Lísa Pálsdóttir hefur alltaf búið í leiguíbúðum 

Lísa Pálsdóttir.

Rödd Lísu Pálsdóttur er útvarpshlustendum að góðu kunn því hún hefur lengi verið með þætti á Rás 1 en er nú sárt saknað. Hún verður sjötug í desember næstkomandi og ætlaði að merja það að vera út árið á Rásinni. Þá hefði hún fyllt 35 ár á sama vinnustað, 17 ár á Rás 2 og 17 á á Rás 1. Þáttur hennar, Flakk, þar sem hún hefur fjallað um byggingarsögu Reykjavíkur, fór fyrst í loftið 2006 og Lísa hefur komið víða við síðan með skemmtilegum og áhugaverðum umfjöllunum sínum. Hún segir að ekki veiti af að veita byggingaþrónun aðhald í íslensku samfélagi og hefur haft gaman af að leggja sitt af mörkum í þeirri baráttu. Lísu þótti 35 ár á sama vinnustað svolítið flott tala en síðastliðið haust fann hún að það var komið nóg og er létt að þurfa ekki að standa við ,,deadline- pressuna“ reglulega.

Lísa er menntuð leikkona og hefur starfað við eitthvað leikhústengt með fram fjölmiðlastörfum alla tíð. Hún flutti til Danmerkur skömmu eftir útskrift úr leiklistarskólanum 1977 og bjó þar til 1985 ásamt eiginmanni sínum Björgúlfi Egilssyni. Hún lék með norrænum  götuleikhúshópi, Kraka, og síðan voru þau hjónin í fjöllistahópnum Kamarorghestum.

Leigumarkaðurinn erfiður

,,Tíminn í aðdraganda þess að ég hætti að vinna hafði verið svolítið erfiður hjá mér því það var ekki ljóst að ég fengi íbúðina, sem ég sótti um, úthlutaða. Ég var orðin svolítið þreytt, flutningurinn hafði staðið til lengi og ástandið var lýjandi. Leiga eins og þessi sem ég var að ganga inni í er tekjutengd því maður má ekki vera með mjög háar tekjur. Þetta fyrirkomulag er byggt upp á sama hátt og Bjarg með stofnframlagi og reynt verður að halda leigunni hagkvæmri. Ef horft er á skattskýrslu mína 2021 voru tekjur mínar of háar en nú er staðan allt önnur því ég er komin á eftirlaun. Það endaði með því að tekið var tillit til þess og ég var samþykkt inn en þetta olli töluverðri spennu hjá mér.“

Íbúðin sem Lísa er að flytja í er við götu sem nefnist Vatnsholt og er austan megin við gamla Stýrimannaskólann sem nú er Tækniskólinn.

Leigufélagið heitir ,,Leigufélag aldraðra“ og framkvæmdaaðilinn að byggingunni er Vildarhús. ,,Þeir fengu leyfi til að byggja fjórar litlar þriggja hæða blokkir og það mynduðust strax biðlistar því þetta fyrirkomulag hentar mjög mörgum,“ segir Lísa,. ,, Stór hópur hefur ákveðið að betra væri að selja stærri eign og hætta að sjá um stóran garð. Þá er hægt að verja peningunum öðruvísi, búa minna og njóta lífsins síðustu árin.“

Allt í kössum

Lísa hefur verið á leigumarkaðnum á Íslandi allt frá því hún kom til Íslands frá Danmörku eftir að hafa búið þar í landi í 8 ár. Þar kynntist hún því hvernig Danir haga málum

Lísa Pálsdóttir

og segir að það sé ekki fyrr en núna sem leigumarkaðurinn á Íslandi sé örlítið að þroskast. ,,Ástandið er samt því miður enn .þannig að leigumarkaðurinn á bara eftir að stækka vegna hærri stýrivaxta og færri geta keypt húsnæði. Í Danmörku kýs stór hópur fólks að vera á leigumarkaði og verja peningunum sínum í annað en húsnæði. Þar geturðu líka treyst því að geta verið í húsnæðinu þangað það til hentar þér að fara annað. Hér aftur á móti hefur viðhorf stjórnmálaaflanna verið að flestir fái arf eftir foreldra eða þeir nógu vel stæðir til að geta hjálpað þeim ungu. En það eru bara ekki allir í þessari stöðu og í hruninu lentu margir mjög illa í því og misstu íbúðirnar sínar. Bankarnir hirtu þessar íbúðir af þeim og leigðu einhverjum öðrum. Þetta er auðvitað ósanngjarnt en hrósa má því sem vel er gert því borgin hefur tekið ágæt skref varðandi lóðaúthlutun. Nú er gerð krafa um að 5-10% í hverri blokk, sem er byggð, séu  félagslegar íbúðir. Það er framfaraskref.“

Óhagnaðardrifið leigufélag

Nú hentar Lísu betur að fara inn í Vildarhús sem er óhagnaðardrifið leigufélag ætlað 60 ára og eldri. ,,Ég fékk litla 60 fm íbúð á jarðhæð og hef lítinn pall, opið eldhús og öllu mjög haganlega komið fyrir,“ segir Lísa og hlakkar mikið til að geta flutt inn. Hún segir að hennar aðstaða hafi verið þannig um ævina að hún hafi aldrei átt möguleika á að kaupa íbúð. ,,Við fengum aldrei stóran arf, eignuðumst þrjú yndisleg börn, þurftum að borga árið fyrir fram til að geta fest leiguíbúðir og þetta þýddi eilífa flutninga. Bjarg og verkalýðsfélögin, sem tóku þátt í betri þróun, hafa lyft grettistaki og hafa leiðrétt ástandið að hluta. Þeir hafa byggt fjöldann allan af íbúðum og lækkað leiguna tvisvar.“

Hefur flutt 30 sinnum um ævina

,,Fyrstu árin eftir að við komum heim frá Danmörku fluttum við á milli margra íbúða og það geta allir ímyndað sér hvað það gerir fyrir fjölskyldur. Seinna vorum við komin í íbúð í Vesturbænum sem hentað okkur vel og við gerðum sex ára samning við eigandann sem bjó erlendis. Þegar við höfðum verið þar í fjögur ár lést Björgólfur og skömmu síðar tilkynnti eigandinn mér að hún vildi selja íbúðina af því það hentaði henni. Einmitt á þeim tímapunkti hafði ég ekki orku að fara í stæla við hana þótt ég væri með samning í höndunum. Ég endaði því á að leita til Ölmu leigufélags og reynsla mín af þeim hefur bara verið góð þótt ég hafi borgað 230.000 krónur á mánuði fyrir 55 fm íbúð. Sú íbúð er í blokk sem var upphaflega byggð í verkamannaíbúðakerfinu en að leggja það kerfi niður var verulega skammsýnt. Við ættum 10-15 þúsund íbúðir inni í því kerfi núna ef það hefði ekki lagst af. Jóhanna Sigurðardóttir var framsýn og barðist með kjafti og klóm gegn því að þetta kerfi væri lagt niður en tapaði,“ segir Lísa.

Mikill léttir að geta verið á sama stað

,,Ég var auðvitað að borga háa leigu hjá Ölmu en hefði örugglega ekki fengið ódýrari íbúð hjá einkaaðila fyrir utan að það var ekki í boði. Og af því leigutakar þurfa að borga svo háa leigu vinna þeir meira til að hækka tekjur sínar. Það þýðir að þá fá þeir ekki húsaleigubætur því þær eru miðaðar við tekjur og þetta verður vítahringur. Einu sinni þurfti ég meira að segja að endurgreiða 150.000 til baka. Þá var mér allri lokið,“ segir Lísa. ,,Ég er núna að fara að borga 200.000 krónur fyrir 60 fm splunkunýja íbúð en það komast bara ekki allir að sem vilja og þurfa. Að öllum líkindum get ég verið á þessum nýja stað þangað til ég fer með hælana á undan mér út,“ segir Lísa og hlær og er mikið létt eftir að hafa flutt 30 sinnum á milli leiguíbúða um ævina.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 19, 2023 07:00