Tengdar greinar

Lífsgleðin arfgeng en umhverfið hefur líka áhrif

Flestir þekkja fólk sem er alltaf ánægt og bjartsýnt. Það er stutt í brosið hjá þessu fólki og það er yfirleitt ánægt. Aðrir hafa tilhneigingu til að burðast með stöðugar áhyggjur, horfa mest á það sem er neikvætt og sakna þess helst sem það hefur ekki og getur ekki fengið.

Áhrif erfða og umhverfis

Það er engu líkara en sumir séu hamingjusamari en aðrir og hafi meiri hæfileika til að líta á björtu hiðar lífsins. Norsk rannsókn, sem gerð var við Háskólann í Osló, sýnir að þarna geta erfðir skipt máli. Gert var ráð fyrir því í rannsókninni að flestir óski þess að eiga langt og gott líf og skoðað var hvaða áhrif erfðir og umhverfi  hafa á lífsgleði fólks. Frá þessu er greint á vefnum Vi over 60.

Niðurstöðurnar sýna að um 30%  lífsgleðinnar skýrast af erfðum, en umhverfið hefur 70% áhrif. Þeir sem gerðu rannsóknina segja að ákveðnir persónulegir eiginleikar, svo sem  félagslyndi og taugaveiklun, hafi skipt máli varðandi það hversu ánægðir menn voru með lífið.

Ræna fólk lífsgleðinni

Þeir þættir sem höfðu mest áhrif á ánægjuna, var hversu virkt fólk var félagslega og hvort það var jákvætt í hugsun eða hvort það þjáðist af kvíða og þunglyndi. Fyrstu tvö atriðin stuðluðu að því að fólk upplifði sig hamingjusamt, á meðan því var öfugt farið með síðari tvö atriðin, sem rændu fólk lífsgleðinni.

Það þótti áhugavert við rannsóknina að þessir fjórir þættir höfðu svona mikil áhrif, á meðan aðrir þættir svo sem félagsfærni, hlýja, tillitssemi, fjandskapur, skipulagsfærni og viðkvæmni virtust ekki skipta neinu máli til eða frá um það hversu ánægt fólk var með lífið.

Það sýndi sig að mestur hluti erfðanna, eða 2/3 af  þeim 30%  sem gerðu að verkum að fólk var ánægt með lífið, snerust um genin sem skapa persónuleikann. Þannig er hægt að slá því nokkuð föstu að ánægja fólks með lífið skýrist að 20% af því,  hvernig persónur það er, 10% skýrast af öðrum erfðum en 70% af umhverfinu sem fólkið hrærðist í.

Niðurstaðan er ekki sögð koma á óvart. Það sé margt sem hafi áhrif á lífshamingju fólks og persónuleikinn sé þar hluti af stærri og flóknari mynd.

Hvað er hamingja?

Það er síðan misjafnt hvað fólk telur gott og hamingjusamt líf. Það er þó sitthvað sem félagsvísindamenn í Noregi telja samnefnara fyrir það sem menn telja mikilvægt í lífinu. Þar á meðal er sú tilfinning að vera ánægður, upplifa hamingjustundir, finnast lífið hafa tilgang, upplifa jákvæðar tilfinningar og gott samband við fólk, auk möguleika á að þroskast og nýta reynslu sína og krafta. Það er jafnvel hægt að upplifa að lífið hafi tilgang, þegar á móti blæs.

Eru sterkir og hafa aðlögunarhæfileika

Þá kemur fram í greininni að Noregur skorar hátt á alþjóðavísu þegar spurt er um ánægju með lífið. Þeir tróna þar næstum á toppnum og eru almennt ánægðari með lífið en flestir aðrir. Á bilinu frá 0 og uppí 10, mælist ánægja þeirra uppá 7,5.

En þó Norðmenn séu að meðaltali mjög ánægiðr með lífið, gildir það ekki um alla þjóðina. Sumir eru hæst gánægðir, á meðan aðrir eru óánægðir. Flestir upplifa tímabil sem eru erfið og krefjandi. Þar sem áhyggjur, depurð og kvíði eru meira áberandi en hamingja og ánægja. En það sýnir sig að þeir komast aftur í gang eftir neikvæða upplifun og kreppu. Þeir eru sterkir og  hafa mikla aðlögunarhæfni.

Að taka málin í eigin hendur

Það er fljótgert að draga þá álytun, að ef menn eru neikvæðir frá náttúrunnar hendi, séu þeir dæmdir til að verða óhamingjusamir. Það sé ekkert við því að gera. En sem betur fer er það ekki þannig, segir í greininni. Það er allaf hægt að gera eitthvað í málunum og hér fyrir neðan eru nokkur atriði sem geta stuðlað að ánægjulegra lífi.

  • Kynnstu fólki, sýndu þakklæti og vertu óhræddur við að tengjast öðrum.
  • Vertu athugull. Taktu eftir litlu hlutunum. Lærðu að lifa í núinu og hugleiða. Ekki vera á stöðugum þönum, reyndu að vera til staðar hér og nú.
  • Vertu virkur. Það er mikilvægt að hreyfa sig, aleinn eða í hópi með öðrum. Gerðu eitthvað nýtt, eða haltu áfram að gera það sem gefur þér orku. Haltu áfram að læra og vera forvitinn. Skoðaðu heiminn og lærðu eitthvað nýtt.
  • Gefðu af þér. Það veitir mikla gleði að leggja eitthvað af mörkum til annarra og það er smitandi!

 

Ritstjórn janúar 31, 2023 07:00