Kynning

„Maður krýpur fyrir viðskiptavininn“

Gæði og góð þjónusta eru kjörorð starfskvenna elstu kvenfataverslunar landsins, Bernharð Laxdal. Sú verslun er komin vel fram yfir eftirlaunaaldur. Á því er hins vegar engin ellimerki að finna, enda þau gildi sem höfð eru heiðri þar sígild þótt þau séu að verða fágæt ef miðað er við nútímaverslunarhætti. Guðbjörg Hjálmarsdóttir rekstrarstjóri Bernharð Laxdal og Sólrún Rós Eiríksdóttir framkvæmdastjóri eru í hópi þeirra sem taka á móti viðskiptavinum í þessari rótgrónu verslun.

Þetta er fyrirtæki með langa sögu, ekki satt? „Já, heldur betur,“ segir Guðbjörg. „Bernharð Laxdal var stofnað árið 1938 af klæðskeranum Bernharð Laxdal. Dyrnar hafa verið opnar síðan eða í 86 ár og geri aðrir betur. Verslunin var í eigu hans fjölskyldu til ársins 2001 þá tóku núverandi eigendur við, Guðrún R. Axelsdóttir og Einar Eiríksson. Þau keyptu verslunina í maí og ráku hana á Laugavegi 63 þar til þau fluttu í Skipholt 29 2015.“

„Þau vildu stækka verslunina og hér bauðst stærra húsnæði,“ segir Sólrún. „Við máttum alveg við því að stækka.“

Áhersla á vandaðar yfirhafnir

Líklega muna flestir eftir Bernharð Laxdal á Laugaveginum, fyrst í Kjörgarði, fyrsta stórmarkaði landsins, en það þótti mikið ævintýri að heimsækja þann stað og fara í rúllustiga upp á aðra hæð. Síðar var verslunin flutt í nýtt hús þar við hliðina. Þangað komu margir í fylgd mæðra sinna þegar verið var að velja nýja vetrarkápu, úlpu eða sparijakka. Hefur alltaf verið lögð sérstök áhersla á yfirhafnir hér?

„Heldur betur,“ segir Guðbjörg. „Grunnurinn okkar er yfirhafnir og annar fatnaður kemur inn á síðari stigum. Bernharð Laxdal byrjaði á að sauma kápur og var þekktur fyrir að sauma fermingarkápurnar fyrir stúlkurnar sem fermdust á fyrstu árum fyrirtækisins. Það hefur alltaf verið flaggið okkar að bjóða vandaðar og góðar yfirhafnir. Við bjóðum vörur frá mörgum stórum og flottum fatamerkjum á borð við Gerry Weber og Betty Barclay. Þau eiga það sameiginlegt að bjóða bæði yfirhafnir og fatnað en Junge, Fuchs Schmitt og Saki eru eingöngu í yfirhöfnum. Okkar stolt er Cinzia Rocca, ítalskt yfirhafnafyrirtæki, en þaðan koma klassískar, flottar hágæðaullarkápur. Nú og svo má ekki gleyma Barilocce spænsku merki með frábæran fatnað. “

Heyrst hefur að flíkur frá ykkur erfist frá kynslóð til kynslóðar og þriðja kynslóð kvenna skarti nú kápum héðan. Það er því ekki hægt að flokka fatnað sem héðan kemur undir fast fashion.

„Nei, við erum bara alls ekki fast fashion.“ segir Sólrún. „Við leggjum metnað í vera það ekki. Við leggjum áherslu á sígildar vörur einmitt vegna þess að við viljum ekki fötin detti bara úr tísku eftir ár. Það er ekki okkar markmið. Helst viljum við að flíkin endist konu út lífið og þannig eru Cinzia Rocca-kápurnar okkar einmitt. Þær endast í tugi ára.“

„Við sveiflum aðeins með tískustraumum en aðaláherslan er alltaf á klassísk snið, vönduð efni og vörur sem endast,“ bætir Guðbjörg við. „Það er númer eitt tvö og þrjú þótt við séum með inn á milli fatnað sem er í hátísku þá og þá stundina.“

Bernharð Laxdal hefur ávallt sérhæft sig í vönduðum yfirhöfnum.

Mjög vandlátar á efni og þurfa að snerta þau

Þetta eru góð markmið á tímum loftslagsvár. Að snúa við þeirri öfugþróun er stærsta viðfangsefni allra þjóða og meðal þess sem þarf að gæta að er gríðleg sóun á textíl. Talið er að nú þegar hafi verið framleitt nóg af fötum til að klæða næstu sex kynslóðir mannkyns. En hvernig veljið þið fatnað inn í verslunina?

„Við förum iðulega tvær til þrjár á vörusýningar í Kaupmannahöfn vegna þess að okkar stærstu vörumerki eru þar. Þetta er alltaf hópvinna og við reynum að vinna ákveðna forvinnu áður en haldið er af stað og allt starfsfólk hefur rödd í því.  Fyrst og fremst ráða gæði alltaf för. Við erum mjög vandlátar á efni og þurfum að þess vegna að koma við flíka og snerta efnin til að finna hvernig það er. Þegar efnin eru góð eru líkur á að fötin fari á milli og endist fleiri en einni konu. Við leggjum mikið upp úr því að vera með klassísk góð snið og sígilda vöru með svona tískustraumum inn í.“

„Við leitum eftir jafnvægi,“ bætir Sólrún við. „Að finna eitthvað klassískt og flott sem engu að síður fellur vel að því sem er mest í tísku hverju sinni.“

Vandaður klassískur fatnaður er í öndvegi í versluninni Bernharð Laxdal.

Kaupa inn með fastakúnna í huga

Koma margar konur hingað aftur og aftur og eigið þið fastakúnna sem eru nánast eins og vinkonur ykkar?

„Já, já, já,“ segir Guðbjörg. „Það er svo sannarlega þannig. Við höfum þær meira að segja oft í huga þegar við erum úti á vörusýningum að kaupa inn. Ég hugsa stundum þegar ég sé einhverja flík, vá þessi myndi klæða hana þessa vel, og er þá með einhverja tiltekna konu í huga. Þá kemur til þessi persónulega þjónusta sem á sér stað í minni fyrirtækjaeiningum þar sem viðskiptavinurinn og starfsmaðurinn eru í nánd.“

„Hið sama gildir ef einhver tiltekinn viðskiptavinur finnur ekki eitthvað sem hann er að leita að,“ bætir Sólrún við. „Þá höfum augun opin og leitum eftir því þegar við erum að kaupa. Við hlustum á óskir viðskiptavinanna og það eru okkar konur, þegar þær koma hingað til að versla sem gefa okkur hugmyndir um hvað muni verða eftirsótt.“

„Í svona mikilli nánd við viðskiptavininn þá myndast umræða á milli á faglegum nótum,“ segir Guðbjörg. „Sumar konur koma hingað og vilja gjarnan að einhver tiltekinn starfsmaður sinni þeim.  Hún er búin að finna sinn starfsmann. Einu sinni kom ung stúlka í verslunina fyrir jól og hana vantaði jólagjöf handa ömmu sinni. Ég horfði á hana og spurði: „Ertu ekki barnabarnið hennar X?“ „Ha, veistu það?“ Spurði hún alveg undrandi. En fjölskyldusvipurinn var svo sterkur að ég var ekki vafa. Ég vissi alveg hver smekkur ömmu hennar var þannig að hún gat keypt jólagjöf handa ömmu sem hún gat verið viss um að slægi í gegn.

Við erum ofboðslega hepnnar að því leytinu til að hér vinnur einstaklega gott starfsfólk. Við erum allar natnar við viðskiptavininn og þótt við séum á mismunandi aldri erum allar eins og jafnar á gólfinu.“

„Við vinnum ofboðslega vel saman og þótt verkefnin séu misjöfn reynum við að vinna þau saman og teymisvinnan er þannig að ef einhver veikist eða fer í sumarfrí gengur einhver önnur hiklaust í hennar störf. Það geta allir gripið boltann þegar þörf er á. Þótt við séum allar ómissandi er teymisvinnan svo rík og góð samskiptin okkar á milli einnig,“ segir Sólrún.

Ítalska merkið Cinczia Rocca framleiðir hágæðaullarkápur. Þess eru dæmi að þrjár kynslóðir kvenna klæðist einni og sömu kápunni.

Stytta buxur, síkka pils, lengja ermar

Þegar undirrituð keypti sína fyrstu kápu í Bernharð Laxdal þurfti að lengja ermarnar. Það var ekkert mál og flíkin send til sérfræðings í því og sótt tveimur dögum seinna. Bjóðið þið enn þessa þjónustu?

„Já, við styttum buxur, síkkum buxur og fleira og fleira,“ segir Guðbjörg. „Þær hafa stundum áhyggjur af mér þegar ég beygi mig til að næla upp buxnafald með títuprjónum og spyrja áhyggjufullar: „Ætlarðu að fara niður á fjóra fætur?“ Og ég svara: „Já, maður krýpur fyrir viðskiptavininn.“ En þegar þessi þjónusta er til staðar skapast einmitt þessi nálægð við viðskiptavininn sem ég hef verið að tala um. Þetta er sérverslun og þarf að bjóða einmitt slíka þjónustu.“

„Svo lengi sem það er hægt,“ segir Sólrún. „Stundum er kannski ekki hægt að lengja ermar eða síkka buxur en allar breytingar sem flíkin býður upp á að séu gerðar gerum við. Og talandi um nándina við viðskiptavini okkar. Þær geta alltaf hringt í okkur. Öllum símtölum er svarað og það skiptir okkur miklu máli að þær geti náð í okkur. Margar vilja vita hvort eitthvað sé til áður en þær leggja af stað og spara sér ferð sé það ekki. “

„Einmitt og fá að vita hvort eitthvað sé komið úr styttingu eða breytingu áður en farið er til að sækja það,“ heldur Guðbjörg áfram. „Þetta er svolítið á undanhaldi nú orðið að hægt sé að ná beinu símasambandi við verslanir. Það getur einnig ýmislegt komið upp á, veikindi og annað, og þá höfum við verið alveg til í að skutla fatnaðnum til þeirra á leiðinni heim úr vinnu. Það hefur gerst oftar en einu sinni. Einhver okkar fréttir af svona máli og segir: „Ég keyri þarna framhjá á leiðinni heim. Ég skal bara grípa þetta með mér.“

„Svo getur líka verið pressa og það liggur á flíkinni,“ bætir Sólrún við. „Einhver er á leið í brúðkaup eða jarðarför og þá hefur Guðbjörg til að mynda farið sótt hana og komið henni til viðkomandi viðskiptavinar, jafnvel klukkan tíu á kvöldin.“

„Þetta er kannski ekki venjan en ef við sjáum okkur fært að veita þjónustu á þennan hátt þá gerum við það. Við erum svo heppnar að einingin er ekki mjög stór og fyrir vikið getum við lagt okkur meira fram. Þjónusta selur og ef viðskiptavinur fær góða þjónustu er hann tilbúinn að koma aftur. Svo framarlega sem við höfum tækifæri til að veita slíka þjónustu þá gerum við það,“ segir Guðbjörg brosandi að lokum. En um þessar mundir er verslunin Bernharð Laxdal full af glæsilegum haustvörum. Vind- og vatnsvarðar úlpur og kápur einmitt það sem vantar núna þegar haustkulið verður sífellt naprara. Auk þess eru jakkar, kjólar, bolir, buxur og blússur eða einfaldlega fatnaður fyrir öll tækifæri og við allra hæfi.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 4, 2024 16:28