Tengdar greinar

Margrét hefði sómt sér sem salondama

Svala Arnardóttir hefur um árabil búið í Þýskalandi en verið með annan fótinn hér og minnir reglulega á sig með áhugaverðum skrifum. Ekki hvað síst núna þegar hún kemur færandi hendi með bók um líf Margrétar Ákadóttur leikkonu, Sólgeislar og skuggabrekkur.

Titillinn er sannarlega til þess fallinn að vekja áhuga og Margrét er auðvitað ein af okkar virtustu og ástælustu leikkonum. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að skrifa um ævi hennar?

„Fjölbreytilegt, og margslungið líf hennar vakti áhuga minn, en einmitt þannig er hún líka sem persóna,“ segir Svala. „Það má segja að það sé vítt til veggja og hátt til lofts í hennar vistarverum. Fyrir utan leiklistina hefur hún áhuga á öllu mögulegu og ómögulegu.

Hún er alltaf að reyna að skilja hlutina og samhengi þeirra og grúskar í ýmsu í því skyni eins og  heimspeki, stjórnmálum og sögu. Hún er afbragðs samræðufélagi og það sem kryddar svo kokteilinn enn frekar er að hún er mikill húmoristi. Margrét  hefði sómt sér vel sem „salondama“ eins og þær konur voru kallaðar sem héldu hópa og samkvæmi hér áður fyrr og stúderuðu lífið og listina. Um leið er hún laus við alla tilgerð og leiðinlega upphafningu.“

Var uppnefndur svikari

Salondama er einstaklega flott orð og vekur án ef ímyndunarafl flestra af værum blundi og samræðusnillingar eru alls staðar velkomnir. Var eitthvað sem kom þér á óvart þegar Margrét fór að líta yfir farinn veg?

„Það kom mér á óvart hversu mikið uppvöxtur hennar mótaðist af því pólítíska umhverfi sem hún er alin upp í. Faðir hennar Áki Jakobsson sem var m.a. bæjarstjóri á Siglufirði og ráðherra í Viðreisnarstjórninni, gagnrýndi  Sósíalistaflokkinn, sagði sig síðan úr honum og gekk til liðs við Alþýðuflokkinn, en var þó óflokksbundinn þar. Eftir að hafa lesið dagbækur föður síns telur Margrét að hann hafi orðið fyrir pólitísku einelti í flokknum sem stuðlaði að úrsögn hans úr honum. Þetta olli straumhvörfum í lífi fjölskyldunnar, varð fjölskylduharmleikur.

Áki var uppnefndur svikari  árum saman og mátti eins og margir aðrir á þessum tíma þola persónulegar svívirðingar í blöðunum. Það er þungbært fyrir börn sem ekki skilja þessa hluti að upplifa þá útskúfun sem þessu fylgdi. Vissir fjölskyldumeðlimir og vinir sem höfðu verið heimagangar hættu að koma. Heimilið sem hafði verið eins og líflegur samkomustaður pólitískra samherja hljóðnar, verður eins og brennimerkt og skömmin teygir anga sína um allt. Þessi skömm sem börn skilja ekki verður fylgifiskur fjölskyldunnar og hefur slæmar afleiðingar. Það er kannski áhugavert fyrir okkur að skoða pólitískt umhverfi dagsins í dag. Má fólk vera ósammála innan flokka eða elur pólitíkin mögulega  á því, að allir þurfi að vera sammála þannig að úr verður „já-kór“ til að vernda hagsmuni?“

Minnir á Vanessu Redgrave

Þú ert leikhúsfræðingur að mennt. Er eitthvað sem þér finnst standa upp úr eða vera sérlega eftirminnilegt á ferli Margrétar?

„Margrét hefur átt mjög fjölbreyttan feril sem leikkona og hefur m.a. leikið á sviði, í útvarpi, sjónvarpsþáttum og bíómyndum. Hún hefur aldrei verið fastráðin leikkona og í raun er það afrek, að takast það, að búa sér til leikferil undir þeim óöruggu kringumstæðum, verandi einstæð móðir. Hún hefur haft ýmislegt til málanna að leggja varðandi starfsumhverfi leikara og ekki alltaf hlotið lófaklapp fyrir þá umræðu, heldur hefur á stundum þurft að gjalda þess.

Hún tókst á við frægar persónur í leikbókmenntunum eins og lafði Macbeth Shakespeares hjá Alþýðuleikhúsinu á sínum tíma. Mér finnst að t.d í þeirri túlkun hafi komið fram eitt af því mikilvæga sem einkennir Margréti sem leikkonu. Henni tekst að sýna það stóra í því smáa. Hún hefur vald á fínum blæbrigðum. „Það smáa er stórt í harmanna heim,“ sagði skáldið og það smáa getur einmitt verið það stóra í leiktúlkun. Þetta kemur vel fram í hlutverki hennar í nýlegri fjölskyldumynd, Birtu, þar sem dóttir hennar Helga Arnardóttir er handritshöfundur. Þar leikur hún geðþekka eldri konu í blokk í Breiðholtinu sem er hjálparhella í strembnu lífi söguhetjunnar. Og hún er hvergi nærri hætt og lék nýlega eitt af burðarhlutverkunum í nýju verki eftir Charyl Churchill, „Ein komst undan“ í Borgarleikhúsinu. Margrét lærði leiklist á Bretlandi og það hefur mótað leikstíl hennar, mér finnst hún oft minna mig á þarlendar leikkonur eins og Vanessu Redgrave.“

Kjarkurinn og útsjónarsemin heillandi

Þær Svala og Margrét kynntust fyrst í Listaháskólanum þegar Svala var við listkennaranám. Hvað finnst þér mest heillandi við sögu Margrétar?

„Kjarkurinn og útsjónarsemin eru heillandi eiginleikar í fari hennar,“ segir Svala með áherslu. „Eins og dóttir hennar orðaði það svo skemmtilega: „Mamma er alltaf forvitin um næsta dag.“ Lífsgleðin einkennir hana, hún hefur alltaf haft gaman af lífinu og tekist á við það í öllum sínum myndum. Hún hefur  mjög ríka réttlætiskennd og er fljót að sjá og skilja hvar fiskur liggur undir steini. Mér hefur stundum fundist að réttast væri að fjölfalda Margréti inn á alla þá staði eða kontóra þar sem  ákvarðanir eiga sér stað varðandi velferð fólks. Að hákarlaskip langafa hennar Hákarla-Jörundar í Hrísey sem hét Margrét, færi á fullt stím til að framfylgja réttlætinu.“

Þú býrð í Berlín en vinnur mikið á Íslandi. Hvernig gengur það?

„Ég kom fyrst til Þýskalands rétt fyrir lok ársins 2003. Ég og maðurinn minn, Arthúr Björgvin Bollason, fórum beint frá Fljótshlíðinni þar sem við bjuggum, til Frankfurt/Main. Hann fór strax í mikla vinnu við skriftir, þýðingar og PR-mennsku hjá Icelandair. Ég var heima með börnin okkar tvö sem voru þá á leikskólaaldri sem mér fundust vera  mikil forréttindi, að fá að vera með krökkunum, þurfa ekki að troða þeim í kuldagallann fyrir alla aldir og æða út í misblíða veðráttuna og skrapa framrúðuna á bílnum.

Á þessum tíma var ég líka með vikulega pistla hjá RÚV frá Þýskalandi ásamt því að sinna skriftum. Seinna fórum við aftur til Íslands og þá sinnti ég leiklistarkennslu í Seljaskóla en ég hafði þá lokið meistaraprófi frá Listkennsludeild LHÍ með áherslu á leiklist. Sú hugmynd hafði komið upp hjá okkur hjónum að fara til Berlínar og þegar dóttir okkar hugði á framhaldsnám þar, létum við til skarar skríða og fluttum út í annað sinn. Berlín er heil veröld sem tekur langan tíma að kynnast. Hvert hverfi er heimur út af fyrir sig, með sínum sérkennum og sögu. Þú gengur oft framhjá einhverjum húsum sem er merkt sögufrægum einstaklingum. Hér í grennd við okkur er t.d. hús rithöfundarins Erich Kästner sem samdi m.a. Emil og leynilögreglustrákana sem flestir þekkja; í næstu götu við okkur bjó Albert Einstein og þar hangir alltaf borði með afstæðiskenningunni á efstu svölum. Svo kemurðu á næsta horn og manni verður litið á litlu koparplöturnar sem víða eru greyptar ofan í gangstéttarhellurnar með nöfnum þeirra Gyðinga sem voru fjarlægðir af heimilum sínum og myrtir í útrýmingabúðum nasista. Sagan í allri sinni grimmd og fegurð er hér við hvert fótmál.

Það er ekki tilviljun að hér búa margir listamenn, enda veitir borgin skapandi fólki mikinn innblástur. Ég fæst sjálf við skriftir og hér í Berlín gefst gott næði til þess. Núna er ég að vinna úr hugmynd sem ég hef gengið lengi með. Það er líka svo gott að fá fjarlægðina og geta virt hlutina fyrir sér, þá sér maður það sem ekki sést í nálægðinni. Stundum finnst mér að þessi  fjarlægð væri holl fyrir alla Íslendinga að skynja. En ég kem oft til Íslands, þar búa sonur minn, ættingjar og vinir. Alltaf yndislegt að svamla um í sundlaugunum, borða skjannahvítan fiskinn og komast í náttúruna sem er alltumlykjandi. Dóttir mín sem er alin upp í Þýsklandi og er tvítyngd orðaði það  svo skemmtilega: „Náttúran á Íslandi er alltaf hjá mér í hjartanu og fer aldrei,““ segir Svala að lokum og það er falleg hugsun. Sólgeislar og skuggabrekkur bíða svo áhugasamra lesenda hér heima.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 15, 2023 07:00