Mælt með að sextugir og eldri fari í flensusprautu

Margir hafa örugglega þegar látið bólusetja sig gegn innflúensu. Það er mismunandi eftir heilsugæslustöðvum hvernig staðið er að bólusetningunum, en þeir sem eru komnir yfir sextugt eru í forgangshópi hjá öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og Þórarinn Guðnason sóttvarnarlæknir mælir með því að þeir fari og láti bólusetja sig. Fólk á þessum aldri á frekar á hættu að fá alvarlegar afleiðingar innflúensunnar. Þórarinn segir það vegna þess að þessir eintaklingar séu oft með undirliggjandi sjúkdóma og svo sé ónæmiskerfið oft farið að gefa sig þegar menn eru komnir yfir sextugt.

Innflúensu bóluefni eru mjög örugg að sögn Þórarins en geta valdið aukaverkunum eins og hita, roða og eymslum á stungustað og vöðvaverkjum. Hann segir að fólk fái ekki innflúensu af völdum bólusetningarinnar og engin vísindaleg rök séu fyrir því, að bólusettir einstaklingr fái flensuna verr en ef þeir væru óbólusettir. Það eru heldur engar vísindalegar sannanir fyrir alvarlegum afleiðingum bólusetningarinnar segir hann.

Það eru fimmtan heilsugæslustöðvar sem heyra undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og menn eiga að fara á sína heilsugæslu til að fá bólusetningu. Þeir sem eru 67 ára og eldri fá bólusetninguna frítt og greiða ekki komugjald á heilsugæslustöðina. Fyrir þá er bara að kynna sér hvenær bólusetningin fer fram á þeirra stöð og drífa sig. Þeir sem eru rúmlega sextugir greiða hins vegar 1200 króna komugjald þegar þeir mæta í bólusetninguna, en fá bóluefnið frítt þar sem þeir eru í forgangshópi.  Lyfja í Lágmúla er einnig með flensubólusetningar ákveðna daga, næstu bólusetningar þar eru á miðvikudag og fimmtudag í næstu viku milli klukkan 11 og 13. Bólusenting fyrir sextuga og eldri kostar 1190 krónur þar.

Fólk getur fengið innflúensu þó það sé bólusett, en rannsóknir hafa sýnt að hún er að öllu jöfnu vægari en hjá óbólusettum.  Það er sem sagt hiklaust mælt með því að sextugir og eldri láti bólusetja sig fyrir flensunni.

 

Ritstjórn október 31, 2019 04:21