Synir sáttari við stefnumót foreldra eftir makamissi

Rannsóknir á viðhorfum fullorðinna barna til foreldra sem fara að hitta nýja aðila eftir makamissi sýna að dætur eiga erfiðara með það en synir, þegar foreldrar fara á stefnumót að nýju.

Tíminn sem er liðinn frá því að makinn lést skiptir miklu máli í þessu tilliti. Til að mynda virðist vera að ef 6 mánuðir eru liðnir frá missinum fái eftirlifandi foreldri lítinn stuðning frá börnum sínum vilji það fara á stefnumót.

Þó að það sé engin regla til um hvað sé rétti tíminn til að byrja að hitta annað fólk að nýju, þá er því lengri tími sem líður betri hvað þetta varðar. (Carr, Boerner, Joas, 2013). Hafa ber í huga að börnin eru að syrgja móður sína eða föður og ef eftirlifandi foreldri fer of snemma af stað getur það verið túlkað af börnunum eins og hjónabandið hafi ekki skipt það miklu máli og það sé komið yfir missinn á ekki lengri tíma en raun ber vitni. Þetta getur valdið mikilli vanlíðan hjá börnunum og erfiðum samskiptum við þau.

Auðvitað skiptir líka máli hvernig sambandi barns við eftirlifandi foreldri var háttað áður en dauðsfallið varð auk þess með hvaða hætti andlátið bar að. Var sá látni til dæmis búinn að vera lengi veikur og voru hjónin eða fjölskyldan búin að ræða um málefni sem þetta?

Það sem virkar jákvætt á samband milli foreldra og uppkomins barns, er að foreldrarnir ræði hugsanleg stefnumót við börnin sín áður en af þeim verður. Fram kemur að konur gera það frekar en karlar. Þetta er mjög jákvætt skref fyrir alla við þessar aðstæður og gerir ferlið auðveldara, auk þess sem börnin verða jákvæðari gagnvart nýjum kynnum. Allt þetta og heilbrigð skynsemi, að sjálfsögðu, segir okkur hvenær við erum tilbúin að fara af stað að nýju eftir makamissi.

En eitt er víst, samskipti við annað fólk eru jákvæð fyrir heilsuna.

Ritstjórn febrúar 20, 2014 17:26