Tengdar greinar

„Lundin verður góð og maður hittir gott fólk“

Kristín með „flugfreyjutöskuna“

„Maður fær allan pakkann, segi ég alltaf,“ sagði Kristín Guðmundsdóttir, 96 ára, þegar hún var spurð hvað það væri sem sundið gæfi henni. Hún syndir þrisvar í viku í Ásgarðslaug í Garðabæ þar sem hún hefur stundað sund í 36 ár. Áður hafði hún árum saman synt í Kópavogslaug. „Ég vil meina að lundin verði svo góð og maður hittir svo mikið af góðu fólki. Við hópum okkur saman, tölum saman, hlæjum saman og það hefur meira að segja komið fyrir að við syngjum saman,“ segir hún hlæjandi við blaðamann Lifðu núna. Þegar Kristín mætir í laugina á morgnana er hún með allt sitt dót í lítilli „flugfreyjutösku“, sem er afar handhægt.

Gengu í gömlu sundlaugarnar

Kristín man eftir fyrstu sundferðinni. Þá bjuggu foreldrar hennar í Ási við Laugaveg. Móðir hennar fór með þær systurnar litlar, fótgangandi í sund í Sundlaugar Reykjavíkur, gömlu laugarnar við Sundlaugaveg. Hún man eftir laugunum, klefunum þar og „heita kassanum“ þar sem heitar útisturtur voru. Vatnið úr þeim streymdi í kassann fyrir neðan þar sem hægt var að liggja og láta fara vel um sig. „Svo var útiklefi eða sólklefi. Það var mjög fínt að fara þangað,“ segir hún.

Kristín og Svava í revíunni Hver maður sinn skammt

Lærði að steppa

Kristín lærði að synda í innisundlauginni í Austurbæjarskóla, þó að hún gengi í Miðbæjarbarnaskólann, enda var fjölskyldan þá flutt á Ásvallagötu. „Ég var svo mikið fyrir hreyfingu,“ rifjar hún upp. „Ég fór sjálf í íþróttir hjá Ármanni þegar ég var 11 eða 12 ára og man þegar leikfimihópurinn gekk suður á Melavöll 17. júní og sýndi þar æfingar.“

Seinna kviknaði áhugi hennar á steppi, þegar hún lærði að dansa, fyrst hjá eiginkonu Jóhanns Briem listmálara, sem var þýsk. „Ég borgaði henni 2 krónur og fór að dansa,“ segir Kristín. Elsti bróðir hennar sem var farinn að vinna bauðst til að borga fyrir hana fyrstu danskennsluna. Síðan lá leiðin í dansskóla Rigmor Hansen og áfram hélt hún að steppa ásamt vinkonu sinni, Svövu Jónsdóttur. Saman áttu þær eftir að sýna stepp og dönsuðu einnig í revíum.

Góðar tröppur niður í laugina

Áhuginn á sundinu blundaði alltaf með Kristínu þótt aðstæður hennar til sundiðkunar væru misjafnar í gegnum tíðina, og stundum leið nokkur tími milli þess að hún færi í sund. Hún var orðin sextug þegar hún byrjaði að sækja Sundlaugina í Garðabæ ásamt systur sinni, Hönnu. Hún bjó þá í Kópavogi. „Laugin þar var þá splunkuný og flott, eins og hún er enn þann dag í dag. Gengið er niður tröppur til að fara ofan í hana, en ekki verið að klöngrast niður stiga í veggnum, eins og algengt er í sundlaugum,“ segir hún.

Skiptast á að sækja hana í sundið

Það varð úr að þær systur ílentust í Ásgarðslauginni og ekki bara út af sundinu. Ein af ástæðunum fyrir því var sundhópur um 30 kvenna sem kallaði sig Vatnaliljur og stundaði saman sund í lauginni. „Við fórum á hverju sumri í ferðalag út úr bænum og það varð að vera sundlaug á þeirri leið, þar sem hægt var að stoppa og fá sér sundsprett. Nokkrar kvennanna áttu sumarbústaði sem þær opnuðu fyrir okkur og héldu veislur. Slegið var saman í matinn og hjálpast að við að bera fram fínustu kræsingar. Við Hanna vorum svo heppnar að detta inn í þetta, þetta var svo notalegt og skemmtilegt,“ segir Kristín. Hanna systir hennar féll frá árið 2008. Kristín syndir enn og það hefur ekki komið að sök að hún er hætt að keyra, því þrjár konur úr sundhópnum skiptast á að sækja hana í sundið. „Þetta er einstakt,“ segir hún þakklát þeim fyrir að gera sér kleift að synda og rækta heilsuna.

Þessi grein birtist fyrst á vefnum í nóvember 2021

Ritstjórn nóvember 15, 2022 07:00