Tengdar greinar

Lífið á Barnaspítalanum – BARN Í HÆTTU

Hólmfríður Ben Benediktsdóttir er Hringskona og starfaði um tíma á Barnaspítala Hringsins. Hómfríður er grafískur hönnuður en hefur töluverð kynni af Barnaspítalanum þar sem hún þurfti sem barn að njóta þeirrar góðu þjónustu sem þar er veitt. Hér segir hún hlægilega sögu af kynnum sínum af læknastörfum.

Frammi á gangi spítalans, á pallinum framan við lyfturnar, var stórt rúm og í því lá lítill sjúklingur. Ekki í þeim skilningi að lítið væri að sjúklingnum því það vissi ég ekki fyrirfram. Ég gekk nær og kíkti ofan í rúmið. Undir skjannahvítri sænginni lá stelpuskott, höfuðið eitt stóð undan sænginni, fölt andlit á jafn litlausum kodda. Stelpan var dökkhærð með sítt hár.

Erindi mitt var niður á neðri hæðina en þar sem enginn annar var þarna á ganginum, og ég komin með nefið niður í sjúkrarúmið, kunni ég ekki við annað en að ávarpa sjúklinginn. Ég kynnti mig með hefðbundnum hætti og spurði hvernig henni liði. Ósköp mjó rödd svaraði, sagði að sér væri alltof heitt. Ég stakk höndunum innundir sængina til fóta og færði hana uppfyrir rimlahliðar rúmsins svo það loftaði undir sængina. Við þetta fann ég að stelpan var í sokkum. Spurði þá hvort ég ætti ekki að færa hana úr sokkunum, það vildi hún og sagði að þá um morguninn hefði hún ætlað framúr og þess vegna farið í sokkana, svo varð henni flökurt og þurfti að leggjast aftur í rúmið. -Ó já, það kemur oft fyrir svona stuttu eftir aðgerð, svaraði ég, þá búin að reikna út að þetta væri stelpan sem fór í botnlangauppskurð kvöldinu áður. Ég tók sokkana af fótum stelpunnar, braut þá saman og stakk í hornið á rúminu. Stelpan var ögn hressari í bragði svo ég kvaddi og hélt mína leið niður á neðri hæðina. Stuttu seinna þurfti ég að skjótast upp aftur og þá var stelpan ennþá ein á ganginum. Þegar ég ætlaði að skjótast framhjá varð mér litið á hana og fannst hún óttalega umkomulaus svo ég spurði hana hressilega hvort hana langaði ekki að gera eitthvað. Mjóróma svaraði hún að hún ætlaði að fara að gubba. Innbyggða viðvörunarkerfið fór í gang og ég stökk til, inn um næstu dyr sem var leikstofan og gaf skipanir á báða bóga. Rúmfastur sjúklingur að fara að gubba. Fóstrurnar tvær kipptu með sér nýrnabökkum og pappírsþurrkum og ruku fram til sjúklingsins en ég þaut inn á barnadeild og lét starfsfólkið á vaktinni vita hvaða ástand var frammi á gangi. Hjúkka og sjúkraliði bættust í hópinn sem stumraði í kringum sjúklinginn. Það er ekkert grín að vera rúmfastur, liggjandi á bakinu og þurfa að gubba svo við kepptumst við að raða nýrnabökkum og þurrkum kringum andlit stelpunnar á meðan hjúkkan reisti höfuð hennar varlega frá koddanum. Stelpan var orðinn ennþá hvítari ef eitthvað var og starði skelfingu lostin á okkur. Loksins stundi hún upp: -„Ég ætla bara að fara að kubba.“ Alveg er ég viss um að þessum sjúklingi hurfu allir verkir og vanlíðan vegna nýafstaðinnar skurðaðgerðar, svo hissa varð hún á hjúkrunarfólkinu sem stóð vart í lappirnar fyrir hlátri. Seint og um síðir fékk hún legókubbana og ég sinnti bara mínu hlutverki það sem eftir lifði þessa vinnudags og lét þá litlu alveg í friði.

 

Ritstjórn febrúar 5, 2018 10:33