Makamissir er eitt algengasta áfall sem fólk verður fyrir

Makamissir er heiti bókar eftir Guðfinnu Eydal og Önnu Ingólfdóttur. Í formála bókarinnar sem Unnur Anna Valdimarsdóttir og Arna Hauksdóttir, prófessorar við læknadeild HÍ rita, segir:

„Ef okkur lánast að eiga nokkuð langa ævi liggur það fyrir okkur flestum að upplifa ástvinamissi og sorg. Þessar ögurstundir eru okkur flestum framandi þar til við allt í einu stöndum frammi fyrir þeim og líklega fátt sem getur undirbúið okkur undir þær. Við missi erum við skyndilega komin á ókunnan stað, þekkjum hvorki okkur sjálf né lífið án hins látna og þurfum að púsla saman nýrri mynd af því og feta okkur áfram“.

Þungbær reynsla

Guðfinna og Anna hafa báðar reynslu af því að missa maka sinn. Maður Guðfinnu lést skyndilega úr hjartaáfalli en maður Önnu dó eftir nokkurra mánaða veikindi úr krabbameini. Þessi lífsreynsla leiddi þær saman og varð fyrsta fræið að bókinni.

„Þrátt fyrir að ég sé reyndur sálfræðingur og hafi haft þekkingu á áföllum og viðbrögðum við þeim, kom engu að síður á óvart hversu þungbært það var að missa maka. Þegar ég sjálf varð fyrir missinum komst ég að því hversu sárlega vantaði aðgengilegt efni um þetta viðkvæma málefni“, segir Guðfinna. „Makamissir er algengasta áfall sem fólk verður fyrir og talið það alvarlegasta. Á hverju andartaki verður einhver fyrir slíkri reynslu. Makamissir hefur mikil áhrif á bæði andlega og líkamlega líðan og getur haft afleiðingar fyrir heilsuna til lengri tíma. Þess vegna er mikilvægt fyrir þann sem missir að leitast við að verða sér úti um þekkingu til að skilja betur það áfall sem makamissir er. Slík þekking getur hjálpað syrgjanda að vinna með sorgina, lifa með missinum og halda áfram með lífið. Hún getur einnig gagnast aðstandendum, vinum, fagfólki og öllum sem vilja kynna sér málefnið,“ segir hún.  Í bókinni segir eftirfarandi um makamissinn:

Aðdragandi dauðans getur verið með margvíslegum hætti. Stundum eru langvarandi veikindi undanfari andláts. Þá nálgast dauðinn með langri þjáningarfullri þrautagöngu sem oft virðist engann enda ætla að taka.  Sveiflur milli vonar og ótta  taka á krafta og geðheilsu. En stundum deyr manneskja fyrirvaralaust. Hún vaknar heilbrigð að morgni og er dáin að kveldi. Fyrirvari andláts er oft lítill og þá reynist erfitt að skynja að dauðinn sé í nánd. Það getur gerst vegna skyndilegra snarpra veikinda eða afleiðinga aðgerða eða slysa. Hvernig sem dauðinn birtist kemur hann okkur yfirleitt á óvart og í opna skjöldu þegar við stöndum frammi fyrir honum.

Sorginni er í bókinni líkt við storm sem geisar:

Andlát maka markar ávallt afgerandi þáttaskil hjá þeim sem eftir lifir. Dauðinn er orðinn staðreynd og sambandinu við makann er lokið. Makinn er dáinn. Því er ekki hægt að breyta. Blákaldur veruleikinn blasir við. Fyrst í stað snýst lífið aðallega um að reyna að lifa dagana og vikurnar af. Harmurinn getur verið svo mikill að þér finnst hann nánast bera þig ofurliði á köflum. Það má líkja ástandinu við storm sem geisar þar sem engar leiðir virðast færar út. Þú vilt ekki vera stödd í þessum stormi en getur í byrjun lítið annað gert. Það eina í stöðunni er að bíða hann af sér. Hægt og bítandi mildast ofsinn en hviðurnar halda þó áfram að koma með reglulegu millibili í skemmri eða lengri tíma.“

Guðfinna Eydal

Guðfinna segir að við makamissi sé eins og fótunum sé kippt undan manni. Í fyrstu sé erfitt að ráða við álagið sem missirinn veldur, mikið rót kemur á hugann og líkamsstarfsemin raskast. Viðbrögð margra einkennast í fyrstu af doða, depurð og gráti í tíma og ótíma, slæmum svefni, þreytu og vanlíðan. Fólk þarf að reyna að hlúa að sér í byrjun og þá veltir það oft fyrir sér hvort það muni nokkurn tíma komast út úr sorginni. Erfitt er að spá fyrir um hvernig einstaklingur muni bregðast við andláti maka síns og hvernig hann muni lifa með þeirri reynslu, hvort sem aðdragandi að dauða var enginn eða langur. Slíkt er alltaf háð hverjum og einum og þeim bjargráðum sem hann finnur til að ráða við aðstæður. Oft finnur fólk fyrir ákveðinni „kröfu“ frá samfélaginu um að sorginni eigi að ljúka miklu fyrr en raunin er með sorgina. Það getur tekið langan tíma að lifa með því að hafa orðið fyrir þessari lífsreynslu. Flestir feta veginn, hægt og rólega áfram með góðri aðstoð ættingja og vina en margir þurfa bæði og velja það að leita faglegrar hjálpar. 

Breytt hlutverk og staða

„Við makamissi stendur sá sem eftir lifir á krossgötum vegna aðstæðna sem hann hefur ekki kosið sér sjálfur. Hann á ekki lengur það líf sem hann ætlaði að eiga með maka sínum. Það hefur miklar breytingar í för með sér fyrir hann, á öllum sviðum lífsins. Félagsleg staða breytist mjög mikið og staðan í vinahópnum verður önnur“, segir Guðfinna og vísar í bókina:

Það er margt sem getur orðið viðkvæmt í samskiptum við gamla vini þegar þú ert orðinn einn. Það að sjá hin vinapörin en vera nú einn sýnir þér áþreifanlega að staða þín er breytt. Þú  passar ekki lengur inn í hópinn á sama hátt og áður. Þú átt ekki maka lengur og því ertu ekki lengur hluti af því parasamfélagi sem tengir þennan hóp saman. Hópurinn hefur breyst. Að mæta einn í matarboð eða á sameiginlega fagnaði getur valdið sérstökum sársauka. Að frétta af því að gamlir vinir hafi hist í heimahúsi eða farið til útlanda án þess að hafa haft samband við þig kallar hæglega fram höfunartilfiningu.

Þú mátar þig nú smám  saman inn í þann raunveruleika að þú ert nú orðinn einn. Þegar frá líður horfist þú í augu vð þessa breyttu stöðu og aðlagast henni. Þú hættir smám saman að taka hlutina eins mikið inná þig og í fyrstu. Þú ferð að velja með meðvitaðri hætti hverja þú umgengst og hverja ekki. Þá geta tengsl orðið sterkari við einhverja sameiginlega vini á meðan samskipti við aðra verða minni. Sumir gamlir vinir hverfa kannski nánast alveg út úr lífi þínu“.

Anna Ingólfsdóttir

Lífið gefur – lífið tekur – lífið gefur aftur

Í bókinni segir: „Við munum öll verða fyrir áföllum á lífsleiðinni, við vitum ekki hvenær eitthvað gerist, hvað það verður, né heldur með hvaða hætti. Við munum þurfa að standa andspænis því að missa einhvern sem við elskum. Við getum ekki breytt því. Við getum hins vegar unnið með viðhorf okkar og lífsafstöðu gagnvart þeim missi sem við höfum orðið fyrir. Við þurfum að lifa með missinum og minna okkur á að lífið gefur, lífið tekur og lífið getur gefið aftur“.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru um efni bókarinnar Makamissi, þar sem farið er ítarlega yfir það áfall að missa maka sinn og afleiðingar þess. Í bókinn er meðal annars farið í gegnum það sem gerist innra með manneskju þegar hún missir maka. Algengum viðbrögðum við makamissi er lýst og hversu alvarleg streita getur orðið í tengslum við missinn. Aftast í bókinni eru verkefni í sorgarúrvinnslu.

Bókin er fáanleg í bókabúðum og í netverslun Háskólaútgáfunnar á slóð sem þú finnur með því að smella hér.

 

 

 

 

 

Ritstjórn október 20, 2022 07:00