Margrét Frímannsdóttir fyrrverandi alþingismaður

Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi aþingismaður og fangelsisstjóri á Litla Hrauni, titlar sig húsmóður í símaskránni. „Mér finnst bara fáránlegt að vera fyrrverandi þetta eða hitt, maður er bara það sem maður er í dag“, segir hún þegar blaðamaður Lifðu núna hringir í hana til að forvitnast um hvað hún sé að gera. „Líf húsmóður í Kópavogi er óskaplega indælt. Svo er ég að vinna í Garðyrkjustöðinni Storð á Dalvegi, en ég er ekki garðyrkjufræðingur og titla mig ekki þannig“.

Margrét segist reyna að sinna heimili, börnum, tengdabörnum og barnabörnum eins og hún geti. Þá sé hún með stóran garð, sem hún sé mikið fyrir að dunda sér í.  Það sé alveg hægt að gera í rigningu, þó það sé ekki alveg eins og þegar allt sé þurrt, hlýlegt og notalegt. „Það er í rauninni meira að gera í garðinum í svona veðri, því arfinn  vex svo hratt“, segir hún og bætir við að hún hafi gaman af að hugsa um heimilið og elda. „Okkur hjónunum finnst báðum gaman að elda og prófa nýja rétti“. Margrét segir að það sé gaman að fá barnabörnin í mat, en þau séu mjög dugleg að borða. Þegar hún er spurð hvort þau borði eitthvað annað en pizzur og spaghetti, svarar hún.  „Það er aldrei boðið uppá pizzu hér, steiktur fiskur í raspi er hins vegar mjög vinsæll. Níu ára ömmustelpa hafði orð á því um daginn hvort það væri ekki hægt að gera það að fjölskyldusið að borða alltaf steiktan fisk á laugardögum hjá ömmu og afa“.

Það styttist í að Margrét verði 65 ára og hún segist vera farin að hugsa öðruvísi. Henni séu lífeyrismálin hugleikin og hvernig farið er með fólk þegar það kemst á eftirlaun. „ Bara hvernig er gengið á allan rétt manna. Það er stórt réttindamál. Ég var náttúrulega opinber starfsmaður og þingmaður og það er öðruvísi, en þegar hugsað er um heildina þá eru margir beittir miklum órétti. Lífeyrir er skertur og komið í veg fyrir að fólk geti unnið eitthvað smávegis, þó það væru ekki nema nokkrir klukkutímar á dag.  Manni finnst að þeir sem hafa borgað í lífeyrissjóð alla tíð eigi  rétt á að fá sitt án skerðinga“.

Margrét starfaði sem stjórnmálamaður og mörgum finnst að einmitt þeir skilji ekki lífeyrismálin og hafi í raun ekki áhuga á að bæta þar úr. Hún segir að stjórnmálamennirnir viðurkenni vandann, sérstaklega í umræðum fyrir kosningar, en samt gerist ekki neitt. „Ég átti vona á að ríkisstjórn með VG innanborðs myndi standa fyrir meiri leiðréttingu, að þetta yrði ofar á baugi hjá stjórninni en reyndin hefur verið. Það vill oft verða þannig, að þegar menn eru komnir með völdin, þá verður minna úr aðgerðum, en engu að síður, það er búið að ræða þetta svo lengi að það ætti eitthvað að gerast“, segir hún og bætir við að fólki sé beint og óbeint ýtt út af vinnumarkaðinum, fólki sem gæti unnið nokkra tíma á dag og haldið heilsunni. „Það er oft afleiðing þess þegar fólki er ýtt út af vinnumarkaðinum að það missir heilsuna. Það er fylgni þar á milli“. Aðspurð hvort hún myndi berjast fyrir þessum málum ef hún væri enn á þingi, segir hún að sjálfsagt myndi hún gera það. „Þetta er auðvitað nær mér í tíma en það var, maður fer að leggja áherslu á aðra hluti með aldrinum og sér þá öðruvísi. En það er fólk á þingi sem er komið á þennan aldur og ég býst við að það sé opnara fyrir þessari umræðu“.

Margrét segir að eftirlaun þingmanna séu ágæt, en það fari eftir því hversu lengi þeir hafi verið þingmenn. Hún telur að það eigi ekki að koma í veg fyrir að þeir skilji annmarkana á eftirlaunakerfinu. „Það eiga allir ýmist foreldra, ættinga eða vini sem búa ekki að jafn góðum lífeyri. Ég þekki  mörg dæmi um það og það gera aðrir örugglega líka“.

Margrét segir að margt eftirlaunafólk flytji til Spánar og búi þar hluta úr ári. „Við gerðum þetta síðast liðinn vetur, leigðum okkur hús á Spáni í sex vikur. Það er ekkert hægt að líkja því saman, hvað þú þarft miklu minna til að komast af þar. Maturinn er ódýrari, það er allt ódýrara en heima. Við hittum þarna ung hjón sem eru bæði öryrkjar og búin að búa í þrjú ár á Spáni. Þau gáfust upp hér heima af því að endar náðu ekki saman. Þarna lifa þau góðu lífi. En það langar alla heim og flestir vilja búa hér, en sumir geta það ekki. Þessi ungu hjón höfðu misst íbúðina sína, þau gátu ekki haldið henni. Á Spáni búa þau í góðri íbúð og geta séð fyrir sér og börnunum sínum, en þau langar alltaf heim, þar sem fjölskyldan er. Það er bara ekki í boði fyrir þessi ungu hjón. Það er erfitt að lifa hér og þarf að passa uppá þau kjör sem öldruðum og öryrkjum eru búin, þannig að þeir komist af“.

Margrét segist einskis sakna úr pólitíkinni eftir að hún hætti. „Ég hef ekki skipt mér neitt af pólitíkinni, er ekki í neinu pólitísku starfi en fylgist með eins og hver annar. Þetta var orðið fínt og þegar maður hættir á maður að hætta, en ekki reyna að vera einhver aftursætisbílstjóri. Það er enginn ómissandi og það kemur að því að það á að hleypa öðrum að. Og þá verður maður líka að gera það, treysta fólki og ekki skipta sér af því sem það er að gera eða reyna að útskýra hvað því gengur til. Ég gerði þetta bæði í pólitíkinni og fangelsismálunum. Ég hætti alveg.  Mér finnst það halda manni lifandi, maður verður sæll og ánægður en ekki bitur og reiður“, segir Margrét að lokum.

 

Ritstjórn júlí 18, 2018 09:05