir við að hún hafi alveg einstaklega gaman að því að rækta blóm. Við áttum líka kött en hann dó úr krabbameini og ég er að hugsa um að fá mér annan í hans stað.“

Kolbrún stendur á tímamótum þessa dagana. Hún er ekki viss um að heilsan leyfi að hún snúi til baka í gömlu vinnuna sína en segir að hana langi ekki hætta að vinna. En sennilega þurfi hún að reyna að finna sér einhverja léttari vinnu en þrifin. „Ég er ekki þessi dæmigerða átt til fimm týpa. Ég er miklu frekar verkefnatýpa. Ef mér er trúað fyrir einhverju verkefni leysi ég það fullkomlega. Ég hef ótrúlega gaman að allri hönnun. Ég er ein af þeim sem er alltaf að hanna eitthvað í huganum og búa til hluti. Ég er mikil litamanneskja og finnst gaman að raða saman litum.  Mig dreymir um að fara að vinna í gler, ég hef aðeins prófað það og fannst það eiga vel við mig,“ segir hún að lokum.

Ritstjórn desember 14, 2018 08:44