Tengdar greinar

Lögreglan beitti táragasi á nýársnótt

 

Reykvíkingar fögnuðu árinu 1963 með miklum látum og tilþrifum. Mikill mannfjöldi var í miðbænum og varð lögreglan á endanum að beita táragasi til að skakka leikinn.  Illugi Jökulsson rifjar þetta eftirminnilega áramótakvöld upp í bókinni Ísland í aldanna rás 1951-1975. Gefum Illuga orðið.

Reykvíkingar fögnuðu árinu 1963 með þvílíkum hamagangi að lögregla varð á endanum að beita táragasi til að dreifa mörg hundruð ungmennum sem létu ófriðlega kringum lögreglustöðina í miðbænum. Þrjár táragassprengjur voru sprengdar samtímis og síðan ruddust lögregluþjónar út með kylfur á lofti en ekki munu þeir hafa þurft að beita þeim.

Ölvun var líka mjög mikil og voru tugir manna teknir úr umferð, ýmist ósjálfbjarga eða með ofstopa og jafnvel ofbeldi. Unglingar allt niður í tólf ára voru þar á meðal. Þá þurfti lögreglan margoft að fara í heimahús til að skakka „leiki“ sem þar stóðu yfir.

Töluverð spjöll voru unnin á húsum í miðbænum, rúður brotnar og stöðumælar eyðilagðir. Loks urðu nokkrir fyrir meiðslum af kínverjum sem kastað var að fólki.

Það var ekki fyrr en undir miðnætti sem mannskapur fór að safnast fyrir í miðbænumen fram að því hafði fólk verið við brennur víða um borgina. Taldi lögreglan að brennurnar hefðu verið hvorki meira né minna en 100 en slíkt var raunar ekki einsdæmi í þá daga. Var það eitt helsta áhugamál barna og unglinga síðustu mánuði ársins að safna í brennur.

Ritstjórn desember 30, 2016 11:36