Lína Rut Wilberg, listamaður og baráttukona – nagli sem gefst ekki upp

Lina Rut með drengina sína tvo, Nóa og Má Gunnarssyni og hundinn þeirra Ljúf.

Lína Rut Wilberg er þekkt fyrir ýmislegt. Margir muna eftir henni frá því hún var ung í fyrirsætustörfum enda konan undurfögur. Hún vildi aldrei taka þátt í fegurðarsamkeppnum því hún vildi ekki bögglast með einhvern fegurðardísartitil á bakinu út lífið. ,,Svo eigum við ekki að þurfa stimpil frá misvitru fólki um hvort við séum falleg eða ekki,“ segir hún.  Síðan eru liðin mörg ár en Lína Rut er fædd 1966

og er því 56 ára gömul og merkilegt nokk er enn verið að biðja hana um að sitja fyrir. Það þykir henni jákvætt merki því sem betur fer hafi tískuheimurinn loks áttað sig á að betra er að hafa alla aldurshópa í auglýsingum sínum því kaupendur eru jú í þeim öllum.

Lína Rut á fjögur börn, tvær dætur af fyrra hjónabandi, Ísold Wilberg og Kamillu Wilberg, og tvo syni af síðara hjónabandi, Má Gunnarsson sem er blindur og Nóa Gunnarsson sem er einhverfur.

Systkinin Már og Ísold sungu saman í Eurovision og lentu í þriðja sæti.

Íslendingar vita nú flestir hver Már er í gegnum tónlist hans fyrir utan afrek hans í sundíþróttinni. Már og Ísold, systir hans, komu fram í Eurovision keppninni síðast með lagið ,,Don´t you know“ svo ógleymanlega og lentu í þriðja sæti.

Lína Rut segir frá því að í föðurætt hennar sé ættgengur sjúkdómur sem valdi lögblindu. Þegar Már fæddist hafi þess vegna verið horft til þess þegar hann var skoðaður af læknum hér á landi. En þegar þau fluttu til Kaupmannahafnar var Már tveggja ára og þar fengu þau betri rannsóknir og þá hafi komið í ljós að um var að ræða annan augnsjúkdóm, ekki óskyldan þeim sem er í ætt Línu Rutar, nema sá sjúkdómur veldur algerri blindu. ,,Lengi vel vonuðum við að íslensku læknarnir, sem skoðuðu hann fyrst, hefðu haft rétt fyrir sér en nú vitum við að svo er ekki,“ segir Lína Rut.

Már  sagði frá því í fjölmiðlum fyrir skömmu að hann væri samkynhneigður og þess vegna tók Lína Rut sérstaklega eftir orðræðunni í kringum nýlega Gay pride hátíð sem hún segir hafa verið viðbjóðsleg og fordómafull. ,,Ég kannaði að gamni mínu hverjir töluðu fjálglegast og í i ljós kom að þeir áttu flestir það sameiginlegt að vera menn frá miðjum aldri, bitrir og forljótir karlmenn. Það er í alvöru enn til fólk á Íslandi sem skilur ekki samkynhneigð. Hvað er að? Nú er árið 2022 og enn er til fólk  sem hefur þörf fyrir að drulla yfir minnihlutahópa. Nú ætla ég að leggjast á sama lága planið og segja hvað ég hugsa þegar ég les kommentin þeirra: No 1. Þeir eru sjálfir ,,gay“ en þora ekki að koma út úr skápnum. No 2. Þessir menn eru ljótir að innan sem utan og hafa efaust aldrei fengið almennilegan drátt. Það hljóta að vera ömurleg örlög og því kannski skiljanlegt að þeir séu svona reiðir og bitrir út í lífið greyin.“

Menntun fatlaðra

,,Þessi mynd lýsir betur en nokkur orð hugmyndinni um ,,skóla án aðgreiningar“ segir Lína Rut en kennarinn segir: ,,Til þess að útkoman verði sanngjörn verða allir að taka sama prófið og ég vil biðja alla um að klifra upp á topp á þesu tré.“

 ,,Menntun barna með fötlun og sérþarfir er í algerum ólestri á Íslandi,“ segir Lína Rut. ,,Skóli án aðgreiningar“ virkar ekki sem skyldi og er þar að auki fjársveltur og sérnámsdeildir í menntaskólum eru með mjög takmarkað pláss. Eftir menntaskóla er ekkert sem tekur við nema Háskóli Íslands sem tekur þessa krakka inn á eina braut á tveggja ára fresti en bara í það nám sem þeir eru búnir að ákveða að henti þessum hópum. Það er engu líkara en að ráðamenn skilji ekki að börn með fötlun eða skerðingar er jafn fjölbreyttur hópur og við hin. Þess vegna er algerlega ótrúlegt að deild sem var sett á laggirnar í Myndlistaskóla Reykjavíkur, þar sem boðið var upp á tveggja til þriggja ára nám fyrir þennan hóp, hafi verið lögð niður. Nú er Þroskahjálp, www.throskahjalp.is, að safna undirskriftum þar sem skorað er á stjórnvöld og Samtök atvinnulílfsins að tryggja fötluðu fólki jöfn tækifæri til náms og fjölbreyttra starfa í samstarfi við félagasamtökin Góðvild. Mig langar núna til að nota tækifærið og biðla til allra að fara inn á síður þessara samtaka og skrifa undir. Samstaðan er svo mikilvæg. Hvað er að íslenskum stórnmálamönnum? Hysjið upp um ykkur brækurnar og drullist til að laga ástandið í eitt skipti fyrir öll,“ segir Lína Rut.

Sýning með Nóa

Verk þar sem Lína Rut tekur fígúrur Nóa, blandar sinni list og stílfærir.

,,Fyrir u.þ.b. sjö árum tók ég þátt í List án landamæra í Duus húsi í Reykjanesbæ og þar

byrjaði samvinna okkar Nóa. Ég tók fígúrurnar hans og blandaði mínum. Mig langaði að halda áfram að vinna með fígúrur Nóa en á annan hátt en það tók mig 6 ár að finna lausnina og er nú komin á bólakaf í þá vinnu. Svo nú er ég að undirbúa sýningu með þessum verkum okkar Nóa,“ segir Lína Rut og er augljóslega ánægð með samvinnu þeirra mæðgina.

Baráttan fyrir réttindum þeirra

Teikning eftir Nóa.

Reynsla Línu Rutar með báða drengina sína er þannig að hún veltir fyrir sér af hverju ráðamenn þjóðarinnar séu svona áhugalausir um velferð þessara barna og fjölskyldna þeirra. Hún hefur reynslu bæði frá  Danmörku og Lúxembourg og segir að þjónusta við þennan hóp sé verulega ábótavant hér á landi. ,,Ég held reyndar að kerfið á Íslandi virki nokkuð vel fyrir mikið fatlaða einstaklinga, t.d. þá sem eru mikið rúmliggjandi en svo virðumst við bara vera ljósárum á eftir hinum Norðurlöndunum varðandi aðra þjónustu. Maður sér endalaus viðtöl við foreldra sem eru að sligast undan baráttunni við kerfið. Það er kvartað yfir að öryrkjum fjölgi óvenju mikið á Íslandi en ráðamenn virðast ekki sjá samhengið og líta ekki í eigin barm því hátt hlutfall foreldra fatlaðra barna hér á landi verða öryrkjar af álagi. Mín skoðun er sú að uppeldi barns sé eitt það mikilvægasta og mest krefjandi verkefni sem við tökumst á við í lífinu. Að berjast við kerfið dregur allan mátt úr fólki sem er sorglegt því þá er oft lítil orka eftir til að sinna börnunum. Það hlýtur að vera

Nói við verk sem Lína Rut gerði á húsvegg og notaði að hluta teikningar sem Nói gerði þegar hann var lítill. 
,,Verkið heitir Vegferð, því þetta er vegferðin okkar Nóa. Verkið er staðsett á Tjarnargötu 2, á bakhlið verslunarinnar Bústoð,“ segir Lína Rut.

hagur samfélagsins að foreldrar geti komið börnum sínum vel á legg. Það er eitthvað mera en lítið að  kerfinu hér á landi,“ segir Lína Rut. ,,Ég fullyrði að við gætum gert eins vel og löndin sem við berum okkur saman við. Þetta er ekki spurning um peninga eða fámenni, þetta er spurning um forgangsröðum,“ segir Lína Rut ákveðin.

Flúðu land

,,Þegar Már byrjaði í sex ára bekk áttaði ég mig fljótlega á að ,,skóli án aðgreiningar“ er alls ekki fyrir alla. Blindur sonur minn fékk ekki þá þjónustu sem hann þurfti en við vorum svo heppin að fyrrverandi maðurinn minn og faðir Más var flugmaður og fékk vinnu hjá Icelandair í Liege í Belgíu. Þá var tilvalið að flytja til Lúxembourgar sem var mikið happaskref fyrir fjölskylduna og þar bjuggum við i 6 ár. Þar fékk Már frábæra þjónustu sem var alger bylting fyrir hann. Í fyrsta tíma hjá lækni þar var okkur gerð grein fyrir hvaða aðstoð við ættum rétt á. Hér heima hitti ég konu fyrir tilviljun úti á götu sem sagði mér að við ættum rétt á aðstoð með Má en þá höfðum við velkst um í kerfinu í tvö ár en enginn hafði sagt okkur neitt um rétt okkar.

Vildi geta sinnt börnunum sínum betur og flutti til Keflavíkur

Nýleg mynd af Línu Rut.

Lína Rut og fjölskylda hennar fluttu til Keflavíkur sem hún segir að hafi verið fyrst og fremst til að geta sinnt börnunum betur. ,,Ég græddi hiklaust tvo tíma á dag við að flytja í minna samfélag,“ segir hún. ,,Ég hvet fólk til að skoða þann möguleika. Ég gat einfaldað lífið mikið, allar vegalengdir voru styttri og ég gat loksins keypt mér vinnustofu því húsnæði var mun ódýrara þar en í borginni.“

Alin upp á Ísafirði og Húsavík

Lína Rut er fædd á Ísafirði en norsk langamma hennar sendi son sinn frá Noregi til Íslands í stríðinu til að forða honum frá nasistum og

Línu Rut á námsárunum í MHÍ.

því má segja að hann hafi verið flóttamaður. Hann kom á land á Ísafirði, hitti þar ömmu Línu Rutar, Lóu Konn og þau stofnuðu fjölskyldu. Lína Rut er fædd á Ísafirði en fluttist til Húsavíkur með móður sinni og stjúpföður og þaðan til Reyikjavíkur 9 ára gömul. Norskur faðir hennar bjó alla tíð í Noregi og samband þeirra var lítið.

Heillaðist af listinni í París

Lína Rut fór ung í listförðunarnám til Parísar í eitt ár og segist hafa séð  það sem leið til að vera skapandi og leika sér með liti. Hún segir að þar sem hún hafi verið peningalítil á þessum tíma hafi hún frekar farið fótgangandi í skólann, klukkutíma hvora leið, en eyða peningunum í lestarmiða. ,,Í þeim gönguferðum rakst ég á fjölda gallería og þar kviknaði áhugi  minn á myndlist fyrir alvöru,“ segir Lína Rut. ,,Áður hafði ég aldrei hugsað um sjálfa mig sem listamann. Ég er sjálf mikill einfari og tikka í öll boxin sem ,,innhverfur“ einstaklingur, þ.e.a.s. innhverfur einstaklingur með lærða hegðun. Þess vegna hentar myndlistin mér vel.“ segir Lína Rut.

Formlegt nám

Ein af teikningum sem Lína Rut gerði þegar hún sótti um í MHI.

Lína Rut fór síðar í Myndlista- og handíðaskólann og útskrifaðist úr málaradeild 1994. Hún fékk inngöngu í MHÍ í fyrstu tilraun þrátt fyrir ekkert formlegt nám í myndlist fyrir. Talnablinda hafði háð henni allt hennar líf svo hún lauk ekki stúdentspróf þrátt fyrir að eiga auðvelt með nám að öðru leyti. Hún fékk hæstu einkunn af þeim sem sóttu um í MHÍ svo hæfileikar hennar þóttu greinilega vega prófleysið upp. Henni var veitt undanþága svo hún komst inn og Lína Rut er óendanlega þakklát víðsýni þeirra sem réðu því en síðan eru liðin rúm 30 ár. Lína Rut nefnir þetta af því henni þykir ótækt ef atriði eins og léleg einkunn í stærðfræði myndi hefta fólk í að elta drauminn sinn um að verða listamaður.

Þegar Lína Rut hafði lokið MHÍ fór hún til Flórens á Ítalíu á námskeið í meðferð pappamassa. Það gerði hún í þeim tilgangi að geta búið til fylgihluti fyrir förðunarmyndatökur en á þeim tíma hafði hún nýlega opnað fyrsta förðunarskólann á Íslandi. ,,Síðan hætti ég algjörlega i förðunargeiranum og nýtti því ekki þessa tækni i mörg ár eða þar til eg eignaðist Má. Hann gat ekki séð málverkin mín og því byrjaði ég að búa til skúlptúra úr pappamassa sem hann gat þreifað á. Með því vildi ég að hann fengi að upplifa betur minn ævintýraheim. Þegar ég svo kynntist Blindrafélaginu og heimi blindra á Íslandi þá áttaði ég mig á að þeir fengu ekki nægt fjármagn í starfsemi sína. Blindrafélagið fékk til dæmis X fjárhæð árlega fyrir blindrahundi sem

dugði fyrir hálfum hundi. Það er auðvitað alveg galið því blindrahundar eru jafn  nauðsynleg hjálpartæki fyrir blinda og hjólastóll er fyrir lamaða. Áhugavert er að bera saman að í Svíþjóð er gerð áætlun 7 ár fram í tímann varðandi

Blind kríli sem Lína Rut gerir til styrktar blindum og sjónskertum og selur meðal annars í Blindrafélaginu.

þjálfun blindrahunda á meðan á Íslandi er áætlunin þrjá mánuði fram í tímann. ,,Mig langaði til að leggja mitt af mörkum til að aðstoða og bjó því til ,,Blind Kríli” sem eru seld meðal annars í Blindrafélaginu,“ segir Lína Rut.

Fyrirsætustörfin komu aftur til

,,Þegar ég var ung átti ég frekar von á dauða mínum en fá tilboð um modelstörf 57 ára gömul. Þótt fegurðin geti fölnað þegar aldurinn færist yfir eigum við að halda reisn og láta engan sannfæra okkur um að við séum annað en frábær eins og við erum,“ segir Lína Rut og er söm við sig. ,,Það er fyndið að þessi möguleiki sé nú að opnast aftur fyrir mig,“ segir hún og hlær. ,,Ég hafði engan tíma fyrir þetta þegar ég var ung og ekki heldur núna. En lífið hefur kennt mér að maður ætti aldrei að segja aldrei.“

Ekkert betra en Ísland á sumrin

,,Það er að vísu ekkert betra en Ísland á sumrin en ég vil eiga annað heimili úti og njóta þess besta úr báðum heimum.“

Már, Lína Rut og Nói í júlí sl. þegar Lina og Nói hittu Má í Lúxembourg.

Lína Rut fór með Nóa í ökuferð í sumar í þeim tilgangi að skoða staði þar sem hún gæti hugsað sér að dvelja hluta úr ári í framtíðinni. Þau fóru með Norrænu til Danmerkur og óku þaðan til Spánar um Frakkland og yfir til Ítalíu. Lína Rut var við nám bæði í Flórens og París þegar hún var ung svo hugur hennar leitar óneitanlega þangað sem álitlega kosti. Hún og Nói enduðu ferð sína í Lúxembourg þar sem þau hittu Má sem heldur enn miklu samandi við kennara sinn frá því þau bjuggu þar.

Lína Rut býr í gamla hluta Reykjanesbæjar en hún átti sér alltaf draum um að kaupa iðnaðarhúsnæði og gera upp. ,,Iðnaðarhúsnæði í Reykjavík var alltaf í svo óhrjálegum hverfum og þar var ekki gott að vera með börn. Hér fann ég einmitt það sem mig langaði í sem var gömul prentsmiðja í dásamlegu hverfi. Ég segi að ég búi í 101 Keflavík,“ segir hún og hlær en húsið er í miðbæ Reykjanesbæjar, gamla hlutanum. ,,Nú er ég að fara að gera grafitilistaverk á vegg á því húsi en áður hef ég gert annað verk á húsvegg hér í bænum. Það verk er staðsett á Tjarnargötu 2, á bakhlið verslunarinnar Bústoð,“ segir Lína Rut.“ segir þessi kraftmikla kona sem lætur fátt stoppa sig og er á fljúgandi fart áfram veginn með list sína í farteskinu.

Hefur verið skapandi allt sitt líf og opnar nú ,,showroom“

Stúlkur með tár.

Lína Rut var mikið ein inni í herbergi sem barn að teikna og búa til sögur þegar aðrir krakkar voru úti að leika. Hún segir brosandi frá því að í dag hefðu foreldrar hennar eflaust sent hana í greiningu því þetta hafi verið mjög óvenjulegt. En nú, áratugum síðar, er Lína Rut sannarlega listamaður, málar málverk, býr til skúlptúra  og hefur gefið út þrjár barnabækur. Langamma Línu Rutar í föðurætt var norskur rithöfundur með listamannsnafnið Anitra en hún var mest lesni kvenrithöfundur í Noregi á sínum tíma. Um þessar mundir er Lína Rut að opna sýningaraðstöðu og litla vinnustofu við Hverfisgötu 108 í Reykjavík þar sem fólk getur fylgst með því sem þessi kraftmikla listakona er að gera. Þetta segir Lína Rut að sé svokallað ,,showroom“ eins og víða þekkist erlendis. Áhugasamir geta mælt sér mót við Línu Rut en hún er bæði á Instagram og Facebook. Og svo er hún að undirbúa sig fyrir Ljósanótt sem verður fyrstu helgina í september. Í undirbúningi er líka sýning á verkum hennar í Gallerí Fold sem opnar á Menningarnótt eftir ár.

,,Sjáumst“

Már er svo á leiðinni til London í frekara tónlistarnám þar sem hann mun dvelja næstu þrjú til fjögur árin.

Af því tilefni ætlar hann að halda tónleika sem hann nefnir ,,Sjáumst“. Fyrri tónleikarnir verða á Sjálandi í Garðabæ 25. ágúst og aðrir 1. september í Stapa í Reykjanesbæ. Nánari upplýsingar eru á Tix.is

Lína Rut hefur lifðað viðburðaríku lífi og nýtir allt sem hún hefur upplifað í listsköpun sína, af nógu er að taka. Hún heldur ótrauð áfram og vill að lífið sé ævintýri.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn ágúst 19, 2022 07:00