Hver vill læra að skrifa til að lifa?

Meðal áhugaverðra námskeiða sem Endurmenntun Háskóla Íslands býður upp á þetta misserið er námskeiðið „Að skrifa til að lifa“, sem Ólöf Sverrisdóttir leikkona og „ritlistarkona“ eins og hún titlar sig, kennir.

Í kynningu segir að á námskeiðinu séu skapandi skrif notuð sem „verkfæri til betra lífs“. Þátttakendur skrifa um eigið líf, drauma og væntingar „með það að markmiði að láta minningar og atburði úr fortíðinni öðlast annarskonar og jákvæðari merkingu.“

Unnið með góðar og slæmar minningar

Ólöf Sverrisdóttir

Á námskeiðinu er unnið með atburði úr eigin lífi, drauma og ómeðvitað hugsanamunstur. Þátttakendur skrifa um góðar og slæmar minningar, fara í ferðalag um undirmeðvitundina með æfingum sem „slökkva á rödd skynseminnar en styrkja rödd hjartans og innsæisins“.

Námskeiðið, sem vegna aðstæðna er að þessu sinni kennt í fjarkennslu, fer fram fimm þriðjudagskvöld í röð og hefst 25. janúar. Það samanstendur af skriflegum æfingum, heimavinnu og hugleiðslu. Námskeiðið er sagt ætlað fyrir alla sem langar að skrifa um eigin reynslu en einnig þá sem vilja nota skrif til að „auka vellíðan og innsæi“.

„Losna úr neti sársaukans“

„Með því að skrifa um erfiða reynslu eða atburði sem sitja fastir innra með okkur er hægt að öðlast nýja sýn á lífið og losna úr neti sársaukans. Þannig fara þátttakendur að sjá líf sitt frá öðru sjónarhorni og öðlast fjarlægð frá atburðum sem hafa litað líf þeirra,“ segir kennari námskeiðsins, Ólöf Sverrisdóttir, um markmiðin með því. Hún segir þetta vera í fimmta eða sjötta sinn sem hún kenni þetta námskeið í Endurmenntun HÍ, og hún hafi jafnframt allnokkrum sinnum kennt svipuð námskeið annars staðar. „Mér finnst vera heilmiklir töfrar í þessu, þegar fólk byrjar að opna sig og fer að koma t.d. dramatískum minningum í orð,“ segir hún í samtali við blaðamann Lifðu núna.

Ólöf segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem námskeiðið sé kennt í fjarkennslu, og það hafi tekist merkilega vel að skapa hópstemningu meðal þátttakenda í síðasta fjarnámskeiði. Óneitanlega sé þó nándin meiri þegar fólk hittist í eigin persónu í staðkennslu.

Ólöf er leikkona með MA-próf í Theater Practice. Hún hefur kennt á námskeiðum í leiklist, ritlist og sagnalist. Ólöf hefur skrifað eina barnabók og nokkur leikrit og lauk sjálf nýlega meistaranámi í ritlist í HÍ. Hjá Endurmenntun HÍ kennir hún einnig námskeið í skapandi skrifum, auk þessa námskeiðs sem hér hefur verið lýst.

Ritstjórn janúar 20, 2022 07:00