Tengdar greinar

Magnús Oddsson fyrrverandi ferðamálastjóri

„Ég hætti ungur að vinna, var ekki nema sextugur. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun minni að hætta á þessum tíma, það má eiginlega segja að ég hafi gengið blístrandi út af skrifstofunni daginn sem ég hætti. Nú eru liðin tíu ár frá því ég lét af störfum og ég hef haft nóg að gera,“ segir Magnús Oddsson fyrrverandi ferðamálastjóri.

Magnús byrjaði ungur að árum að skipta sér af ferðamálum. Fyrir þrítugt fór hann að vinna á ferðaskrifstofu, vann í flugrekstri í 10 ár en fór þá að vinna að ferðamálum á opinberum vettvang. Hann var skipaður ferðamálastjóri 1993. Það var svo undir lok árs 2007 sem hann ákvað að láta af því embætti.

„Það má eiginlega segja að þrír þættir hafi ráðið því að ég ákvað að hætta. Þriðja skipunartímabilinu í mínu embætti var að ljúka, það var ákveðið að um áramótin 2007/08 myndi stofnunin færast úr samgönguráðuneytinu og yfir í iðnaðarráðuneytið og í þriðja lagi var ég kominn á 95 ára regluna. Ég hætti daginn sem ég komst á hana,“ segir Magnús. Hann segir að hann hafi ákveðið um leið og lét af störfum að hætta alveg og vera ekkert að skipta sér af því sem eftirmenn hans tækju sér fyrir hendur. „Ég held að ég hafi komið þrisvar á skrifstofuna síðan ég hætti,“ segir Magnús og hlær en bætir svo við að hann hafi haldið góðu sambandi við marga þá sem hann vann með. Margir þeirra eru nú hættir störfum og nokkrir þessara fyrrverandi vinnufélaga hittast reglulega. „Þetta eru vinir mínir,“ segir hann.

 Eftir að Magnús hætti tók við nýr kafli í lífi hans. Magnús segist hafa verið búinn að velta því nokkuð fyrir sér hvað myndi taka við þegar hann hætti. „Ég var með ýmislegt í huga. Ég hafði haft mikinn áhuga á golfi árum saman og taldi að sú hreyfing sem maður fær við að spila golf myndi redda mér líkamlega. Svo hafði ég velt því fyrir mér hvernig ég myndi viðhalda mér andlega. Ég var að hugsa um að fara á briddsnámskeið til að halda hausnum í lagi. Ég hef hins vegar aldrei komist í það, það er bara búið að vera svo mikið að gera í öðru. Ef mér fer einhvern tímann að leiðast get ég alltaf skellt mér á námskeið í bridds,“ segir hann og kímir.  Fljótlega eftir að Magnús hætti varð hann stjórnarformaður í Golf Iceland og hefur sinnt því starfi hálfan daginn.  Golf Iceland var stofnað af golfsambandinu, eigendum golfvalla og fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Markmiðið var að fá erlenda kylfinga til að spila hér á landi. „Þetta hefur gengið mjög vel. Það má segja að erlendum kylfingum hafi fjölgað í takt við fjölgun ferðamanna hér landi,“ segir Magnús.

Magnús og eiginkona hans eiga líka sumarbústað í Grímsnesinu og þar hefur verið nóg að gera við dytta að og halda öllu í horfinu. Hann var líka beðinn um að taka að sér formennsku í Félagi eldri borgara á Seltjarnarnesi og hefur gengt starfi formanns þar síðast liðinn tvö ár. Auk þess hefur hann setið í Öldungaráði Seltjarnarness. „Mér hefur fundist hvoru tveggja mjög ánægjulegt. Það er mjög gaman að sinna þessu,“ segir Magnús að lokum.

Ritstjórn janúar 24, 2018 12:44